Á kvennadaginn 19. júní átti kerlingin á Skólavörðuholtinu afmæli og af því tilefni orti hún sér þessa vísu: Líð ég um sem ljúfur þytur, lokkaflóð sem bráðið gull. Körlum finnst ég klár og vitur kynæsandi og þokkafull.

Á kvennadaginn 19. júní átti kerlingin á Skólavörðuholtinu afmæli og af því tilefni orti hún sér þessa vísu:

Líð ég um sem ljúfur þytur,

lokkaflóð sem bráðið gull.

Körlum finnst ég klár og vitur

kynæsandi og þokkafull.

Svo ákvað hún að splæsa þessari á sig líka en báðar eru vísurnar sannar og réttar:

Glimrandi hef gáfur fínar,

gegnheilt þel og skinn,

undrar marga að ekkert dvínar

æskuljómi minn.

Ég hitti karlinn á Laugaveginum og rétt náði að varpa á hann orði áður en hann þaut upp Skólavörðustíginn svo sönglandi:

Eru í henni artir fínar.

Ei er að slíku að gá.

Og ég sé að ekki dvínar

æskuljóminn sá!

Og hvorki kvaddi né leit um öxl.

„Ástríðugolfarinn“ er sérstök manntegund sem þessi limra Helga R. Einarssonar lýsir og við könnumst mörg við þó við sjáum ekki sjálf okkur í henni!:

Rögnvaldur skildi' ekki roluna

sem af ræfilsskap þoldi' ekki goluna.

Kúluna sló

af kæti svo hló

því í höggi hún beint fór í holuna.

Anton Helgi Jónsson yrkir á Boðnarmiði:

Ég skil vel að gleðjist nú gumar

við grillið með sveppi og humar

og kaldranann hér

þeir klæði af sér

því komið er hávaðasumar.

Guðmundur Arnfinnsson heyrði í spjallþætti útvarpsins:

Betra er að gera það hratt en hægt,

ef hér á að fjölga sonum,

gerðu það annars, vinur, vægt,

viljirðu fjölga konum.

Sigurlín Hermannsdóttir segir fréttir frá Rússíá:

Bolti vítt um völlinn fló

Volgugarðs á bökkum.

Messa-gutti og moskító

og menn að hlaupa á tökkum.

Guðmundur Arnfinnsson heldur í vonina:

Í Volgógrað má venjast því,

vargurinn þó svekki,

að þetta er bara meinlaust mý,

en moskítóflugur ekki.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is