Helgi Geir Sigurgeirsson, bifvélavirki, kennari og leigubílstjóri, var fæddur á Eskifirði 3. apríl 1958. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 11. júní 2018.

Foreldrar Helga Geirs voru Sigurgeir Helgason, f. 21.8. 1922, d. 16.11. 2006, og Elinóra Björgvinsdóttir, f. 27.6. 1924, d. 28.12. 1979. Systkini Helga Geirs eru Sigríður Karen, f. 22.6. 1946, og Kjartan, f. 18.5. 1951, d. 28. apríl 2017.

Helgi Geir var giftur Ásdísi Hafrúnu Benediktsdóttur, f. 20.3. 1959. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Elsa Særún tölvunarfræðingur, f. 2. nóvember 1979, og Sigurgeir Þór kvikmyndagerðarmaður, f. 8. október 1983, í sambúð með Ragnhildi Láru Finnsdóttur, f. 18.8. 1981. Börn Sigurgeirs og Ragnhildar eru Hugi Freysteinn, f. 23.12. 2013, og Una Elínóra, f. 15.8. 2016.

Helgi var fæddur og uppalinn á Eskifirði þar sem hann gekk í Barna- og gagnfræðaskóla Eskifjarðar. Á unglingsárum stundaði hann sjómennsku með skóla en eftir að hann lauk námi í bifvélavirkjun við Iðnskóla Austurlands starfaði hann að mestu við iðngrein sína eða störf tengd henni. Síðari hluta starfsævinnar kenndi hann bílgreinar við Borgarholtsskóla, fyrst sem leiðbeinandi en öðlaðist síðar kennsluréttindi í greininni. Helgi starfaði lengi sem leigubílstjóri, samhliða annarri vinnu og var bílstjóri hjá Hreyfli í rúm 20 ár.

Helgi var virkur félagi í Kiwanishreyfingunni á Íslandi um áratugabil og mikill áhugamaður um bridge.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 21. júní 2018, klukkan 14.

Elsku tengdapabbi minn hann Helgi Geir hefur kvatt þennan heim. Hann fór frá okkur allt of snemma og án nokkurs fyrirvara.

Helgi var góður og stoltur pabbi og fylgdist vel með því sem var í gangi hjá börnunum sínum og hann hringdi gjarnan, bara til að heyra í þeim hljóðið. Sérstaklega var hann þó stoltur af barnabörnunum sínum tveimur, stóra afastráknum sínum og litlu afastelpunni sem er nefnd eftir mömmu hans. Hann settist gjarnan í sófann með krökkunum og las bækur þegar hann kom í heimsókn og þau voru pylsuaðdáendur númer eitt, tvö og þrjú. Ég man hvað hann hló í vetur við matarborðið þegar hún raðaði í sig pylsu eftir pylsu og bað alltaf um meira. Þó hann hafi flutt þvert yfir landið þá var hann tilbúinn með barnastól og leikföng fyrir heimsóknir barnabarnanna austur á Eskifjörð.

Ég mun alltaf minnast hans þegar ég geri kartöflumús, hann grínaðist oft með að hann væri eini maðurinn á landinu sem ætti Kitchen-aid vél bara til þess að þeyta kartöflumús í, og engin furða að hann gerði heimsins bestu kartöflumús.

Elsku Helgi, þú skildir eftir stórt skarð og þín er sárt saknað. Takk fyrir allt það sem þú gerðir fyrir mig, Sigurgeir og börnin okkar.

Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr

enginn frá hans löngu glímu aftur snýr.

Því skaltu fanga þessa stund

því fegurðin í henni býr.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Ragnhildur Lára Finnsdóttir.

Helgi Geir móðurbróðir minn lést 11. júní sl. á Hjartagátt Landspítalans. Andlátið bar brátt að og því enginn tími til að kveðja. Eftir sitjum við agndofa og sorgmædd.

