Eyrún Ýr Pálsdóttir og Hrannar frá Flugumýri II.
Eyrún Ýr Pálsdóttir og Hrannar frá Flugumýri II.
„Það er klárt. A-flokkurinn á síðasta landsmóti,“ svarar Eyrún Ýr Pálsdóttir hestamaður snaggaralega þegar hún er spurð um eftirminnilegasta landsmót sitt.

„Það er klárt. A-flokkurinn á síðasta landsmóti,“ svarar Eyrún Ýr Pálsdóttir hestamaður snaggaralega þegar hún er spurð um eftirminnilegasta landsmót sitt. Hún sigraði í A-flokki gæðinga á Hrannari frá Flugumýri II á landsmótinu á Hólum árið 2016 og var fyrst kvenna til að sigra í þessari erfiðu grein.

Hún segir að sigurinn hafi kannski ekki verið óvæntur. „Ég vissi að ef við ættum góðan dag yrðum við illviðráðanleg. Hesturinn er svo öruggur að mér leið vel í keppninni,“ segir Eyrún og bætir því við að sigurinn á íslandsmótinu í hestaíþróttum á árinu áður hafi verið óvæntari.

„Mótið á Melgerðismelum árið 1998 er fyrsta mótið sem ég man eftir. Ég man eftir Galsa frá Sauðárkróki,“ segir Eyrún Ýr en hún var þá tíu ára. Hún telur þó líklegt að hún hafi farið á eitt eða jafnvel tvö mót þar á undan enda eru foreldrar hennar mikið hestafólk.

Þegar rætt var við Eyrúnu var hún ekki búin að ákveða þátttöku sína í landsmótinu í Reykjavík. Hún og maður hennar, Teitur Árnason, eignuðust son fyrir fjórum mánuðum, Storm Inga. Hún segist vera með heldur minni umsvif í tamningunum vegna þess en sé þó ennþá að þjálfa hestana sína. Hún reiknar því alveg eins með að vera mest á hliðarlínunni á mótinu í sumar. „Þó ég hafi náð besta árangri mínum hingað til á síðasta landsmóti er ég ekki mett. Hestamennskan er mitt líf, það eina sem ég kann og ég mun starfa við hana áfram,“ segir Eyrún Ýr Pálsdóttir.