Umferðarslysum fer fjölgandi og það er kostnaðarsamt fyrir samfélagið, segja sérfræðingar sem fara með erindi á Samgönguþingi í dag.

Umferðarslysum fer fjölgandi og það er kostnaðarsamt fyrir samfélagið, segja sérfræðingar sem fara með erindi á Samgönguþingi í dag. Að sögn Berglindar Hallgrímsdóttur umhverfisverkfræðings er samfélagslegur kostnaður slysa gífurlega hár: „Ég hef reiknað út að heildarkostnaður slysa á árunum 2012-2016 sé alls 15 milljarðar á ári. Þá tökum við inn alla mögulega þætti, s.s. kostnað sveitarfélagsins og stjórnsýslu, t.d. inngrip lögreglu en einnig allan kostnað við slysið sjálft, þ.e. spítalavist, eignatjón, tryggingamál og svo framvegis. Inni í þessari tölu er því ekki aðeins kostnaður samfélagsins heldur einnig kostnaður einstaklingsins sem lendir í slysinu.“

Hún segir jafnframt að ákveðnum slysum hafi farið fjölgandi á þessu tímabili „Við erum að sjá ákveðna tilhneigingu í slysunum en ákveðnir orsakaþættir hafa verið að færast í aukana; fleiri eru að aka yfir á rauðu ljósi til dæmis og slysum gangandi og hjólandi einstaklinga hefur einnig fjölgað,“ segir Berglind, sem unnið hefur að umferðaröryggisáætlun fyrir Reykjavíkurborg.

Berglind segir einnig mikilvægt að gera göngu- og hjólaleiðir öruggari: „Ef okkur tekst að gera umferðina öruggari munu fleiri kjósa að ganga og hjóla, það eru stórir samfélagshópar sem eru ekki endilega í stakk búnir til að keyra, s.s. börn og eldra fólk, og það er samfélagslegur ávinningur okkar að auka umferðaröryggi þeirra. Við viljum heldur ekki að foreldrar veigri sér við að senda börnin sín gangandi í skólann til dæmis.“

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, verður einnig með erindi á þinginu, en hann mun þar leggja áherslu á ávinning sýnilegs eftirlits er kemur að umferðaröryggi. „Rannsóknir hafa sýnt fram á að viðvera lögreglu við veg hefur mælanleg áhrif á ökuhraða ökutækja og ég held því fram að það að bæta sýnilegt eftirlit sé mögulega ódýrasta leiðin til að ná niður ökuhraða á þjóðvegum landsins.“

Þá segir Oddur ástandið í umferðinni einkennast af fjölda ferðamanna sem séu margir óundirbúnir fyrir umferð á Íslandi: „Sú breyting sem hefur átt sér stað er að við erum að fást við umferð sem samanstendur af stórum hluta af ferðamönnum sem koma til landsins, dvelja í stuttan tíma og hafa ekki kynnt sér akstursskilyrði eða aðstæður í landinu,“ segir Ólafur og bætir við að slysatölur í umferðinni séu til marks um að betri löggæslu skorti. ninag@mbl.is