Þorsteinn Ingólfsson fæddist í Reykjavík 9. desember 1944 og ólst þar upp.

Foreldrar Þorsteins voru Ingólfur Þorsteinsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík, og Helga Ingveldur Guðmundsdóttir, húsfreyja. Bræður Þorsteins eru: Þorsteinn f. 9. febrúar 1927, d. 20. ágúst 1935; Guðmundur Ármann, f. 28. apríl 1929, d. 13. ágúst 1987 og Örn Brynþór, f. 8. ágúst 1937.

Hann stundaði nám við Verzlunarskólann og Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist sem Cand.juris vorið 1971 með fyrstu einkunn.

Á námsárum sínum starfaði hann sem fulltrúi hjá Almenna bókafélaginu og sem stundakennari við Flensborgarskólann í Hafnarfirði og við Verzlunarskóla Íslands.

Eftir útskrift hóf hann störf sem fulltrúi í utanríkisráðuneytinu þar sem hann starfaði til vorsins 2015. Hans upphaflegu störf í ráðuneytinu lutu m.a. að málefnum Sameinuðu þjóðanna. Síðan starfaði hann sem sendiráðsritari og sendiráðunautur við sendiráðið í Washington frá 1973. Árið 1978 varð hann yfirmaður almennu rekstrardeildar ráðuneytisins og skipaður sendifulltrúi 1981. Hann var skipaður sendiherra í utanríkisþjónustunni 1987 og varð sama ár skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu. Hann var formaður varnarmálanefndar og bar ábyrgð á samskiptum við varnarliðið. Jafnframt hafði hann yfirumsjón með allri stjórnsýslu og starfsemi Íslendinga og íslenskra fyrirtækja á varnarsvæðum. Hann tók við starfi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins í febrúar 1990 og gegndi því starfi út apríl 1994. Erlendis voru sendiherrastörf hans fyrst og fremst á sviði alþjóðamála. Hann var varafastafulltrúi hjá EFTA og alþjóðastofnunum í Genf 1985 og fastafulltrúi 1987. Þá var hann tvívegis fastafulltrúi Íslands hjá NATO, ráði Atlantshafsbandalagsins í Brussel, 1994-1998 og aftur 2008-2013. Á árabilinu 2003-2006 gegndi hann stöðu aðalfulltrúa Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í stjórn Alþjóðabankans í Washington og var jafnframt yfirmaður skrifstofu þessara ríkja hjá bankanum. Árið 2013 varð Þorsteinn aðalfulltrúi Íslands í Norðurskautsráðinu og lauk starfsferli sínum í því starfi árið 2015.

Þorsteinn skilur eftir sig eiginkonu, Hólmfríði Sólveigu Kofoed-Hansen, en þau giftust þann 21. apríl 1994 eftir nokkurra ára sambúð.

Þá skilur Þorsteinn eftir sig tvö börn úr fyrra hjónabandi, en hann var giftur Guðrúnu Valdísi Ragnarsdóttur á árabilinu 1967-1986. Börn þeirra eru 1) Ingólfur, tölvunarfræðingur, m. Þorbjörg Kristinsdóttir. Ingólfur á þrjú börn, Söru Maríu, Sindra Má og Sunnu Maríu. 2) Hanna Valdís, viðskiptafræðingur, m. Sheer El-Showk og eiga þau tvö börn, Kyran Tor og Ísól.

Börn Hólmfríðar úr fyrra hjónabandi eru Hallveig Fróðadóttir, Ragna Fróðadóttir, Björn Fróðason, m. Lovísa V. Bryngeirsdóttir, og Hólmfríður Fróðadóttir. Þá á Hólmfríður þrjú barnabörn og sex barnabarnabörn.

Útför Þorsteins fer fram frá Fossvogskirkju í dag, miðvikudaginn 1. ágúst, kl. 15.

Elsku pabbi fór alltof snemma. Ég vildi að hann hefði ekki farið svona snöggt og án fyrirvara en það er huggun í að hann fór á þann hátt sem hann sjálfur hefði kosið, án veikinda og sjúkrahúslegu.

Hann var afar gæfusamur í sínu lífi, hann átti góða fjölskyldu og vini og naut mikillar velgengni á sínum starfsframa. Líf hans einkenndist af fjölbreytileika, spennandi áskorunum í starfi og upplifunum en fjölskyldan var honum ávallt mikilvægust.