Það var sterkur strengurinn á milli okkar tveggja, hann var aðeins 7 árum eldri en ég og var mér meira eins og stóri bróðir. Hann passaði mig þegar ég var lítil og ég passaði börnin hans þegar ég hafði getu og vit til. Ég ólst upp í næsta húsi við hann fyrstu ár ævinnar og honum fannst afi og amma oft dekra stelpuna. Ég elti hann og vini hans um allan Eskifjörð, man að hann þurfti stundum að stinga mig af til að losna við mig. Hann ólst upp við ástríki móður, föður og tveggja eldri systkina á Eskifirði. Þau voru náin systkinin þrjú og heyrðu reglulega hvert í öðru eftir að þau stofnuðu sínar fjölskyldur. Þegar þau hittust var oft glatt á hjalla og óspart gert grín hvert að öðru. Kjartan bróðir hans lést fyrir rétt ári síðan eftir stutt veikindi og Helgi sagði oft klökkur hve hann saknaði bróður síns mikið og lífið væri ekki eins án hans. Helgi var einlægur, glettinn og hláturmildur, hlýr og umfram allt góð manneskja. Hann var duglegur að hafa samband við frænku sína og sagði alltaf: „Mig langaði bara að heyra í þér og segja þér hvað mér þykir vænt um þig.“ Ég á eftir að sakna þessara símtala, sakna smitandi hlátursins og matarveislanna þegar boðið var í kjöt í karrí eða eitthvað gott með kartöflumús. Börnin hans tvö, Elsa Særún og Sigurgeir, voru honum allt, þau voru samheldin þrenning og fylgdust vel hvert með öðru og áttu einlægt og fallegt samband, þeirra missir er mikill. Þegar barnabörnin tvö, Hugi Freysteinn og Una Elínóra, fæddust fylgdist hann með þeim vaxa og dafna. Hann sagði mér oft hvað hann var stoltur af hópnum sínum.

Ég kveð frænda minn með þökk fyrir allt, ég veit að Brói tekur á móti honum.

Kveðja,

Elinóra Friðriksdóttir.

Sólland er fallegur og friðsæll hvílustaður innan borgarlandsins og þar mun fyrrverandi eiginmaður minn og vinur hvíla. Þó er umferðarþunginn bara handan við næsta trjálund og flugið með öllu sínu annríki og gný fer rétt yfir. Honum hefði líkað það, bæði friðsældin og líflegur umferðarysinn. Nú eru áhyggjur og erfiðleikar að baki og hann ferðast óhindrað um í þeirri hringiðu eða friðsæld sem hann sjálfur kýs.

„Hann er svo góður strákur,“ var það fyrsta sem ég heyrði um þennan Helga sem var á sjó á Norðfirði á útmánuðum 1976. Ég sannreyndi ljúfmennskuna við fyrstu kynni, þegar hann settist við hliðina á mér í Egilsbúð, sagði „hæ“ og lét eins og ekkert væri sjálfsagðara en að hann yrði við hliðina á mér um ókomna tíð.

Við hófum sambúðina ung með ólíkan bakgrunn og hugmyndir, tókst furðuvel að aðlagast en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst mér aldrei að kenna honum að rífast. Ég komst að því að á erfiðum stundum gat hann sýnt styrk þó hann reyndi ætíð að forðast sársaukann og erfiðleikana. Góðir menn eiga ekki alltaf þá hörku sem þarf til að takast á við sáru verkin í tilverunni.

Þegar dóttirin fæddist eignaðist hann eitthvað óendanlega dýrmætt og brothætt. Ég hafði oft orð á að hún lærði aldrei að standa upp af sjálfsdáðum svo mikil var hjálpsemi hans þegar hún var að læra að taka fyrstu skrefin. En hún varð fljótt sjálfstæð, kraftmikil og ákveðin og fylgin sér og í öllum hennar uppátækjum studdi hann hana þó honum fyndist þau misgáfuleg.

