Páll Guðmundsson
Páll Guðmundsson
Eftir Pál Guðmundsson: "Það er mikilvægt verkefni að sporna gegn kyrrsetulíferni og stuðla að því að sem flestir landsmenn, á öllum aldri, hreyfi sig reglulega."

Rannsóknir staðfesta að hreyfing er einn af lykiláhrifaþáttum heilbrigðis á öllum æviskeiðum.

Það er mikilvægt verkefni að sporna gegn kyrrsetulíferni og stuðla að því að sem flestir landsmenn, á öllum aldri, hreyfi sig í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu. Það er gert með því að horfa til þeirra fjölmörgu þátta sem hafa áhrif á daglega hreyfingu, m.a. í tengslum við ferðamáta, vinnu og skóla, frítíma og heimilisverk. Ganga er góð hreyfing og er í senn bæði einföld og ódýr. Auðvelt er að fara í daglegar gönguferðir út frá heimili eða vinnustað og víða má finna góða göngustíga í nærumhverfinu. Gönguferðir úti í náttúrunni og til fjalla eru gefandi og skemmtilegar og fjallgöngur eru meira krefjandi og auka þol og þrek göngufólks til muna. Það er frábær tilfinning að standa á fjallstindi eftir góða göngu. Finna fjallaloftið fylla lungun, njóta fjölbreytilegs og stórbrotins útsýnis, finna fyrir einhvers konar sigurtilfinningu eftir krefjandi göngu og ekki síst njóta þessa alls í góðum félagsskap. Þannig eru áhrifin af góðri gönguferð margvísleg, bæði á líkama og sál. Mikilvægt er þó að muna eftir því að byrja ávallt hægt og rólega og byggja smám saman upp þrek og styrk.

Regluleg hreyfing hefur fjölþættan ávinning fyrir heilsuna eins og vísindarannsóknir staðfesta. Þeir sem hreyfa sig reglulega minnka meðal annars líkurnar á að fá kransæðasjúkdóma, heilablóðfall, sykursýki af tegund 2, sumar tegundir krabbameina, stoðkerfisvandamál og geðröskun. Umfram allt eykur regluleg hreyfing líkurnar á að fólk lifi lengur og við betri lífsgæði en annars.

Takmörkuð gögn liggja fyrir um hreyfingu Íslendinga í áranna rás og því er erfitt að segja til um hvernig þróunin hefur verið á síðustu árum og áratugum. Kannanir benda þó til að meirihluti fullorðinna hreyfi sig ekki í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu og ýmsar vísbendingar eru um að kyrrseta hafi aukist í daglegu lífi landsmanna. Má þar nefna vaxandi ofþyngd meðal fólks og stóraukna bílaeign. Hreyfing minnkar með hækkandi aldri, stúlkur hreyfa sig minna en drengir, taka síður þátt í íþróttastarfi og detta fyrr út úr slíku starfi. Ungmenni af báðum kynjum hreyfa sig minna um helgar en á virkum dögum og langvarandi kyrrseta við afþreyingu við sjónvarps- og tölvuskjái er áhyggjuefni.

Hollt mataræði er hluti af heilbrigðum lifnaðarháttum Góð næring og dagleg hreyfing er nauðsynleg undirstaða heilbrigðs lífs. Hollur matur, hæfilegt magn og reglulegar máltíðir eru grundvöllur góðra matarvenja. Þar er mikilvægt að velja fjölbreytta fæðu í hæfilegu magni og þá fyrst og fremst matvæli sem eru rík af næringarefnum, svo sem grænmeti, ávexti, gróft kornmeti, belgjurtir, fituminni mjólkurvörur, fisk, þorskalýsi, magurt kjöt og fleira. Góðar matarvenjur eru svo aftur undirstaða þess að fólk hafi orku og löngun til þess að hreyfa sig.

Góð heilsa íbúa er forsenda sjálfbærs velferðarkerfis. Vegna samfélagslegra og lýðfræðilegra viðfangsefna er nauðsynlegt að efla aðgerðir á sviði lýðheilsu, m.a. til að koma í veg fyrir langvinna sjúkdóma og heilsutjón. Góð lýðheilsa hefur jákvæð áhrif á samkeppnishæfi landa, hagvöxt og nýsköpun. Stjórnvöld á Íslandi og þar með talin heilbrigðisyfirvöld hafa mikil ónýtt tækifæri í samstarfi við fjölmörg félagasamtök og grasrótina til að efla hreyfingu landsmanna og stuðla þannig að bættri heilsu landans. Hiklaust ætti að setja meira fjármagn í forvarnarstarf sem myndi leiða til stóraukinnar hreyfingar og heilbrigðari lífsstíls fólks.

Heilsa og vellíðan fólks er nátengd góðu umhverfi. Tækifæri til fjölbreyttrar útivistar og aðgengi að grænum svæðum eru þættir sem hafa áhrif á vellíðan fólks. Það eykur einnig skilning á þeim aðgerðum og atferlisbreytingum sem þróun í átt að sjálfbærni krefst. Á fáum stöðum í heiminum er eins gott aðgengi að náttúrunni og á Íslandi. Enda er það svo að sífellt fleiri stunda gönguferðir sér til heilsubótar.

Góð heilsa er eitt það mikilvægasta sem hver einstaklingur á. Því þurfum við að hugsa vel um okkur, hreyfa okkur mikið og reglulega, borða hollt og ástunda heilbrigðan lífsstíl. Láttu matinn verða meðalið þitt og meðalið vera matinn, var setning sem Hippókrates, faðir læknisfræðinnar, sagði fyrir meira en tvö þúsund árum. Þannig getum við sjálf valið heilbrigðan lífsstíll til að stuðla að góðri heilsu og vellíðan.

Höfundur er framkvæmdastjóri FÍ.

Höf.: Pál Guðmundsson