Glaðir Gestur Eyjólfsson og Gunnar Guðmundsson eru hæstánægðir með allt í Rússlandi – nema moskítóflugurnar!
Glaðir Gestur Eyjólfsson og Gunnar Guðmundsson eru hæstánægðir með allt í Rússlandi – nema moskítóflugurnar! — Morgunblaðið/Skapti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í VOLGOGRAD Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is Einhverjir stuðningsmenn íslenska landsliðsins í fótbolta eru komnir til Volgograd í suðurhluta Rússlands, þar sem Ísland mætir Nígeríu í 2. umferð heimsmeistaramótsins annað kvöld.

Í VOLGOGRAD

Skapti Hallgrímsson

skapti@mbl.is

Einhverjir stuðningsmenn íslenska landsliðsins í fótbolta eru komnir til Volgograd í suðurhluta Rússlands, þar sem Ísland mætir Nígeríu í 2. umferð heimsmeistaramótsins annað kvöld. Liðið flaug einmitt úr heimahaganum við Svartahaf í gær og lenti í Volgograd undir kvöld, eins og fjallað er um í íþróttablaðinu.

„Ég er alsæll. Hér er ekki undan neinu að kvarta – nema flugunum,“ sagði Gunnar Guðmundsson, sem Morgunblaðið hitti að máli í gærkvöldi á hóteli skammt frá miðborginni. Þar gista þeir Gestur Eyjólfsson, en fjöldi blaðamanna er þar einnig á meðal gesta.

„Það var rosalega mikið af flugum á sveimi í dag og létu okkur ekki í friði. Við vorum á hlaðborði!“ sagði Gestur og hló.

Gunnar kom til Volgograd í gær en Gestur degi fyrr, eftir langa lestarferð frá Moskvu, þar sem hann sá fyrsta leik Íslands, við Argentínu. Ber hann Rússum vel söguna, bæði í Moskvu og ekki síður þeim fjölda sem var honum samferða í lestinni. „Þeir vilja allt fyrir mann gera, eru mjög elskulegir og hjálplegir.“

Gestur sagði blaðamanni frá ánægjulegu samtali við fréttamann stórs rússnesks miðils sem hann hitti á förnum vegi, og byrjaði á að spyrja hvers vegna svona fáir íslenskir stuðningsmenn væru mættir til borgarinnar. Fátt varð um svör, en í framhaldinu hrósaði fréttamaðurinn íslenska landsliðshópnum sérstaklega fyrir ánægjulegt viðmót. Sagði bæði Heimi Hallgrímsson þjálfara og leikmennina kurteisa og svara vel fyrir sig, sem því miður væri ekki hægt að segja um leikmanna allra liða á HM. Sumir væru beinlínis dónalegir og legðu greinilega ekki mikið upp úr góðri framkomu við fjölmiðla.

Misjafn sauður er í mörgu fé, sem sagt. Og þrátt fyrir að Gestur og Gunnar hrósi hinum almenna Rússa lenti sá síðarnefndi í vandræðum þegar hann hugðist leigja sér hús í nokkra daga í Volgograd. Fyrsta uppgefna verð var 400 dollarar, um 40.000 krónur en þegar til kom, eftir afbókanir og nokkrar beiðnir um að ganga aftur frá pöntun, átti að rukka hann um 42.000 dollara – rúmlega fjórar milljónir króna! „Sem betur fer pantaði ég þannig að hægt væri að hætta við án þess að þurfa að borga, og gaf aldrei upp nein kreditkortanúmer. Ég slapp því alveg, hætti einfaldlega að svara póstum frá fyrirtækinu, enda var þetta ekki svaravert. En þetta kostaði mikla vinnu við að útvega okkur hótel og við þurfum að færa okkur á milli. En það verður ekkert vandamál.“