Þórhallur Birkir Lúðvíksson fæddist á Akureyri 21. júní 1993. Hann lést 22. júlí 2018.

Foreldrar Þórhalls eru Lúðvík Gunnlaugsson, fæddur 31. mars 1957, og Jóna Sigurgeirsdóttir, fædd 24. ágúst 1957.

Systkini Þórhalls eru.

Helga Ósk Lúðvíksdóttir, fædd 5. maí 1977, maki Sigmar Ingi Ágústsson, fæddur 6. febrúar 1979,

Lúðvík Trausti Lúðvíksson, fæddur 17. desember 1979, maki Agnes Þorleifsdóttir, fædd 22. janúar 1983, og Sigurgeir Lúðvíksson, fæddur 16. maí 1990.

Jarðsett verður frá Akureyrarkirkju miðvikudaginn 1. ágúst, klukkan 13.30.

Þann 22. júlí kom símtalið. Símtalið sem ég var búin að óttast svo lengi að kæmi, en vonaði að til þess kæmi ekki. Þórhallur er dáinn, litli bróðir minn er farinn frá okkur. Lífið hefur aldrei kýlt mig jafn fast niður og þarna.

Ég fékk að fylgjast með litla glaða drengnum sem hann var. Uppátækjasamur, hjálpsamur, hjartahlýr og skemmtilegastur af öllum. Litla bróður sem saumaði bikiní handa stóru systur í skólanum, litla bróður sem ég fór með á Korn-tónleika, litla bróður sem passaði svo vel upp á börnin mín. Ég fékk líka að horfa upp á bugaðan og örvæntingarfullan ungan mann sem réð ekki við lífið. Eitthvað gerðist þegar hann kynntist heimi fíkniefnanna og hann fór á bólakaf. Fíknin tók hann frá okkur. Hann var búinn að reyna að sigrast á henni en hún náði alltaf yfirhöndinni aftur.

Ég á engin orð. Hann var 25 ára þegar hann kvaddi okkur, hefði átt að vera að byrja lífið en ekki enda það.

Elsku Þórhallur, með augun full af tárum kveð ég þig. Þú ert skærasta stjarnan á himninum núna og ég veit að þú fylgist með okkur og passar upp á okkur, elsku drengurinn minn. Minning þín mun lifa með okkur og ég passa að börnin mín fái að heyra sögurnar af uppátækjum þínum og hversu mikið þú gladdir okkur og gerðir lífið skemmtilegra.

Þín stóra systir,

Helga Ósk.

Elsku Þórhallur frændi minn er farinn allt of fljótt frá okkur. Það er eins og haustið hafi komið of snemma. Allt er grátt og söknuðurinn er mikill. Skrefin í dag eru þung að kveðja ljúfan dreng.

Við Þórhallur vorum frá fæðingu tengd sterkum böndum. Mikill samgangur var milli heimila og við vorum ætíð góðir vinir. Systkinin Anna, Einar og Lúðvík eignuðust okkur öll á sama árinu með þriggja mánaða millibili. Ég held fast um hugljúfar minningarnar sem ylja mér í hjarta á þessum erfiðu tímum, en þær eru ansi margar. Ég minnist þess þegar við horfðum á bannaðar myndir og þú fullvissaðir mig um að það væri allt í lagi, þú myndir passa mig. Það einkenndi þig, þú varst hugrakkur og fékkst góðar hugmyndir. Jóna, mamma þín, bannaði okkur að klifra upp á kofann í Rimasíðunni þegar við vorum að fara út í garð að leika og það var það fyrsta sem við gerðum, þú varst hvatvís og flest sem þér datt í hug varðst þú að framkvæma. Bestu tímarnir voru þegar ég, þú og Harpa vorum hjá ömmu og afa í Lerkilundi. Ýmist á kafi í rifsberjarunnanum hennar ömmu eða að rífa upp rabarbara í garðinum, það skipti engu máli hvort við fengum leyfi eða ekki, við framkvæmdum það sem okkur datt í hug, enda mikil læti og fjör í kringum okkur. Það var nauðsynlegt að hafa einn dreng með frænkum sínum tveimur. Við litum upp til þín og þú kenndir okkur margt, má þar helst nefna á hjólabretti! Þú varst samt alltaf ljúfur og góður, ég man vel eftir risaeðlunni sem þú gafst mér í sjö ára afmælisgjöf, þú valdir hana alveg sjálfur. Þú varst svo ánægður með sjálfan þig.

Þú skilur eftir stórt skarð í okkar þríeyki og eftir stöndum við Harpa tvær. Sársaukinn við andlát þitt er mikill.

Elsku frændi minn, ég veit að amma tekur vel á móti þér með opnum örmum. Ég kveð þig í dag hugsandi um ljúfsárar minningarnar sem ég mun halda fast í, enda eru þær margar og góðar, elsku ljúfi og góði drengurinn minn.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

(Bubbi Morthens)

Guðrún Gísladóttir.

Elsku dásemdar Þórhallur. Mikið sem það er sárt að kveðja. Fyrir nokkrum dögum sendir þú mér svona líka fallegt myndskeið af undursamlegu blómi í fullum blóma. Hunangsflugur börðust um blómið fagra og blómið gaf með sér. Þér mætti líkja við blómið, þú ert (ég kýs að tala um þig í nútíð) líkt og blómið stór og glæsilegur, gullfallegur og góðhjartaður. Þitt gullna hjarta er þinn helsti kostur að mér finnst. Árlega, þegar ég á afmæli, kemur þú í afmæliskaffi til mín. Það þykir mér vænt um. Það er erfitt að hugsa til þess að þú komir ekki í ár. En þótt þú komir ekki veit ég að þú verður með mér og fjölskyldunni í anda, sem og á öðrum stærri dögum. Þú hefur nefnilega alltaf hugsað vel um þitt fólk. Gott dæmi um það er mín mikilvægasta og kærasta minning af þér, sem er símtalið sem við áttum fyrr í sumar. Þú hringdir einfaldlega til að athuga hvernig ég hefði það og segja mér hve vænt þér þætti um mig. Þá minningu þykir mér ofboðslega vænt um. Ég veit að ég tala fyrir hönd fleiri en mín þegar ég segi að þín verði sárt saknað. Ég veit líka að líf þitt var ekki alltaf dans á rósum. Þannig að í stað þess að syrgja ætla ég að reyna að fagna því að hafa kynnst þér og vona að þér líði betur á þeim stað sem þú ert kominn á.

Þú sem ferð

ferð aldrei allur

Hverju sinni

skilur þú eitthvað eftir

Hluta af þér – í mér

(Sverrir Páll Erlendsson)

Ég mun aldrei gleyma þér. Þú ert mér afar kær. Uppáhalds frændi minn. Uppáhalds.

Þín,

Jóna Marín.