[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Kæra á þessum tímapunkti hefur nú þegar haft miklar fjárhagslegar afleiðingar fyrir HS Orku og sett allt verkefnið í hættu.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Kæra á þessum tímapunkti hefur nú þegar haft miklar fjárhagslegar afleiðingar fyrir HS Orku og sett allt verkefnið í hættu. Verkefni sem mun bæta orkuöryggi á svæðinu og efla öryggisviðbúnað á Suðurlandi og hálendinu. Verkefni sem sátt hefur verið um í sveitarstjórn, meðal landeigenda og hafði farið án mikilla athugasemda í gegnum umhverfismat og skipulagsferli,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, um stöðu áforma um Brúarvirkjun í efrihluta Tungufljóts.

Fyrirtækið hefur í mörg ár undirbúið Brúarvirkjun í Biskupstungum en hún á að verða 9,9 MW rennslisvirkjun. Hefur félagið átt um það gott samstarf við landeigendur sem eru Skógrækt ríkisins vegna jarðarinnar Haukadals og bændur á bænum Brú.

Samið um mótvægisaðgerðir

Vegna þess að virkjunin er undir 10 MW afli þarf hún ekki að fara í umhverfismat. HS Orka ákvað eigi að síður í upphafi að fara þá leið, í þeim tilgangi að vanda til verka við undirbúning, opna aðkomu fyrir alla hagsmunaaðila og bregðast við þeim athugasemdum sem fram gætu komið.

Niðurstaða umhverfismats var sú að framkvæmdin myndi hafa talsvert neikvæð áhrif vegna þess að eyða þurfi birkiskógi á um fjórum hekturum lands og raska votlendi. Einnig voru talsvert neikvæð áhrif á ásýnd frá frístundabyggð á bökkum Tungufljóts.

HS Orka brást strax við þeim atriðum sem hægt var. Samdi við Skógræktina um að rækta birkiskóg í staðinn fyrir trén sem þurfa að víkja og um að endurheimta votlendi. Þá var samið við Náttúrufræðistofnun um vöktun á straumöndum.

Fyrsta skóflustungan tekin

Umhverfismat og skipulagsferli hefur tekið langan tíma og var kynnt opinberlega á ýmsum stigum en engar efnislegar athugasemdir komu fram. HS Orka hefur því undirbúið framkvæmdir í góðri trú og aflað allra nauðsynlegra leyfa. Meðal annars hefur Orkustofnun gefið út virkjanaleyfi og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands starfsleyfi.

Síðasta leyfið er framkvæmdaleyfi sem sveitarfélagið Bláskógabyggð gefur út. Fyrirtækið fékk leyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum snemma vors á síðasta ári, án athugasemda, og er þeim framkvæmdum lokið að mestu. Ásgeir segir að þar sem ekki voru gerðar athugasemdir við framkvæmdaleyfi undirbúningsframkvæmda hafi HS Orka metið stöðuna þannig að almenn sátt væri um framkvæmdina og hóf útboðsferli innkaupa og mannvirkjagerðar.

HS Orka sótti um leyfi til framkvæmda í byrjun september og samþykkti sveitarstjórn það í október. Kayakklúbburinn og Landvernd og Náttúruverndarsamtök Suðurlands sameiginlega kærðu útgáfu leyfisins. Sveitarstjórn ákvað þá að afturkalla leyfið, bæta úr þeim ágöllum í málsmeðferð sem bent var á, og gaf leyfið út að nýju í byrjun febrúar síðastliðins. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði frá kærum á fyrra framkvæmdaleyfið þar sem það hafði verið afturkallað.

Þegar seinna leyfið hafði verið gefið út hófust framkvæmdir með því að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók fyrstu skóflustungu að byggingu virkjunarinnar. Frétt um þann atburð í Morgunblaðinu varð til þess að Landvernd og Náttúruverndarsamtök Suðurlands kærðu sameiginlega útgáfu seinna framkvæmdaleyfisins og kröfðust þess jafnframt að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.

Sakna rannsókna

Samtökin krefjast ógildingar framkvæmdaleyfisins, meðal annars vegna þess að ekki hafi verið sýnt fram á að brýnir almannahagsmunir krefjist framkvæmdarinnar, eins og þurfi að gera þegar náttúruminjum sem njóta verndar, eins og birkiskógum og votlendi, er eytt. Þá telja samtökin að Bláskógabyggð hafi brotið rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar með því að fullnægja ekki rannsóknarskyldu á mögulegum áhrifum framkvæmdarinnar á eitt helsta vatnsból sveitarfélagsins. Telja þau að jarðfræðirannsóknir séu afar takmarkaðar, meðal annars um hugsanleg áhrif á grunnvatnskerfi Geysissvæðisins. Þá telja þau framkvæmdina vera í algerrri andstöðu við ákvæði gjafabréfs Kristian Kirk sem ánafnaði Skógrækt ríkisins jörðina Haukadal til friðunar og skógræktar. Óleyfilegt sé að eyða fimm hekturum af birkiskógi þar.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála taldi ekki ástæðu til að stöðva framkvæmdir en efnisatriði kærunnar eru enn til umfjöllunar hjá nefndinni.

Það kemur Ásgeiri Margeirssyni spánskt fyrir sjónir að náttúruverndarsamtökin færi það fram sem rök fyrir kröfu um stöðvun framkvæmda að það hefði komið þeim á óvart að framkvæmdir væru hafnar. Bendir á í því sambandi að samtökin hafi kært fyrra framkvæmdaleyfið nokkrum vikum fyrr og útboð framkvæmdanna hefðu verið auglýst opinberlega. Landvernd hafi einnig vitað um umhverfismatið en kosið að tjá sig ekki um það.

Þá telur hann að þau rök fyrir ógildingu framkvæmdaleyfisins að rannsóknir skorti bendi til að kærendur hafi ekki kynnt sér þann fjölda rannsókna og gagna frá ótal sérfræðingum sem liggi til grundvallar útgáfu framkvæmdaleyfisins. Öll gögn málsins séu aðgengileg. „Erfitt er að meta hvað liggur að baki þessari kæru en fagmennska er ekki fyrsta orðið sem kemur upp í hugann,“ segir Ásgeir.

Gegn grunnsjónarmiðum

Ásgeir telur að þetta ferli og almenn umgjörð framkvæmda sé umhugsunarefni. „Það er undarlegt að hægt sé að kæra framkvæmd með tilheyrandi kostnaði fyrir framkvæmdaraðila, án haldbærs rökstuðnings. Ekki virðist heldur vera gerð sú lágmarkskrafa til kærenda að þeir kynni sér fyrirliggjandi gögn sem unnin hafa verið á undirbúningstímanum. Langt og ítarlegt ferli er í skipulagslögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda til að hagsmunaaðilar geti komið með athugasemdir á undirbúningstímanum. Sú aðferð að hreyfa ekki neinum andmælum á kynningarstigi gefur til kynna að viðkomandi aðilar séu samþykkir ferlinu eða framkvæmdunum. Það að koma með kærur á lokastigi mats- og skipulagsferlis, framkvæmdaleyfið, gengur gegn grunnsjónarmiðum um kynningu og samráð sem lögin byggjast á,“ segir Ásgeir og telur ljóst að þessu fyrirkomulagi þurfi að breyta.

HS Orka hefur haldið áfram undirbúningi. Framkvæmdaleyfi er í fullu gildi svo og önnur leyfi sem þarf til verksins. Fyrirtækið skoðar nú hvort framkvæmdum skuli haldið áfram þótt um það ríki fjárhagsleg óvissa vegna kærunnar.