Ég hefði ekki getað átt betri pabba og er þakklát fyrir að hafa fengið að vera dóttir hans. Hann setti velferð mína og bróður míns ætíð í forgang. Við bjuggum í gegnum árin oft sitt í hvoru landinu en nutum þeim mun meira þeirra stunda sem við áttum saman þegar við hittumst. Ég á sérstaklega góðar minningar frá helgum sem við áttum saman í Brussel og einnig frá þeim tíma sem pabbi og Fríða voru í New York. Við áttum líka góðar stundir um jól og í sumarfríum saman á Íslandi.

Samband okkar pabba var mjög sterkt og náið og þó svo það gætu liðið margir dagar án þess að við ættum samskipti þá var hann alltaf með mér í huganum. Ég er þakklát fyrir þetta sterka samband núna þegar hann er ekki lengur hér því mér finnst hann enn vera með mér og styðja mig í gegnum þennan erfiða tíma og ég veit að hann heldur áfram að passa upp á mig og mína fjölskyldu.

Pabbi átti fimm barnabörn og hefði eignast tvö til viðbótar á næstu mánuðum. Hann naut þess að verja tíma með þeim og þau sakna hans mikið. Ég vildi að börnin mín tvö hefðu fengið að kynnast honum betur og að ófædd dóttir mín hefði fengið að hitta hann.

Elsku pabbi, ég veit að þú ert á góðum stað og að þér líður vel. Takk fyrir að hafa verið með mér og allt það sem þú gafst mér og heldur áfram að gefa mér. Ég sakna þín svo mikið en þú lifir áfram sterkt í minningunni.

Hanna Valdís

Þorsteinsdóttir.

Í dag kveðjum við kæran föðurbróður. Andlát hans bar brátt að og kom okkur í opna skjöldu. Aðeins nokkrum dögum áður áttum við innihaldsríkar samræður á heimili hans um lífið og tilveruna, um afa og ömmu og æsku þeirra bræðra. Hann rifjaði upp minningar af Bergþórugötunni þar sem hann bjó sem barn og svo þegar hann og skólafélagar hans úr Versló hjálpuðu til við steypuvinnu í nýbyggingunni í Skipholti 60. Hann ræddi um árin er hann var við laganám í HÍ og ók um á VW bjöllunni, fyrstu íbúðarkaupin í Hafnarfirði og hvernig það kom svo til að hann hóf störf í utanríkisþjónustunni. Þetta var ómetanleg stund sem við áttum með honum við eldhúsborðið í Kópavogstúni og engan grunaði að væri okkar síðasta stund með honum. Steini frændi hefur verið hluti af lífi okkar alla tíð. Fjölskyldutengslin eru sterk og hafa föðurbræður okkar systra, Steini og Addi, skipað þar stóran sess ekki hvað síst eftir að faðir okkar dó langt fyrir aldur fram árið 1987. Við gátum alltaf treyst á Steina og vissum að hann bar hag okkar fyrir brjósti. Það var traust hönd sem leiddi yngstu systurina upp að altarinu og þétt var faðmlag hans þegar mamma dó. Þannig var Steini klettur í okkar lífi og mildur og hlýr þegar svo bar undir. Við töluðum oft um það hvað hann sýndi okkur mikla virðingu og hlýhug og erum þakklátar fyrir að hann skyldi gefa sér tíma til að taka þátt í ýmsum viðburðum í lífi okkar systra.

Vegna starfa sinna bjó hann langdvölum erlendis og fengum við höfðinglegar móttökur hjá honum og Fríðu beggja vegna Atlantshafsins. Það voru einstaklega skemmtilegar samverustundir og ekki vantaði að Fríða þekkti vel inn á frænkurnar úr Keflavík og voru þau bæði sérlega góðir gestgjafar. Þá rakti Steini gjarnan úr okkur systrum garnirnar um hagi og tengsl okkar systra. Með árunum líktist hann pabba meira og var samband þeirra bræðra náið.

Steini var mikill fjölskyldumaður og stoltur af börnunum sínum. Um fram allt lagði hann sig fram um og lagði á það áherslu að við legðum rækt við fjölskyldutengslin. Það er sorglegt til þessa að hugsa að hann muni missa af tveimur nýjum afkomendum sem fæðast eiga innan skamms og hann sagði okkur eftirvæntingafullur frá.

