Axel Helgi Ívarsson axel@mbl.is Deila fjögurra arabaríkja annars vegar, Sádi-Arabíu, Barein, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Egyptalands, og Katar hins vegar, sem staðið hefur í rúmt ár, stefnir nú í enn furðulegri fléttu.

Axel Helgi Ívarsson

axel@mbl.is

Deila fjögurra arabaríkja annars vegar, Sádi-Arabíu, Barein, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Egyptalands, og Katar hins vegar, sem staðið hefur í rúmt ár, stefnir nú í enn furðulegri fléttu. Hyggjast Sádi-Arabar grafa 60 kílómetra langan og 200 metra breiðan skurð um kílómetra frá landamærum sín við Katar. Með þeirri aðgerð yrði Katar að eyju, en ríkið stendur á litlum skaga út frá Sádi-Arabíu.

Arabaríkin fjögur slitu í byrjun júní í fyrra stjórnmála-, efnahags- og ferðasamböndum við Katar vegna meints stuðnings ríkisins við öfgamenn og fjármögnun á hryðjuverkahópum. Settu ríkin fjögur fram lista með 13 kröfum sem Katar yrði að mæta, s.s. að hætta fjármögnun öfgahópa og minnka tengsl við Íran, svo aðhægt væri að endurvekja milliríkjasambönd.

Katar varð hins vegar ekki við kröfunum og frekari sáttaumleitanir í Samstarfsráði arabaríkjanna við Persaflóa (GCC) hafa ekki borið árangur sem erfiði. Lítur því út fyrir að einangrun Katars verði ekki einungis bundin við efnahag og stjórnmál, heldur nú einnig landfræðileg.

Katar hefur þó náð að standast áhlaupið með því að þróa viðskiptasambönd við Óman, Tyrkland og Íran. Þá greindi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frá því í vor að bein efnahagsleg og fjárhagsleg áhrif deilunnar væru að „fjara út“.

Áform Sáda komu fyrst fram á sjónarsviðið í apríl síðastliðnum en hjólin eru nú farin að snúast af meiri krafti. Stendur útboð fyrir framkvæmdinni nú yfir, en því lýkur næstkomandi mánudag og hafa fimm alþjóðleg fyrirtæki sett fram tilboð í verkið.

Áætlað er að sigurvegari útboðsins verði tilkynntur eftir þrjá mánuði og er gert ráð fyrir að gerð skurðarins taki einungis eitt ár í framkvæmd. Kostnaður verksins er áætlaður um 750 milljónir Bandaríkjadollara, eða sem um nemur 81,7 milljörðum íslenskra króna.

Lúxusstrendur og herstöð

Fjölmiðillinn Gulf News greinir frá því að á meginlandshlið skurðarins sé áætlað að koma á fót ferðamannastöðum með einkaströndum ásamt því að reisa hafnir. Sömu sögu er ekki að segja af hinni hlið skurðarins, en þar hyggjast Sádar setja upp annars vegar herstöð og hins vegar losunarsvæði fyrir kjarnaúrgang, úrgang úr kjarnaofnum sem á þó ennþá eftir að byggja.