Bókin
Alla jafna fjallar ViðskiptaMogginn bara um glænýjar bækur en síðustu vikuna hefur ein gömul og góð verið að fikra sig upp metsölulistana erlendis og vert að gera henni skil. Bókin heitir Kitchen Confidential: Adventures in the Culinary Underbelly og höfundurinn er meistarakokkurinn og sjónvarpsstjarnan Anthony Bourdain sem féll fyrir eigin hendi fyrr í mánuðinum.
Kitchen Confidential kom fyrst út árið 2000 og sló strax í gegn. Þar segir Bourdain á hrífandi hátt frá litríku lífinu inni í eldhúsum fínustu veitingastaða New York, þar sem allt getur skeð og kröfuharðir kokkar sýna enga miskunn. Þykir bókin vera nokkurs konar sjálfsævisaga ungs fagmanns í borg þar sem samkeppnin gæti ekki verið harðari og frægð og frami bíða þeirra sem ná að klöngrast upp á toppinn.
Bourdain kafar líka ofan í rekstrarhlið veitingabransans og varar lesendur við ýmsum brellum sem eigendur veitingastaða eiga til að beita til að losna við gamalt hráefni eða spara sér peninga á kostnað viðskiptavinarins. Þannig hafa margir sem lásu bókina haft það fyrir reglu alla tíð síðan að panta ekki fisk á mánudögum, því sennilega er hann orðinn a.m.k. þriggja daga gamall.
Kitchen Confidential skaut Bourdain upp á stjörnuhimininn og fylgdu fleiri metsölubækur í kjölfarið. Árið 2002 kom Bourdain fyrst fram í sínum eigin sjónvarpsþætti, þar sem hann heillaði áhorfendur upp úr skónum, ferðaðist um heiminn, smakkaði ýmsa rétti og sýndi hvernig góður matur getur tengt fólk saman óháð staðsetningu, tungumáli, trúarbrögðum og pólitík. ai@mbl.is