Þegar sonurinn kom svo í heiminn sótti hann ljúfmennskuna til föður síns og tengdist honum líka sterkum en ólíkum böndum. Ungbörn voru ekki lengur framandi ráðgáta en vegna veikinda barnsins voru áhyggjurnar aðrar.

Lífið færði honum erfiðleika, móðurmissinn, kollsteypu í efnahag, áhyggjur og kröfur sem hann bugaðist undan. Stundum verða erfiðleikarnir svo miklir að menn hafa enga orku til að standa undir kröfum fjölskyldulífsins. Þá þarf að nota þá krafta sem eftir eru til að safna sjálfum sér saman. Ekki endilega í sátt við allt og alla en til að geta verið öðrum stoð þarf að byggja sjálfan sig upp. Svo þegar bata er náð er hægt að byggja upp vináttuna aftur. Vináttan stóð af sér tvenn sambandsslit og þó við yrðum enn ólíkari með þeim þroska sem lífið neyðir upp á mann var kærleikur vináttunnar til staðar.

Barnabörnin tvö hittu hann reglulega þegar hann gat og þar mætti hann skilyrðislausum kærleika. Una Elínóra, rauðkollan sem er mjög kraftmikil að sögn afans, en hann hlýddi alltaf skipuninni „Aví, koma“. Og hún togaði fótafúinn afann úr sófanum og teymdi hann með sér í leiki. Í kveðjuskyni fékk hann svo ljúflingskoss frá glókollinum Huga Freysteini sem á ekki langt að sækja góðmennskuna og hjartahlýjuna. Ljósið í lífi hans síðustu árin var að sjá börnin á tryggum stað í lífinu og finna skilyrðislausan kærleika barnabarnanna. Það er hægt að skila af sér verra samyrkjubúi en þessu að leiðarlokum og „eilíft honum fylgja frá mér friðarkveðjur brottu geingnum“.

Ásdís Hafrún Benediktsdóttir.

Vinnufélaga og vinar til margra ára, Helga Geirs Sigurgeirssonar, vil ég minnast með nokkrum orðum. Við vorum samtíða við kennslu bifvélavirkja í Borgarholtsskólanum. Þegar Helgi kom til starfa í skólanum hafði hann starfað sem bifvélavirkjameistari og sem atvinnubifreiðarstjóri. Skömmu eftir að hann hóf kennslu sótti hann sér réttindi sem framhaldsskólakennari frá KHÍ. Helgi átti sérlega gott með að umgangast unglinga og veit ég að hann eignaðist varanlega marga vini úr þeirra hópi eftir að þeir luku námi og fóru til starfa í iðngrein sinni. Meðal vinnufélaga í skólanum var hann mjög vel liðinn, glaðvær, umhyggjusamur og hjálpsamur. Á það síðasttalda reyndi oft þegar einhverjir samstarfsmenn í skólanum lentu í vandræðum með bifreið sína, þá mátti leita til Helga sem bæði réð mönnum heilt og þekkti til viðgerðamanns sem gæti hjálpað upp á sakirnar. Vinskapur okkar tengdist mest starfinu og á ég honum margt að þakka í stuðningi og drengskap sem hann sýndi mér. Ég veit að hann var hneigður fyrir félagsstörf. Til marks um það er að hann var fyrsti formaður Kiwanisfélagsins í Höfn við stofnun þess árið 1987. Þá var Helgi áhugasamur bridgespilari til margra ára og tók þátt í mótum og síðast í árlegu bridgemóti á Hala í Suðursveit nú í vor. Mótlæti tók hann sem hluta af tilverunni, ekki heyrðist hann kvarta þó heilsan mætti oft vera betri. Helgi átti tvö börn, pilt og stúlku, af þeim var hann verðskuldað mjög stoltur. Votta börnum hans og ástvinum samúð og þakka fyrir kynni af góðum dreng.

Ingibergur Elíasson.