Frá setningu EURAM 2018. Um 1.700 gestir sækja viðburðinn, og er það ríflega tvöföldun frá síðustu ráðstefnu.
Frá setningu EURAM 2018. Um 1.700 gestir sækja viðburðinn, og er það ríflega tvöföldun frá síðustu ráðstefnu. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Gestir EURAM 2018-ráðstefnunnar hafa m.a. rætt þann möguleika að gera það að reglu að hávísindalegum fræðigreinum á sviði viðskipta og stjórnunar fylgi stutt samantekt sem almennir lesendur geta skilið.

„Viðskipta- og stjórnunarfræðin glíma við það vandamál að akademían hefur búið til kerfi þar sem fræðimenn skrifa aðallega fyrir aðra fræðimenn. Er varla að nokkur annar komist inn í þessa hringrás eða hafi yfirhöfuð á henni áhuga því að greinarnar eru oft svo tæknilegs eðlis að það er ekki á færi hvers sem er að átta sig á innihaldinu. Kerfið hefur verið sett þannig upp að það sem skiptir mestu máli fyrir launakjör fræðimanna og framgöngu innan háskólanna er að gefa út sem flestar greinar hjá sem virtustum ritum – þeir græða ekkert á því að reyna að ná til almennings. Þannig fer mesta yfirfærsla þekkingar fram í gegnum kennslu frekar en í gegnum rannsóknarritgerðir.“

Þetta segir dr. Eyþór Ívar Jónsson, ráðstefnustjóri EURAM 2018 og forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvar um stjórnunarhætti hjá Háskóla Íslands. EURAM-ráðstefnan fer fram í Reykjavík dagana 19. til 22. júní og eitt af aðalumræðuefnum viðburðarins er hvaða leiðir má fara til að brúa bilið á milli fræðasamfélags og atvinnulífs.

EURAM er einn stærsti viðburður viðskipta- og stjórnunarfræðaheimsins og laðar að gesti frá öllum heimshornum. „Þetta er tækifæri fyrir fræðimenn til að hittast, ráða ráðum sínum og fá innblástur fyrir frekari rannsóknir og skrif. Háskólarnir senda líka deildarforseta sína til ráðstefnunnar, m.a. til að marka betri framtíðarstefnu fyrir kennslu og rannsóknir. Margir nota tækifærið líka til að styrkja tengslanetið innan akademíunnar og láta á sér bera, og koma á tengslum við ritstjóra virtustu vísindarita sem einnig eiga fulltrúa á EURAM,“ upplýsir Eyþór.

Fræðimenn fari út af örkinni

Yfirskrift EURAM 2018 er „Research in Action – Accelerating Knowledge Creation in Management“. „Það vísar ekki bara til þess að fræðimenn miðli þekkingu sinni betur út í samfélag og atvinnulíf, heldur líka að þeir stundi þekkingarsköpun á vettvangi frekar en við skrifborðið: að þeir fari út af örkinni og prófi sig þar áfram með ýmsum hætti til að læra af tilraununum og öðlast nýja þekkingu á viðfangsefnum sínum,“ segir Eyþór og minnist orða Snorra Sturlusonar úr Heimskringlu: fátt veit fyrr en reynt er. „Fræðasamfélagið þarf að leita út fyrir háskólana, eiga í samtali við stjórnendur og vinna með þeim að þekkingarsköpun, og reyna að stuðla að því að þekkingin sé nýtt til að taka betri ákvarðanir.“

Eyþór segir yfirskrift ráðstefnunnar líka tengjast því hversu brýnt það er að fjölmiðlar geti fjallað um viðskipta- og stjórnunarmál á vandaðan hátt og leitað til fólks sem skýrt getur hlutina á mannamáli. „Það er vandamál sem á við um flestar þjóðir að hörgull er á álitsgjöfum og öðrum sérfræðingum sem þýða fræðin yfir á mál sem stjórnendur, starfsmenn og allur almenningur getur skilið og þannig nýtt sér þekkinguna.“

Að sögn Eyþórs hafa mjög áhugaverðar umræður farið fram á þinginu um þessi mál og gestir stungið upp á ýmsum lausnum. „Ein af þeim hugmyndum sem njóta töluverðs fylgis er að innleiða þau vinnubrögð að með hverri fræðigrein fylgi 1-2 blaðsíðna samantekt sem kemur efni greinarinnar til skila á þann hátt að leikmenn eigi ekki í neinum vanda með að skilja og tileinka sér.“