Nína Guðrún Geirsdóttir
ninag@mbl.is
Bergþór Grétar Böðvarsson, Reykvíkingur ársins, landaði fyrsta laxinum í blíðviðri í Elliðaánum. „Ég er ekki mikill veiðimaður og þetta er fyrsti laxinn sem ég veiði. Það gekk samt furðu vel að landa honum. Þetta tók bara fimm mínútur, og sem betur fer, ég hafði miklar áhyggjur af því að mæta seint í vinnuna,“ segir Bergþór og hlær.
Bergþór Grétar segir það hafa verið skrýtna tilfinningu að verða Reykvíkingur ársins, en hann er úr Kópavogi: „Ég er fæddur og uppalinn í Kópavogi, og hef taugar þangað, og brá aðeins þegar ég fékk símtalið um að ég væri Reykvíkingur ársins. En það má víst telja mig Reykvíking, ég hef búið hér í 20 ár,“ segir Bergþór og skellihlær.
Fótboltadraumur rættist
Bergþór hefur hlotið viðurkenningu fyrir ötult starf sitt sem talsmaður fyrir geðsjúka, en hann hlaut hvatningarverðlaun ÖBÍ í flokki einstaklinga fyrir að stuðla að jákvæðri og uppbyggilegri umræðu um geðsjúkdóma á Íslandi.Bergþór ólst upp í vesturbæ Kópavogs og æfði og spilaði fótbolta með Breiðabliki fram til 15 ára aldurs. Í dag er hann þjálfari knattspyrnuliðsins FC Sækó en starfar hjá batamiðstöðinni hjá Landspítalanum við Klepp. Bergþór segir það gamlan draum að spila í fótboltadeild, en liðið spilar í utandeild og æfir nokkrum sinnum í viku.
Ákveðnir fordómar til staðar
FC Sækó er knattspyrnulið sem hófst sem samstarfsverkefni Hlutverkaseturs, Velferðarsviðs og geðsviðs LSH en er í dag sjálfstætt íþróttafélag. Er tilgangur þess að efla og auka virkni fólks með geðraskanir, sem og draga úr fordómum, segir á vefsíðu fótboltafélagsins. Bergþór segir að starfsemi félagsins hafi vakið einhverja athygli frá því að hann var útnefndur Reykvíkingur ársins. „Það er aðeins búið að spyrjast út og fólk hefur verið að spyrja hvort það megi vera með. En svo hefur maður einnig heyrt af því að nafnið fæli einhverja frá, það eru ákveðnir fordómar til staðar. En það er það sem við erum að reyna að brjóta niður líka.“Þá hefur liðið vakið athygli utan landsteinanna. Evrópska knattspyrnusambandið hefur m.a. sýnt því áhuga og munu fulltrúar þess koma til landsins eftir að HM lýkur til að fjalla um grasrótarverkefni í fótbolta í Evrópu. „Það er mikil viðurkenning fyrir mig og okkur að þeir skuli tala beint við okkur,“ segir Bergþór og bætir við að FC Sækó sé öllum opið og allir séu velkomnir á æfingu.