Vala Garðarsdóttir
Vala Garðarsdóttir
Eftir Völu Garðarsdóttur: "Við skulum allavega ekki vera með hleypidóma og gefa víkingum öllum slæmt orðspor sem þeir eiga engan veginn skilið."

Undanfarið hefur borið á því að sumir leik- og fræðimenn tjái sig m.a. um uppruna Íslendinga og samfélagsgerð svonefndrar víkingaaldar, að því er virðist af vanþekkingu og jafnvel fordómum. Þetta kann að hljóma dómhart, en þó hefur ákveðinn niðrandi tónn verið í umræðunni frá einstaka sjálfskipuðum sérfræðingum um náttúru- og samfélagsgerð þess fólks er uppi var á svæðum (oftast við sjó og vötn) í norðurhluta Evrópu fyrir um 900-1.200 árum og gengur undir nafninu víkingar.

Flestir fræðimenn sem rannsaka fortíðina vita að ekkert er 100% upplýst né gefið. Rannsóknir á fornum menningarheimum og samfélögum eru flókið verk en ekki einfalt og sjaldan finnst það hrein heimild að ekki sé hún þrætuepli þeirra sem hana túlka.

Það er þó ákveðinn fasti í rannsóknum þar sem leitast er við að flokka og greina ákveðin einkenni þeirra samfélaga sem til rannsóknar eru og gefa þeim sérstöðu og sérnafn ef svo ber undir. Þessar rannsóknir taka og hafa tekið áratugi, jafnvel árhundruð, í raun lýkur rannsóknum aldrei þar sem nýjar upplýsingar, ný tækni, ný aðferðafræði og svo mætti lengi telja þróast með tíð og tíma, og ekki má gleyma þeim tíðaranda sem ríkir hverju sinni og blæs sínum tón í túlkun hvers tíma. Í dag er ákveðinn tíðarandi þar sem sumir frábiðja sér tenginguna við samfélagsgerð víkinga, ég hef rekið augun í þetta og hugsa alltaf, af hverju? Þessi augnarekstur minn hefur ágerst eftir því sem liðið hefur á heimsmeistaramótið í knattspyrnu

Að mínu viti eigum við öll að vera stolt af því (hvað sem fólkið var kallað, en fræðiheitið er víkingar, svo höldum okkur við það), annað væri vanþakklæti og vanvirðing við fortíðina og það fólk sem hér bjó og byggði okkar land.

Þar sem ég hef rannsakað landnám, samfélagsgerð og innviði víkingaaldarsamfélaga í hartnær 15 ár þá langar mig að nefna nokkur grunnatriði sem einkenna þessa samfélagsgerð og gáfu henni nafn.

Ástæðan fyrir því að tíminn er kallaður víkingaöld, sem nær frá því um 750-1150 e.Kr., er þessi:

Út frá fræðunum, þ.e. rituðum texta, tímasetjum við víkingaöldina við innrásina á eyjuna Lindisfarne við strönd Englands 793 e.Kr., þar sem hópur víkinga rændi þar klaustur og brenndi til kaldra kola. Lok víkingaaldar eru almennt kennd við ósigur Haraldar harðráða Noregskonungs á enskri grundu (við Stamfordbridge) árið 1066 e.Kr.

Það vita þó flestir að tímabil víkingaaldar er túlkunaratriði fræðimanna. Hafa skal í huga að þetta er út frá rituðum texta, sem er mishlutlægur eða mishlutlaus. Fonleifafræðin er strangari fræðigrein að því er þessar túlkanir varða og sem fornleifafræðingur tel ég jarðfundnar minjar ásamt stuðningi ritaðra heimilda mikilvæga forsendu til þess að ná sem breiðasta mögulega skilningi á þessum merka tíma.

Ég get ekki hér í þessari grein útlistað í þaula þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á víkingaaldarmenningarsvæðum en eitt er víst að þessi svæði eiga það sameiginlegt að í þeim rannsóknum sjáum við svart á hvítu hvað það er í grófum dráttum sem gefur þessum horfna menningarhópi nafnið víkingar. Til að byrja með vil ég árétta þann reginmisskilning að allir víkingar hafi verið morðingjar, ræningjar og villimenn, sú skilgreining er jafn ýkt og að segja að allir Bandaríkjamenn séu Donald Trump.

