Helga Marín Níelsdóttir fæddist á Halldórsstöðum í Saurbæjarhreppi 21.6. 1903. Foreldrar hennar voru
Níels Sigurðsson og Sigurlína Rósa Sigtryggsdóttir, bændur á Halldórsstöðum og seinna á Æsustöðum.
Helga eignaðist tvær dætur, Huldu Kristinsdóttur og Eddu Níels.
Helga Marín nam fatasaum á Akureyri 1918. Eftir það flutti hún til Reykjavíkur og stundaði nám í skóla
Ásgríms Magnússonar að Bergstaðastræti 3. Árið 1924 lauk hún ljósmóðurprófi frá Ljósmóðurskóla Íslands og vann við það í tvö ár í Reykjavík. Eftir það lá leið hennar til Kaupmannahafnar í framhaldsnám á fæðingarstofu Ríkisspítalans og lauk hún prófi þaðan 1927. Að því loknu tók við námsdvöl í Stokkhólmi, Ósló og Bergen.
Helga hélt heim til Íslands árið 1928 og tók til starfa sem ljósmóðir í Reykjavík. Hún stofnaði Fæðingarheimilið við Eiríksgötu árið 1933 og starfrækti það til ársins 1940. Henni var einnig heimilt að taka á móti sjúklingum til augnaðgerða og lét reisa viðbótarbyggingu sem hýsti nýtísku skurð- og fæðingarstofu.
Hún var forstöðukona heimilishjálpar Reykjavíkur 1950-76 og var embættisljósmóðir í Reykjavík 1949-73. Helga stofnaði Ljósmæðrafélag Reykjavíkur 19. júní 1942 og var gjaldkeri þess í rúman áratug og síðar formaður. Þá sat hún alþjóðaþing ljósmæðra í Róm 1960 og í Washington árið 1973, þing norrænna ljósmæðra í Reykjavík 1965 og í Stokkhólmi 1968.
Hún var heiðruð af Rauða krossi Íslands fyrir mannúðar- og ljósmóðurstörf 1977.
Helga tók fyrst á móti barni í júní árið 1924 og því síðasta í nóvember árið 1977, en alls tók hún á móti
3.483 börnum. Í bókinni Íslenskar konur, ævisögur, útg. 2002, eru lýsingar Helgu á námsárum sínum í Reykjavík.
Helga Marín lést 28.4. 1986.