Með virðingu og þökk fyrir allt kveðjum við kæran frænda.

Helga Margrét, Inga Lóa, Bryndís, Guðrún Birna og Guðbjörg Fríða.

Þorsteinn tengdist okkur fjölskylduböndum þegar þau Fríða hófu sambúð fyrir rúmum aldarfjórðungi. Fyrstu kynni voru þó mun eldri og þá rifjast upp háskólaárin í lok sjöunda áratugarins þegar Þorsteinn var í forystusveit lýðræðissinnaðra stúdenta. Hann naut þar óskoraðrar virðingar sakir gáfna og rökfestu en einnig hógværðar og umburðarlyndis, auk þess var maðurinn fjallmyndarlegur og hafði sterka nærveru. Sú hugsun varð því áleitin að manni með þessa eiginleika hlytu að standa dyrnar opnar til áhrifa í íslensku þjóðlífi stæði hugur hans til þess. Þetta var fyrir tíma prófkjöranna en með þeim urðu aðrir eiginleikar áhrifameiri til að ryðja mönnum braut til áhrifa. Hvort það réð eða annað þá ákvað Þorsteinn strax að námi loknu að ganga til liðs við utanríkisþjónustuna. Aðrir geta betur fjallað um störf hans á þeim vettvangi en fyrir okkur sem fylgdust með honum af hliðarlínunni var eftirtektarverk að sjá að honum virtist jafnan skipað til verka hjá mikilvægustu bandalagsþjóðum Íslands eða þeim öflugustu alþjóðastofnunum sem landið á aðild að. Að auki gegndi Þorsteinn lengi starfi ráðuneytisstjóra þegar hann var á heimaslóðum. Það virtist því skipta litlu máli fyrir starfsframa hans hvernig pólitískir vindar á Íslandi blésu hverju sinni eða hver var ráðherra málaflokksins.

Það var því ánægjulegt að endurnýja kynnin við Þorstein sem mág og svila. Eflaust hefur það orðið honum umhugsunarefni að koma inn í stóra fjölskyldu þar sem margir töluðu hátt og hratt og á nokkuð ólíkari hátt en yfirveguð og róleg framsetning hans. Þorsteinn hélt ótrauður sínu striki og smátt og smátt lærðist okkur að meta að verðleikum hans fróðlega og vandaða innlegg til umræðuefnisins.

Við hjónin áttum þess kost að heimsækja hann og Fríðu meðan þau störfuðu erlendis og sérstaklega minnumst við með þakklæti heimsókna til þeirra í Brussel og New York. Þau voru afar gestrisin og að loknum löngum vinnudegi óþreytandi við að kynna fyrir okkur borgirnar og nánasta umhverfi. Þá er sérlega eftirminnileg dagstund þegar Þorsteinn bauð okkur í heimsókn á vinnustað sinn hjá Sameinuðu þjóðunum og sýndi okkur og fræddi um hvern krók og kima í þeirri mögnuðu byggingu.

Þegar leið að því að Þorsteinn léti af störfum fluttu þau heim frá Brussel og komu sér upp fallegu heimili í Kópavogi. Þau nutu þess að hafa stóran afkomendahóp sinn nálægt sér og mikil gleði fylgdi væntanlegri fjölgun þar en Ingólfur og Hanna Valdís eiga bæði von á barni.

Við hjónin, dætur okkar og fjölskyldur þeirra þökkum Þorsteini samfylgdina og vottum aðstandendum hans samúð.

Björg og Þórður.

„Farðu og náðu þér í Mastersgráðu og komdu svo og talaðu við mig“ sagði Þorsteinn Ingólfsson þáverandi ráðuneytisstjóri við mig haustið 1991 þegar ég, nýútskrifuð með BA próf, hafði sótt um starf háskólamenntaðs fulltrúa í utanríkisráðuneytinu. Valið stóð á milli mín og tveggja annarra umsækjenda sem báðir höfðu það umfram mig að hafa lokið meistaraprófi. Ég tók hann á orðinu og „lærði til sendiherra“, eins og hann orðaði það við mig síðar, en greip í tómt að námi loknu þar sem hann var þá farinn utan sem sendiherra.