Það sem gefur þessum hópi fólks sem kallað er víkingar sérkenni eru innviðir þess, rúnaristur, myntslátta, verkmenning, trú og grafarhættir, búsetuval, nýting og þekking á sjósókn og skipaþróun, veiðiskapur og uppbygging á fjölbreyttum búskaparháttum á sjó og landi. Þetta voru afkomendur fólks sem kom undan hörðum vetrum og óteljandi fimbulvetrum 6. og 7. aldarinnar þar sem náttúruhamfarir voru það skelfilegar að vetur urðu sífelldir og fimbulkaldir með þeim afleiðingum að úr varð viðvarandi hungursneyð og mannfall í rúm hundrað ár. Fólk gat ekki ræktað land né dýr og varð að leita uppi betra líf sem varð flökkulíf þar til náttúran jafnaði sig og fólk átti möguleika á ný að aðlagast breyttu umhverfi fjarri eldri heimahögum. Þessum tíma hefur verið gefin mörg nöfn og uppi voru mörg þjóðarbrot þar sem mörg stríðin voru háð í lífsbaráttunni. En einmitt vegna þessara erfiðu tíma tel ég m.a. að hin heiðna trú, sem er eitt af sérkennum víkinaaldarsamfélaga, hafi orðið til. Tíminn sem þeir gáfu nafnið ragnarök eða heimsendir sem þetta fólk eflaust upplifði og úr spratt hinn magnaði heimur í sagnaformi manna á meðal sem við þekkjum sem norræna goðfræði, öll sagan sem varð til og við svo heillarík að fest var á skinn af Snorra Sturlusyni og hefur lifað allar götur síðan og meira að segja öðlast fjölbreytt og sjálfstætt líf.

En nóg um þetta, því ein samfélagsgerðin sem úr þessum tíma spratt var sú sem við getum rakið okkur til. Samfélag sem lifði við sjó og vötn og sérhæfði sig í sjávarútvegi og sjósókn, kynntist nýju fólki, straumum og stefnum, ferðaðist mikið og stundaði verslun og vöruskipti, nam ný lönd og vann bæði til sjós og lands. Nytjagripir og vopn þessa fólks eru líka eitt af þeim sérkennum sem einkennir víkingahugtakið. Ævintýralegur skreytistíll og klæðagerð sem þróast listilega með tímanum er ákveðin birtingarmynd víkingaaldarinnar eins og við flest skynjum hana, sem og oft á tíðum tilfinningaþrungnir og ríkir grafarhættir þar sem fólk var heygt í fullum klæðum með sína helstu nytjagripi og vopn, tilbúið í eftirlífið. En þegar öllu er á botninn hvolft þá er það fjölbreytileiki og aðlögunarhæfni sem er svo rík innan menningarsamfélaga víkingaaldar að mínu mati, hæfileikinn að komast af og aðlagast breyttum aðstæðum á stuttum tíma þrátt fyrir að náttúran sé þeim ekki hliðholl á stundum, skýrasta dæmi þessa er landnám Íslands og það mikla afrek að byggja hér land og komast lífs af á hjara veraldar, að sama skapi landnám Grænlands og landafundir í Ameríku.

Fornleifarannsóknir hef ég stundað lengi og get sagt með nokkurri vissu að hér á Íslandi var land numið með skipulögðum hætti, af vandvirkni og vandaðri verkkunnáttu, þessi staðreynd birtist í fornminjum okkar, því verður seint breytt og eru einkenni þessara funda flokkuð m.a. gerðafræðilega frá tíma víkingaaldar.

Það er einnig staðreynd að víkingar höguðu búsetuvali sínu oftast við og stutt frá sjó: við voga og víkur. Því er ekki galið að víkingar dragi nafn sitt af því hvaðan þeir komu og völdu sér bæjarstæði. Það er ekki slæmt, en það slæma er að skrumskæla þeirra veruleika vegna hópa þeirra á meðal sem svifust einskis og við höfum vitneskju um úr heimildum sem jafnvel mega teljast hlutdrægar og segja aðeins eina hlið sögunnar.

Við skulum allavega ekki vera með hleypidóma og gefa víkingum öllum slæmt orðspor sem þeir eiga engan veginn skilið. Það sem þeir eiga skilið er viðurkenning á þeirra eljusemi, þrjósku og aðlögunarhæfni til að komast af við erfiðar aðstæður. Að sigla til ókunnugs lands yfir úfið úthaf með skepnur og nytjar í ballestinni, eitt segl að húni með von í brjósti að lifa ferðalagið af og standa svo í lappirnar andspænis náttúrunni, er eitthvað til þess að fá lof fyrir frekar en last. Þetta hefur svo sannarlega ekki verið einstaklingsframtak, þetta hefur verið samvinna margra, sterk liðsheild og viljastyrkur til þess að vera hluti af náttúrunni og vera frjálsar manneskjur í veröldinni – það er eflaust þessi andi sem hefur blásið okkur í brjóst í gegnum aldirnar og hjálpað okkur gegnum erfiða tíma, fjötra og vosbúð með stöku sólskinsdögum og það er eflaust þessi andi sem birtist okkur öllum svo ríkulega í strákunum okkar í Rússlandi og er í raun frumkjarninn í öllum Íslendingum, ungum sem öldnum, gömlum sem nýjum.

Þessi saga varpar ljósi á auðmýktina fyrir lífinu öllu og af hverju menn berjast til þess eins að lifa af! Þetta tvennt er sterkara en allt og lifir í okkur öllum sama hvaðan við komum og fyrir því munum við alltaf berjast og á það munum við ávallt trúa.

Áfram Ísland!

Höfundur er fornleifafræðingur.

Höf.: Völu Garðarsdóttur