Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Dúfurnar sem voru svo algengar á árum áður í borginni sjást þar vart lengur og fátítt er að strákar haldi dúfur í kofum og monti sig af virðulegu ætterni sumra þeirra. Nú er dúfur helst að finna á Austfjörðum og nýtt landnám þeirra frá aldamótum hefur verið áberandi í Landbroti og Fljótshlíð, einnig hafa þær verið undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og víðar. Kallast nú orðið einu nafni bjargdúfur og lítið er orðið um bæjardúfur, en erfðafræðilega er ekki langt á milli þeirra systra.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir að bjargdúfur hafi orpið í klettum í upprunalegum heimkynnum sínum. Nóg sé af klettum, hömrum eða björgum á þeim slóðum þar sem dúfur hafa haslað sér völl síðustu tvo áratugi, en stundum verpi þær í yfirgefnum húsum og dæmi séu um slíkt frá Hornafirði. Varpstaðir undir þakskeggi í þéttbýli minni hugsanlega á eldri heimkynni.
Stöðug fjölgun á Suðurlandi
„Stöðug fjölgun dúfna hefur verið víða á Suðurlandi frá aldamótum,“ segir Kristinn Haukur og nefnir Eyjafjöll, Mýrdal, Síðu og Hornafjörð. „Vafalaust tengist það aukinni kornrækt á þessum slóðum á síðustu 10-20 árum og því betri fæðuskilyrðum. Menn hafa séð dúfnahópa í kornökrum á haustin, 100-200 fugla, oftast þegar búið er að þreskja. Yfirleitt eru dúfurnar þó færri á ferð, en víða á Suðurlandi, þar sem miklir klettar og hamraveggir eru, getur maður átt von á að sjá dúfur á flugi. Uppruni þessara dúfna sem halda til undir Eyjafjöllum og víðar er óljós en að öllum líkindum eru þetta langmest eða að öllu leyti afkomendur taminna dúfna sem hafa lagst út.“
Í vetrarfuglatalningu Náttúrufræðistofnunar síðasta vetur sáust langflestar dúfur á Eskifirði/Reyðarfirði eða 338, en einnig 66 á Seyðisfirði, 55 á Norðfirði og 5 á Fáskrúðsfirði. Þær eru einnig nær árvissar við Djúpavog en komu ekki þar fram í talningunni í vetur.
Við Hornafjörð voru alls 209 dúfur, 94 í Landbroti, fimm sáust undir Eyjafjöllum, 97 í Vestmannaeyjum og 40 í Fljótshlíð. Aðeins var talið úr bíl undir Eyjafjöllum og ekki var talið í Mýrdalnum, en þar eru dúfur nú algengar. Á sjöunda áratug síðustu aldar urpu villtar dúfur í klettum við Vík í Mýrdal, en virðast hafa dáið út. Dúfur hafa lengi sést í Vestmannaeyjum og voru ekki auðfúsugestir meðan neysluvatni var safnað af þökum húsa í Eyjum. Núna virðast flestar dúfurnar koma til Vestmannaeyja á haustin, væntanlega þá frá Eyjafjöllum og Mýrdal, að sögn Kristins Hauks.
62 dúfur voru taldar í Reykjavík og nágrenni í vetur, sex við Grundartanga, ein á Akranesi og fjórar í Hveragerði.
Kristinn segist ekki vita hversu stór hluti dúfnastofnsins komi fram í fuglatalningu að vetri og engar sjálfstæðar talningar eða mat á stofninum liggi fyrir. Hann áætlar að fuglarnir geti verið tvisvar til þrisvar sinnum fleiri heldur en fram komi í talningunni. Samkvæmt því gætu verið allt að þrjú þúsund villtar dúfur á landinu, en auk þess eru bréfdúfur ræktaðar og eitthvað er um skrautdúfur.
Að uppruna úr þéttbýli
„Í grunninn tel ég að dúfur á landinu séu að uppruna dúfur úr þéttbýli,“ segir Kristinn. „Heimildir um villtar dúfur hér á landi ná aftur fyrir 1940 í Vestmannaeyjum og um 1970 varð fyrst vart við slíka fugla á Norðfirði og laust fyrir aldamótin á Suðurlandi.
Uppruni austfirsku dúfnanna er sveipaður nokkurri dulúð, en þeirra er fyrst getið sem varpfugla af Hjörleifi Guttormssyni í klettum utan við Neskaupstað laust fyrir 1970. Nokkru síðar fundust þær verpandi í Hólmanesi milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og þar var augljóslega mikið af bæjardúfum (skræpum) innan um bjargdúfurnar mörg árin.“
Bjargdúfa er gráblá, með gljáandi grænar og purpuralitar hálshliðar. Hún er með hvítan yfirgump, dökka rák á jaðri stéls og tvær svartar vængrákir. Litur bæjardúfna getur verið fjölbreyttari, en slæðist til dæmis hvít bæjardúfa í hóp bjargdúfna yrði hún trúlega auðveld bráð fyrir fálka. Lifði hún af myndi hvíti liturinn víkja fyrir lit bjargdúfna með nokkrum kynslóðum og villt ásýnd þeirra tæki yfir.
„Í Færeyjum eru villtar bjargdúfur orðnar mjög blandaðar bæjardúfum og ég held að það verði að teljast getgátur að fuglarnir í Hólmanesi hafi komið frá Færeyjum, en þó er ekki hægt að útiloka það. Ef þetta væru villtar dúfur að uppruna væri það stórmerkilegur stofn. Dúfurnar fyrir austan sækja inn í bæina á veturna og eru háðari matargjöfum og fuglafóðri frá mannfólkinu, en þar er ekki kornrækt,“ segir Kristinn.
Um þetta leyti árs eru þær hins vegar í alls kyns gróðri, einkum fræjum og skordýrum, en það er mjög fjölbreytt sem dúfur geta nýtt sér til matar.