Veiði Hvalur 8 og 9 við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfn árið 2014.
Veiði Hvalur 8 og 9 við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfn árið 2014. — Morgunblaðið/Júlíus
Andri Steinn Hilmarsson Þorgrímur Kári Snævarr Langreyðar á Íslandsmiðum hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af veiðimönnum síðastliðin tvö ár en ró þeirra var á enda í fyrradag þegar skipið Hvalur 8 hélt út á miðin frá Hvalfirði.

Andri Steinn Hilmarsson

Þorgrímur Kári Snævarr

Langreyðar á Íslandsmiðum hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af veiðimönnum síðastliðin tvö ár en ró þeirra var á enda í fyrradag þegar skipið Hvalur 8 hélt út á miðin frá Hvalfirði. Hvalur 8 er annar tveggja hvalveiðibáta sem Hvalur hf. gerir út í sumar ásamt Hval 9 . Þess er vænst að Hvalur 9 haldi á miðin um helgina. Hvalakvóti fyrirtækisins í ár nemur 161 dýri en þar sem ekki var veitt síðustu tvö árin leyfist hvalveiðimönnum að bæta það upp í ár og mega þeir því veiða tæplega 200 dýr í ár. Til viðmiðunar má nefna að árið 2015 veiddust 155 langreyðar.

Kristján Loftsson, stjórnarformaður Hvals hf., segir að fjöldi veiddra hvala muni helst ráðast af veðurskilyrðum. „Vertíðin er venjulega í kringum hundrað daga,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is. „Þetta fer allt eftir veðri og eins hvort hvalurinn liggur nær landi eða í dýpi. Veðrið er mikið atriði. Ef það eru brælur er minni veiði en ef það er gott veður gengur betur.“

Veiddar um 120 mílur frá landi

Spurð hvort byrjun veiðanna eftir tveggja ára hlé raskaði hvalaskoðunarferðum svaraði Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Eldingar, að truflunin af langreyðaveiðum væri óveruleg en hrefnuveiðar trufluðu hvalaskoðunarferðir miklu meira. „Hrefnuveiðarnar byrjuðu í síðustu viku og þær trufla okkur beint því að þær eru veiddar hérna í Faxaflóanum,“ segir Rannveig. „Þeir veiða langreyðarnar um 120 mílur frá landi. Almennt trufla þær veiðar okkur ekki nema þegar þeir eru að draga langreyðina á síðunni í gegnum svæðið. Það veldur stundum geðshræringu um borð hjá okkur ef við rekumst á þá.“