Nígería
Sindri Sverrisson
í Volgograd
Að vissu leyti má segja að veikleikar Nígeríu endurspegli styrkleika Íslands en liðin mætast í Volgograd á morgun í 2. umferð riðlakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu, kl. 15 að íslenskum tíma.
Það sem helst hefur þótt skorta í nígeríska liðið eru ekki einstaklingshæfileikar, því nóg er af frábærum leikmönnum í liðinu. Samvinna, agi og skipulag, einkunnarorð íslenska liðsins, eru einkenni sem Nígeríumenn leita eftir og vonast var til að þýski þjálfarinn Gernot Rohr næði að smita frá sér þegar hann var ráðinn í ágúst 2016. Það hefur gengið upp og ofan en liðið hélt þó skipulagi og varðist það vel í 2:0-tapinu gegn Króatíu í fyrsta leik að Króatar áttu ekki skot á mark nema upp úr föstum leikatriðum, fyrr en í uppbótartíma.
Það hvernig Ofurernirnir, eins og lið Nígeríu er kallað, hafa varist í föstum leikatriðum undanfarið er hins vegar stórt vandamál, sem hæglega gæti nýst Íslandi með sín þaulæfðu löngu innköst, hornspyrnur og aukaspyrnur. Króatar komust yfir með marki eftir hornspyrnu og Luka Modric skoraði svo úr vítaspyrnu eftir að miðvörðurinn William Troost-Ekong varðist afskaplega klaufalega í hornspyrnu og hékk hreinlega í Mario Mandzukic.
Á sex af síðustu sjö HM
Nígería er engu að síður mjög sterkt lið, í bókstaflegri merkingu, og krafan í landinu er sú að liðið komist upp úr D-riðlinum. Vonbrigðin yfir tapinu gegn Króatíu, þar sem liðið þótti aldrei sýna eiginlega baráttu eða vilja til að vinna leikinn, voru mikil. Þar skein hraði og líkamlegur styrkur manna alls ekki í gegn. Nígeríumenn hafa nú verið með á sex af síðustu sjö heimsmeistaramótum og þrisvar komist í 16-liða úrslit, líkt og liðið gerði fyrir fjórum árum í Brasilíu áður en það tapaði fyrir Frökkum. Þeir urðu Afríkumeistarar árinu áður en hafa hins vegar ekki komist í lokakeppni mótsins síðustu tvö skipti síðan þá. Árangurinn í undankeppni HM gaf hins vegar ástæðu til bjartsýni.
Moses, Mikel og Iwobi
Fyrirliðinn John Obi Mikel var frábær í undankeppninni en olli miklum vonbrigðum gegn Króatíu. Eftir að Króatía komst yfir þótti sjást berlega hve lítið kemur út úr honum sem fremsta miðjumanni og kallað hefur verið eftir því að hann færist aftar á miðjuna, líkt og hann gerði hjá Chelsea. Aftar á miðjunni léku hins vegar Leicester-maðurinn Wilfred Ndidi og Oghenekaro Etebo, sem Stoke keypti nú nýverið, báðir ungir og ferskir, og voru bestu menn Nígeríu í leiknum.Nígería hefur notast við 4-2-3-1 leikkerfi og er liðið líklegt til að halda því áfram. Sinn hvorum megin við Mikel gegn Króatíu léku Victor Moses úr Chelsea og Alex Iwobi úr Arsenal, tveir sannkallaðir lykilmenn liðsins. Iwobi hefur átt frábæra leiki með Nígeríu en sýndi ekkert slíkt gegn Króatíu, og Moses náði sér heldur ekki á strik, en þetta eru mennirnir sem vörn Íslands þarf að hafa sérstakar gætur á.
Koma Iheanacho og Musa inn?
Odion Ighalo, fyrrverandi framherji Watford sem fór þaðan til Kína, var fremsti maður Nígeríu gegn Króatíu en nánast allan leikinn eins og Palli sem var einn í heiminum. Hann komst aldrei í takt við leikinn og svo gæti farið að Kelechi Iheanacho, leikmaður Leicester sem áður var hjá Manchester City, tæki hans stöðu.Vilji Rohr fríska enn frekar upp á sóknarleikinn, því ljóst er að hann mun sækja til sigurs gegn Íslandi eftir tap í fyrsta leik, stinga nígerískir miðlar upp á því að hann setji fyrirliðann Mikel hreinlega á bekkinn, eða aftar á miðjuna, og Iwobi fái frjálst hlutverk sem fremsti miðjumaður. Ahmed Musa, sem leikið hefur hér í Rússlandi síðasta hálfa árið með CSKA Moskvu, að láni frá Leicester, gæti þá komið inn í liðið á annan kantinn.
Mikill munur á sambandstíma miðvarðaparanna
Nígeríska liðið gæti þurft meiri hraða fram á við en Mikel hefur upp á að bjóða, og með því að færa hann aftar á völlinn gætu sendingar hans einnig nýst betur. Þegar liðið vann boltann gegn Króatíu gerðust hlutirnir einfaldlega of hægt og með óhnitmiðuðum hætti, þveröfugt við það sem Ísland hefur sérhæft sig í síðustu ár.Miðvarðapar Nígeríu mynda þeir Troost-Ekong, sem fyrir tveimur árum lék með Haugesund í Noregi en er nú hjá Bursaspor í Tyrklandi, og Leon Balogun sem enska úrvalsdeildarfélagið Brighton keypti í sumar frá Mainz í Þýskalandi. Balogun var tæpur vegna meiðsla fyrir leikinn við Króata en spilaði samt. Parið hefur spilað sex mótsleiki saman í nígeríska landsliðinu sem er talsvert ólíkt því sem þekkist í íslenska liðinu, þar sem Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason hafa spilað saman í sex ár.
Nítján ára fyllir í skarð Ikeme sem fékk íslenska kveðju
Í marki Nígeríu stendur hins vegar óreyndasti leikmaður liðsins en það er hinn 19 ára gamli Francis Uzoho, sem þótti standa sig ágætlega gegn Króatíu. Hann á að leysa vandamálið sem skapast hefur eftir að Vincent Enyeama hætti með landsliðinu og Carl Ikeme greindist með bráðahvítblæði. Íslensku strákarnir sendu einmitt Ikeme baráttukveðju í gegnum samfélagsmiðla í vikunni, en hann er fyrrverandi liðsfélagi Jóns Daða Böðvarssonar hjá Wolves. Uzoho er á mála hjá Deportivo La Coruna á Spáni en hefur aðallega spilað fyrir varalið félagsins.
„Verðum að vinna Ísland“
Heimir Hallgrímsson sagði við Morgunblaðið að það myndi nýtast Íslandi að vita að Nígería þarf að blása til sóknar í leiknum. Rohr fór ekki leynt með það eftir tapið gegn Króatíu og hann heldur í vonina um 16-liða úrslitin eins og nígeríska þjóðin:„Við erum vonsviknir. Við viðurkennum að Króatía var betra liðið að þessu sinni og mínir ungu leikmenn gerðu mistök, aftur í hornspyrnum. Núna verðum við að vinna Ísland. Ef við vinnum næsta leik er allt mögulegt upp á að komast áfram úr riðlinum.“