Við Þorsteinn höfðum gaman að því að rifja þessi fyrstu kynni okkar upp þegar við hittumst og hann bað mig margfalt afsökunar á að hafa ekki staðið við sinn hluta samningsins. Hann sagði mér að auðvitað hefði hann helst viljað ráða mig í starfið hér um árið, en ég þakkaði honum hins vegar kærlega fyrir að hafa ekki gert það og stuðlað þar með að því að ég sótti mér frekari menntun. Örlögin höguðu því svo þannig að leiðir okkar lágu mikið saman síðar í gegnum okkar störf og með okkur tókst góð vinátta. Við fundum tengingar bæði til Keflavíkur og í Litlagerði sem treysti vináttu okkar enn frekar.

Þorsteinn var mér mikil fyrirmynd og lærifaðir. Ég leitaði reglulega til hans um upplýsingar og ráð, sérstaklega þegar ég var komin á þing og var nefndarmaður í utanríkismálanefnd og í Íslandsdeild NATO þingsins. Hann var alltaf til taks og reiðubúinn til að aðstoða mig í hvívetna, hvatti mig áfram og studdi.

Gestrisni þeirra hjóna var einstök og var ég svo lánsöm að njóta hennar á heimilum þeirra, beggja vegna Atlantshafsins. Ég votta Fríðu og fjölskyldunni allri mína innilegustu samúð, missir þeirra er mikill.

Þorsteinn Ingólfsson var sannkallaður heiðursmaður. Blessuð sé minning hans.

Ragnheiður Elín

Árnadóttir.

Vinátta okkar Þorsteins hófst í lagadeild fyrir hartnær 53 árum. Örlög höguðu því svo til að við urðum stuttu síðar samstarfsmenn í utanríkisþjónustunni í fjóra áratugi, og það sem meira er fetuðum í fótspor hvor annars í allmörgum störfum.

Það fór því ekki hjá því að ég öðlaðist góða innsýn í margvíslega eiginleika vinar míns. Hann var afar vel greindur og hafði þann einstaka hæfileika að geta á einfaldan en vel afmarkaðan hátt komið að kjarna hvers máls. Hans naut því vel við úrlausn flókinna verkefna.

Þorsteinn var gegnheill og traustverður einstaklingur með rólega en einbeitta framkomu sem vakti tiltrú hjá innlendum sem erlendum viðsemjendum. Öll störf hans endurspegluðu þennan eiginleika. En iðulega brá fyrir glettni í brosi og augnatilliti og stutt var í gamansemi þegar við átti.

Utanríkisþjónusta okkar er fámenn sveit kvenna og karla samanborið við nágrannaþjóðir okkar. Hagsmunir okkar sem sjálfstæð þjóð eru hins vegar oftar en ekki samofnir hagsmunum og gildum þessara ríkja. Það er því nauðsyn að stefnumótun, afstaða og framkoma okkar beri þess merki að við getum haldið hlut okkar í samfélagi þjóðanna þrátt fyrir fámenni. Að eiga fulltrúa sem Þorstein er skýrði og varði hagsmuni Íslands af kostgæfni og elju var því ómetanlegt. Enda voru honum iðulega falin hin vandasömustu störf af utanríkisráðherrum og yfirmönnum. Hann vakti alls staðar á hinum langa og árangursríka starfsferli traust í störfum sínum sem ráðuneytisstjóri, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá EFTA, NATÓ, Sameinuðu þjóðunum og Norðurskautsráðinu.

Með miklum söknuði kveðjum við góðan vin og flytjum Hólmfríði og börnum hans, Ingólfi og Hönnu Valdísi, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðný Aðalsteinsdóttir og Sverrir Haukur Gunnlaugsson.

Það var haustið 1959 sem við Steini hittumst fyrst þegar við byrjuðum í 1. bekk A í Versló. Ekki man ég mikið eftir því. Báðir vorum við á kafi í íþróttum – hann einn af betri sundmönnum okkar og ég að reyna að koma bolta ofan í körfu hjá KR. Að vera með hærri mönnum hjálpaði sjálfsagt okkur báðum í þessum íþróttagreinum.

Milli okkar myndaðist smám saman traust og góð vinátta sem átti eftir að endast á meðan hann lifði.

Við höfðum báðir ánægju af söng og vorum virkir félagar í skólakór Versló. Og á góðum stundum þar fyrir utan var lagið oft tekið og ekkert gefið eftir.

Við stofnuðum spilaklúbb með Má og Óla B. bekkjarbræðrum okkar og nefndum hann Pípuklúbbinn.

