Eiríksgata 5 Íslenskir bindindismenn reistu húsið árið 1968 og Landspítali hefur leigt það frá 1999. Byggt hefur verið við húsið og því breytt í áranna rás.
Eiríksgata 5 Íslenskir bindindismenn reistu húsið árið 1968 og Landspítali hefur leigt það frá 1999. Byggt hefur verið við húsið og því breytt í áranna rás. — Ljósmynd/Landspítalinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mb.is Landspítalinn hefur ákveðið að skrifstofum spítalans við Eiríksgötu 5 verði breytt í þá veru að þar verði í framtíðinni þjónusta við sjúklinga.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mb.is

Landspítalinn hefur ákveðið að skrifstofum spítalans við Eiríksgötu 5 verði breytt í þá veru að þar verði í framtíðinni þjónusta við sjúklinga.

„Við viljum búa betur að göngudeildarstarfsemi og skapa svigrúm fyrir ýmis klínísk verkefni sem er vaxandi þörf fyrir, m.a. brjóstamiðstöð, erfðaráðgjöf og sameiginlega innskriftarmiðstöð svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Páll Matthíasson framkvæmdastjóri í forstjórapistli.

Eiríksgata 5 er um 3.400 fermetrar að stærð og fær Landspítalinn því gott viðbótarrými til að sinna sjúklingum. Húsnæði verður tekið á leigu fyrir skrifstofur spítalans.

Húsið á sér merka sögu. Það var byggt af Stórstúku Íslands og tekið í notkun 1. febrúar 1968. Áður hafði Stórstúkan verið með starfsemi í Góðtemplarahúsinu við Templarasund. Þetta var einlyft timburhús sem reist var árið 1887 og rifið 1968. Þarna eru nú bílastæði alþingismanna.

Aðsetur æskulýðsins

Húsið Eiríksgata 5, sem í daglegu tali var nefnt Templarahöllin, var á fjórum hæðum, um 1.700 fermetrar alls. Í kjallaranum var samkomusalur sem tók 250 gesti og þar voru haldin böll og bingó, sem margir eldri Reykvíkingar muna eflaust eftir. Á fyrstu hæð var göngudeild Landspítalans og á annarri hæð voru samkomusalir og skrifstofur Stórstúkunnar. Á þriðju hæð var svo aðsetur barnablaðsins Æskunnar og áfengisvarnaráðs.

Vígsludagurinn 1. febrúar var valinn vegna þess að hann var helgaður bindindismálum um land allt. Fram kom í frétt í Morgunblaðinu að stóri salurinn yrði að miklu leyti helgaður æskufólki höfuðstaðarins. Á þessum tíma var öflugt stúkustarf meðal barna og unglinga og ungtemplarafélagið Hrönn með blómlegt starf. En nú eru breyttir tíma og þessi starfsemi að mestu aflögð.

Fram kemur í Morgunblaðinu að Hrönn hafi staðið fyrir spilakvöldum á föstudögum, þar sem utanlandsferðir voru í vinning. Á laugardagskvöldum voru gömlu dansarnir fyrir fullorðna og á sunnudögum voru tveir dansleikir fyrir unglinga. Allar þessar skemmtanir voru áfengislausar eins og nærri má geta.

Templarahöllin var auglýst til sölu eftir áramótin 1997. Stórstúkan ákvað að selja húsið, þar sem fyrirsjáanlegt var að fram undan væri afar kostnaðarsamt viðhald. Snorri Hjaltason byggingameistari gerði Stórstúkunni tilboð í eignina og var gengið að því af hennar hálfu í mars 1997. Samtímis því að kaupa húsið byggði Snorri annað hús fyrir Stórstúkuna að Stangarhyl 4.

Snorri hófst handa við að endurbyggja Eiríksgötu, innan sem utan. Til viðbótar gagngerri endurnýjun á gömlu Templarahöllinni var byggð við hana viðbygging, þrjár hæðir og um 1.700 fermetrar alls. Arkitektarnir Björn Skaptason og Hildur Bjarnadóttir hönnuðu nýju bygginguna við Eiríksgötu og einnig allar þær breytingar sem gerðar voru á eldri byggingarhlutanum.

Landspítali (Ríkisspítalar) gerði árið 1999 leigusamning við Snorra um að leigja húsið. Það hefur skipt um eigendur en er nú í eigu Reita og leigir Landspítali húsið af Reitum.

Frá árinu 1999 hafa skrifstofur Landspítala verið í húsinu. Búið er að auglýsa eftir skrifstofuhúsnæði fyrir spítalann og því liggur ekki fyrir hvert sú starfsemi fer.