Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is „Ég virði það við Gylfa að koma fram núna og tilkynna þetta.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

„Ég virði það við Gylfa að koma fram núna og tilkynna þetta. Það hefði verið erfitt að fara inn í sumarið í óvissu fram á haust,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), lýsti því yfir á miðstjórnarfundi sambandsins í gær að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs á 43. þingi ASÍ í október.

Átök hafa verið í verkalýðshreyfingunni milli tveggja fylkinga; annars vegar sitjandi afla undir forystu Gylfa og hins vegar fylkingar undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, sem hafa gagnrýnt stefnu Gylfa í forsetatíð hans. Hvorugt þeirra mun bjóða sig fram til forseta.

Sverrir Albertsson, miðstjórnarmaður í ASÍ, tilkynnti á fundinum í gær að hann undirbyggi framboð til forseta, en hann er framkvæmdastjóri AFLs – starfsgreinafélags, sem u.þ.b. 5-6.000 launþegar tilheyra. Félagið á aðild að ASÍ gegnum Starfsgreinasambandið.

Í samtali við Morgunblaðið kveðst hann staðsetja sig utan fylkinganna tveggja. „Ég hengi mig ekki á fólk, ég hef oft verið sammála Gylfa og oft staðið með honum, það fer bara eftir því hvað er til umræðu. Það er klofningur í hreyfingunni og það er mikilvægt að sætta ólíkar fylkingar og láta rykið setjast,“ segir Sverrir.

Tengist baklandinu betur

Ragnar Þór útilokar ekki að taka sæti varaforseta ASÍ í haust. „Forystan þarf að geta sameinað félögin þannig að við komum sem heild út úr þeim breytingum sem hafa orðið innan sambandsins og í stærstu félögum þess. Ég er ekki viss um að við, formenn stærstu stéttarfélaganna, eigum að leiða það verkefni, frekar manneskja sem allir eru sáttir við,“ segir hann.

Hann segir að næsti forseti ASÍ þurfi að hafa betri tengingu við baklandið og grasrótina. „Þetta snýst um að vera með forystu sem hlustar á það sem baklandið mótar gegnum félögin sem byggja Alþýðusambandið. Þetta þarf að vera einstaklingur sem getur hlustað á grasrótina. Það hefur forsetanum ekki tekist,“ segir hann. „Við förum auðvitað fram á að það verði tekið meira tillit til þeirrar aðferðafræði sem við höfum verið að boða,“ segir Ragnar Þór, en hann segir aðspurður að rætt hafi verið um næsta arftaka innan VR. „Við höfum rætt þetta okkar á milli og bjuggumst hreinlega við því að fara í þetta uppgjör í haust,“ segir hann.

Sólveig Anna, sem nýlega var kjörin formaður Eflingar, kveðst hafa nóg fyrir stafni og hafa ekki áhuga á forsetasætinu. „Nú hlýtur fólk að fara að stíga fram. Ég hugsa að einhverjir hafi beðið eftir þessari ákvörðun,“ segir hún.

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar á Húsavík, og Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, hafa verið orðuð við forsetastól Alþýðusambandsins. Í samtali við Morgunblaðið sagðist Aðalsteinn ekki ætla að bjóða sig fram, en ekki náðist í Drífu í gær.