Íslendingar hafa þurft að kjósa oft undanfarin misseri. Þeir hafa fengið mörg tækifæri til að skipta um valdhafa. Um leið virðast Íslendingar ekki vera alltof hrifnir af stjórnmálamönnum sínum. Þeir eru ýmist of gamlir og íhaldssamir eða of ungir og óvitandi. Er ekki kominn tími til að minnka það vægi sem lélegir stjórnmálamenn hafa í lífi okkar og um leið þau völd sem þeir hafa yfir bæði hagkerfinu og samfélaginu?
Er ekki kominn tími til að leyfa almenningi að kjósa, með greiðslukortum sínum, beint og milliliðalaust um hverjir sjá honum fyrir vörum og þjónustu?
Hvað gerist ef hið opinbera minnkar skattheimtu sína úr því að éta 50% af verðmætasköpun samfélagsins og niður í 10%? Hvað gerist ef reglugerðafrumskógurinn er skorinn niður um 90%? Hvað gerist ef ríkisvaldið hættir að gefa út peninga og halda hlífiskildi yfir brothættum bönkum? Mun þá fátækt fólk svelta á götunum og fyrirtæki selja rottueitur í umbúðum barnamatar? Mun heill her af atvinnulausum opinberum starfsmönnum reika um göturnar og valda óeirðum? Mun óðaverðbólga keyra lífskjör aftur til myrkra miðalda?
Svörin í öllum tilfellum eru þau sömu: Eftir stutt tímabil aðlögunar tekur við tímabil svigrúms. Launafólk fær meira svigrúm til að eyða, spara, gefa og fjárfesta. Fyrirtæki fá meira svigrúm til að bæta við sig starfsmönnum, herja á nýja markaði, fjárfesta og hækka laun og arðgreiðslur. Góðgerðarsamtök fá glaðari velunnara sem vita að góðverk eru bara góðverk þegar þau eru fjármögnuð af fúsum og frjálsum vilja en ekki í gegnum kúgunartæki skattheimtunnar. Sveigjanlegir og drífandi einkaaðilar taka við af stöðnuðum opinberum stofnunum í aðhlynningu sjúklinga, umönnun leikskólabarna, kennslu grunnskólabarna og aðstoð við aldraða.
Samkeppni á frjálsum markaði er nefnilega ekki bara eitthvað sem gagnast neytendum í leit að strigaskóm, gleraugum, bílum og tölvum. Rekstraraðili sem óttast samkeppni stendur sig betur en hinn sem þarf ekki að óttast neitt slíkt, eins og hið opinbera. Rekstraraðili sem fær að græða á rekstri sínum leggur mikið á sig til að svo megi verða. Græði hann meira en gengur og gerist laðar slíkt að sér keppinauta í leit að vænum bita. Sömu lögmál hagfræðinnar gilda alls staðar og knýja áfram hugmyndaauðgi, frumkvæði, hagræðingu og útsjónarsemi hjá einkaaðilum en doða, stöðnun og sóun hjá opinberum aðilum.
Núna eru alþingismenn komnir í sumarfrí og sveitarstjórnarfulltrúar uppteknir við að raða sér í nefndir og meirihluta. Nýtum tækifærið og ímyndum okkur lífið án þeirra allt árið.
Höfundur er verkfræðingur. geirag@gmail.com