Vinsæll Joey Christ nær vel til áhorfenda og endurtekur leikinn um helgina.
Vinsæll Joey Christ nær vel til áhorfenda og endurtekur leikinn um helgina. — Ljósmynd/Sarah Koury
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is „Secret Solstice-hátíðin er byggð að mestu upp á sama hátt og í fyrra Það verða 140 mismunandi atriði ýmist stakir listamenn eða hljómsveitir.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

„Secret Solstice-hátíðin er byggð að mestu upp á sama hátt og í fyrra

Það verða 140 mismunandi atriði ýmist stakir listamenn eða hljómsveitir. Íslenskir listamenn eru með 90 tónlistarviðburði og erlendir með 50,“ segir Jón Bjarni Steinsson, einn af aðalskipuleggjendum Secret Solstice, sem byrjar í kvöld og stendur fram á sunnudag. Hátíðin er nú haldin í fimmta sinn.

Jón Bjarni segir að miðað við dagskrána sem gestir hafa búið sér til og hlaðið niður í þar til gert app þá megi búast við að vinsælustu viðburðirnir verði Stormzy, Cucci Mane, Bonnie Tyler, George Clinton og Parlament Funkadelic og hljómsveitin Clean Bandit frá Bretlandi sem slegið hefur hvert metið á fætur öðru.

„Ég vona að rokkarar nýti tækifærið og fjölmenni á Slayers-tónleikana,“ segir Jón Bjarni.

Sundlaugarpartí í Hreppslaug

Auk viðburða á hátíðinni sjálfri hafa fyrirpartí verið haldin meðal annars á Kaffi Laugalæk, Dillon og Hlemmi Square.

„Við höldum áfram með hliðarviðburði og bjóðum upp á ferðir á Langjökul og í Rauðhólahelli eins og áður. Við bætum við sundlaugarpartíi með DJ Lee Burridges, í Hreppslaug, í Skorradal á föstudaginn,“ segir Jón Bjarni og jafnframt að bætt hafi verið við annars konar viðburðum en tónlist á hátíðarsvæðinu. Má þar nefna BMX-hjólasýningu og víkingadagskrá.

„Við verðum að sjálfsögðu með bar þar sem hægt er að horfa á HM og svo verður leikur Íslands og Nígeríu sýndur á aðalsviðinu á föstudaginn kl. 15.00,“ segir Jón Bjarni.

Að sögn hans er aðsókn að tónlistarhátíðinni svipuð og í fyrra. Hann segir veðrið og hátt gengi krónunnar ekki hjálpa til.

„Bretunum hefur fækkað en Bandaríkjamönnum fjölgað og svo kaupa margir Íslendingar ekki miða fyrr en í rétt fyrir hátíðina,“ segir Jón Bjarni og bætir við að 25 til 30% gesta séu útlendingar og landinn 65 til 70% gestanna.

Að sögn Jóns Bjarna er tilgangur Secret Solstice að vera þekkt alvöru sumartónlistarhátíð á alþjóðlegan mælikvarða og það hefur tekist að hans mati.

Teymi sérfræðinga í hreinsun

„Við erum ung hátíð og verðum betri og skipulagðari með hverju árinu. Í fyrra var kvartað yfir sorpmálum á svæðinu. Við réðum erlent teymi sérfræðinga til þess að halda svæðinu hreinu í ár,“ segir Jón Bjarni.

Secret Solstice er 800 til 1.000 manna vinnustaður meðan á hátíðinni stendur að sögn Jóns Bjarna og um 100 til 200 sjálfboðaliðar leggja hönd á plóg, flestir erlendir.