Sameiginlegri skólagöngu lauk svo 1965 og héldum við bekkjarsystkinin í veglega menningar- og strandferð til ýmissa staða í Evrópu sem við höfðum safnað fyrir með rekstri verslunar í skólanum.

Þessi samhenti bekkur (VÍ´65) hefur haldið vel hópinn og hittst oft á ári og einnig ferðast saman innanlands sem utan.

Þá nutum við góðs af störfum Steina fyrir utanríkisþjónustuna og heimsóttum hann og Fríðu til Brussel.

Mikið samband var milli okkar Gullu og þeirra Valdísar, þáverandi eiginkonu hans. Minnumst við hjónin m.a. einstaklega ánægjulegrar ferðar til Mallorca með þeim áður en báðar fjölskyldurnar héldu utan vegna starfa erlendis.

Hjónaskilnaðir eru alltaf erfiðir en það var aðdáunarvert að fylgjast með hvernig Steini tók á þessu mótlæti. Var hann vakandi og sofandi yfir líðan barna sinna með umhyggju og ástúð sem aldrei hefur skort alla þeirra ævi eins og greinilega kemur fram í mannkostum þeirra.

Síðan kom Fríða til sögunnar. Ef einhver passaði inn í hinn krefjandi starfsvettvang Steina var það hún. Hún var svo sannarlega fædd í hlutverk „diplomatfrúar“ og naut sín í því hlutverki svo af henni geislaði. Var einstaklega ánægjulegt að heimsækja þau og fylgjast með hvað þau ræktuðu vel hlutverk sitt á erlendri grundu – báðum umhugað um að vera landi og þjóð til sóma.

Samverustundir okkar Gullu og þeirra voru ófáar og gefandi. Margsinnis hittumst við í sumarbústað okkar hjóna við Þingvallavatn. Þar naut Steini sín vel enda mikill áhugamaður um stangveiði. Vinir okkar, Óli B. heitinn og Hildur, voru oft með okkur og nutum við svo sannarlega hverrar stundar í góðum félagsskap hvers annars í fallegu umhverfi.

Steina höfum við hjónin þekkt mestan hluta ævi okkar og er hans sárt saknað. Við sendum Fríðu, Hönnu Valdísi, Ingólfi og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um góðan dreng verður okkur hjónum ávallt dýrmæt.

Gunnar M. Hansson.

Það hryggði mig mjög að heyra af óvæntu fráfalli góðs vinar og starfsbróður. Þorsteinn Ingólfsson naut trausts og virðingar hvar sem hann bar niður í leik og starfi eins og langur og farsæll starferill hans ber glöggt vitni. Honum voru ítrekað falin einna veigamestu trúnaðarstörfin sem við er að fást í íslenskri utanríkisþjónustu þar sem reyndi mjög á diplómatíska hæfileika hans. Hann var góður samstarfsmaður og félagi sem átti alltaf ráð undir hverju rifi. Þorsteinn var einfaldlega einn af okkar bestu diplómötum sem byggði upp traust og persónuleg tengsl við starfsbræður og -systur og aðra samstarfsmenn víða um heim á langri starfsævi.

Við Dóra bjuggum í næstu götu við Fríðu og Þorstein í Brussel á síðari hluta síðasta áratugar, þar sem við báðir gegndum stöðu sendiherra, hann gagnvart NATO og ég gagnvart ESB, Belgíu o.fl. Töluverður samgangur var milli okkar. Á ýmsu gekk á þessum árum, ekki síst í Evrópumálum. Þá reyndist Þorsteinn haukur minn í horni. Hann var óspar á góð ráð og hvatningarorð, traustur, djúphugull og yfirvegaður. Milli Dóru og Fríðu tókst líka sérlega góður vinskapur. Við komum alltaf ríkari frá samfundum með þeim.

Þorsteinn hafði góða nærveru, þægilegur og sposkur. Hann var nærgætinn í samskiptum og jafnframt örlátur á hrós og hvatningu ef hann taldi samstarfsfólk sitt eiga það inni. Hann hafði mikla trú á yngri kynslóðinni og hafði orð á því hversu mannauður þjónustunnar færi stöðugt vaxandi.

Að leiðarlokum viljum við Dóra þakka Þorsteini fyrir vináttuna og samferðina. Fríðu, börnunum og aðstandendum öllum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minning um góðan dreng lifir.

Stefán Haukur Jóhannesson.