Aron Þórður Albertsson
aronthordur@mbl.is
„Það borgar sig að loka fremur en að vera með opið á veturna,“ segir Gísli Hallgrímsson, eigandi garðyrkjustöðvarinnar Brúnulaugar í Eyjafirði, sem mun í haust hætta ræktun paprika á veturna. Að sögn Gísla veldur hátt raforkuverð því að lítill sem enginn hagnaður skapast af starfseminni. Þá geri reglur Rariks, sem er með einkaleyfi á dreifingu raforku á svæðinu, garðyrkjustöðinni afar erfitt fyrir. „Gjaldskráin hefur hækkað mikið undanfarin ár. Auk þess eru reglurnar þannig að þar sem íbúar eru færri en 50 talsins er verðið talsvert hærra en á stöðum þar sem íbúarnir eru fleiri. Það er að mínu mati mjög undarleg skýring og ég veit ekki hvað liggur þar að baki,“ segir Gísli og bætir við að hátt verð neyði hann til þess að loka fyrirtækinu á veturna.
Keypti búnað fyrir 35 milljónir
„Nú verður þetta þannig að ég verð bara með opið á sumrin eins og aðrir bændur,“ segir Gísli sem hefur fjárfest fyrir um 35 milljónir króna í rafmagnsbúnaði sem ætlaður er fyrir garðyrkjustöðvar sem ráðgera að rækta allan ársins hring. „Að vera tilneyddur til að loka á veturna eftir að hafa fjárfest fyrir háar upphæðir í búnaði er auðvitað ekki skemmtilegt. Þessi búnaður er sérstaklega keyptur til þess að geta stundað ræktun á veturna og mér finnst það alveg ótrúlega sérstakt að hagnaðurinn sem verður til sé tekinn af raforkufyrirtækjum,“ segir Gísli.Engin samkeppni ríkir um dreifingu og flutning raforku á svæðinu en líkt og fyrr segir er Rarik með einkaleyfi á dreifingu í sveitinni. Að sögn Gísla er vandamálið þó ekki einungis það. „Hluti af niðurgreiðslu ársins í ár var nýttur í fyrra, sem veldur því að nú er minna niðurgreitt. Það er auðvitað stór hluti vandans að niðurgreiðslurnar frá ríkinu eru lægri,“ segir Gísli.