Það hefur mikið verið fjallað um samstarf eða útilokun á samstarfi á undanförnum mánuðum og árum jafnvel. Píratar útilokuðu samstarf við ákveðna flokka fyrir nokkrar undanfarnar kosningar og margir túlkuðu það á mjög ómálefnalegan hátt.

Það hefur mikið verið fjallað um samstarf eða útilokun á samstarfi á undanförnum mánuðum og árum jafnvel. Píratar útilokuðu samstarf við ákveðna flokka fyrir nokkrar undanfarnar kosningar og margir túlkuðu það á mjög ómálefnalegan hátt. Til þess að gera út um það mál í eitt skipti fyrir öll þá þýðir útilokun á samstarfi hjá Pírötum útilokun á samstarfi um völd, aldrei útilokun á málefnalegu samstarfi. Varúð, þessi pistill inniheldur margar tölur.

Í þessu, sem og öðru, þá eru orð eitt og athafnir annað. Þess vegna ætla ég að sýna fram á það með gögnum hvernig Píratar störfuðu málefnalega með öðrum flokkum á síðasta þingi. Píratar (P) voru meðflutningsmenn á 37,5% mála Samfylkingarinnar (S), 35,7% mála Framsóknar (B), 50% mála Vinstri grænna, 0% mála Miðflokks (M), 14,3% mála Flokks fólksins (FF), 79% mála Viðreisnar (C) og 41,7% mála Sjálfstæðisflokksins (D). Þetta eru málefnalegar staðreyndir.

Til viðbótar má auðvitað bæta við að þó fólk setji sig ekki sem meðflutningsmenn þá getur fólk verið sammála um málið að einhverju leyti. Þær tölur myndu þá auka ofangreint hlutfall eitthvað en tölur um þann stuðning liggja ekki fyrir þannig að það er ekkert hægt að fullyrða um það. Enn fremur þá bjóða flokkar ekki alltaf upp á meðflutning á málunum sínum. Það gerir það að verkum að samstarfshlutfallið er mögulega enn hærra en þær tölur sem liggja fyrir segja til um. Þegar allt kemur til alls samt, þá er þetta málefnalegt samstarf sem er ekki hægt að horfa fram hjá að sé til staðar.

Það er fróðlegt að skoða hverjir styðja oftast og sjaldnast mál annarra flokka. P styður til dæmis oftast mál S á meðan B, V og D styðja ekkert mál S. V, P og FF styðja oftast (35,7%) mál B en M styður ekkert mál F. S, B og P styðja mál V oftast (50%) en M sjaldnast (36,4%). S styður mál M oftast (23%) en S, B, V, P og C styðja engin mál þeirra. S, FF og C styðja oftast (23-26%) mál P en B og D sjaldnast (4,8%). M og B styðja mál S oftast (66,7%) en C styður fæst (16,7%). M styður flest (42,9%) mál FF en S, B, V, P og C styðja fæst (14,3%). C fær oftast stuðning frá P (79%) og sjaldnast frá M (5,3%).

Meðalstuðningur við hvern flokk er líka áhugaverður. S er með 8% stuðning að meðaltali við sín mál. B er með 20,4% stuðning. V fær 44,8%, M fær 4,4%, P fær 16%, D fær 48,8%, FF fær 20,4% og C fær 39,1%. Það skiptir máli hversu oft flokkar biðja um stuðning, hverja þeir biðja um stuðning og hvort það sé stuðningur í öðru formi en að ljá meðflutning á hverju máli fyrir sig. Þær upplýsingar eru ekki aðgengilegar en það þarf samt að hafa þann fyrirvara á þessum tölum.

Eins og sést þá er ansi mikið málefnasamstarf á milli flokka á þingi. Það getur gerst óháð því hvaða flokkar taka sér völd. bjornlevi@althingi.is

Höfundur er þingmaður Pírata.

Höf.: Björn Leví Gunnarsson