[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Plastnotkun í tengslum við vörur kjöt- og grænmetisbænda hefur farið minnkandi síðustu ár og mun minnka enn frekar á næstu árum.

Baksvið

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

Plastnotkun í tengslum við vörur kjöt- og grænmetisbænda hefur farið minnkandi síðustu ár og mun minnka enn frekar á næstu árum. Talið er að með aðgerðum síðustu ára hafi tekist að minnka plastnotkun um hundruð tonna sé horft til nokkurra ára.

Kristín Linda Sveinsdóttir, markaðsstjóri hjá Íslensku grænmeti sem er sölufélag garðyrkjumanna, segir að frekari breytingar séu í farvatninu sem miða að því að pakka fjölda vara á vegum grænmetisbænda í jarðgeranlegar umbúðir. Frá árinu 2002 hefur Íslensku grænmeti tekist að minnka plastnotkun hjá sér um 60% og eru aðgerðirnar nú liður í því að gera fyrirtækið nær plastlaust. „Þegar við byrjuðum í þessu þá voru plastpakkar og filmur í raun það eina sem var í boði. Við höfum síðan síðustu ár verið að reyna að minnka þessar umbúðir eins og við getum en þær eru auðvitað hafðar þarna til að verja vöruna. Það sem við erum að gera núna er að skipta út öllum plastglösum sem geyma tómata og smágúrkur. Þess utan munu kirsuberjatómatar og jarðarber fara yfir í jarðgeranlegar umbúðir,“ segir Kristín og bætir við að fyrirtækið sé nú að skoða filmur gerðar úr jarðgeranlegu efni. Að því loknu sé næst á dagskrá að pakka íslenskum kartöflum inn í umbúðir gerðar úr jarðgeranlegu efni, en umbúðir utan um kartöflur hafa að mestu verið óbreyttar síðustu ár. „Við erum að vona að við getum verið farin af stað með það verkefni í haust. Við munum þá setja kartöflurnar í filmu og net sem gerð eru úr jarðgeranlegu efni. Með því verður hægt að sjá kartöflurnar frá ýmsum hliðum en það er gríðarlega mikilvægt,“ segir Kristín.

Spurð um hvers vegna grænmetið eigi að sjást frá ýmsum hliðum segir hún það vera að fenginni reynslu. Kristín segir að áður en fram komu pakkningar úr jarðgeranlegu efni hafi Íslenskt grænmeti gert tilraunir með pappaöskjur undir grænmeti. Að sögn Kristínar féllu umbúðirnar ekki í kramið hjá neytendum. „Fólk er vant því að geta skoðað vöruna frá nokkrum sjónarhornum en í þessum umbúðum sá það einungis efsta lagið. Salan hríðféll í kjölfarið og við þurftum að breyta þessu á nýjan leik,“ segir Kristín.

Umhverfisvænni kjötumbúðir

Svipaðar breytingar er varða plastnotkun hafa verið upp á teningnum hjá Ferskum kjötvörum, kjötvörukeðju Haga, en þar hefur plastnotkun minnkað umtalsvert síðustu ár. Með nýjustu aðgerðum fyrirtækisins er ráðgert að plastnotkun á vegum fyrirtækisins minnki um 30 tonn á ári.

Jónas Guðmundsson, gæðastjóri Ferskra kjötvara, segir að plastbökkum undir vörur íslenskra bænda hafi á undanförnum misserum verið skipt út fyrir pappaspjöld. „Við erum auðvitað eins og allir aðrir að reyna að draga úr notkun á plasti. Til að gera það höfum við notast við pappaspjöld sem innihalda um 70% minna af plasti en var í gömlu plastbökkunum. Pappaspjaldið er síðan með plastfilmu yfir sem hægt er að rífa af þegar komið er að því að flokka en þetta er allt saman endurvinnanlegt,“ segir Jónas og bætir við að auk þess að vera umhverfisvænni umbúðir dragi pappaspjaldið úr matarsóun, en geymsluþol kjöts lengist um nokkra daga með notkun pappaspjaldsins.