Tónlistartvíeyki Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson höfðu verið samstarfsfólk í tónlistinni í 12 ár áður en þau rugluðu saman reytum fyrir fimm árum.
Tónlistartvíeyki Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson höfðu verið samstarfsfólk í tónlistinni í 12 ár áður en þau rugluðu saman reytum fyrir fimm árum. — Morgunblaðið/Eggert
Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is „Við verðum með eitthvað af nýju efni í bland við eldra.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

„Við verðum með eitthvað af nýju efni í bland við eldra. Þú getur bara sagt að við ætlum að fagna sumrinu með fjölbreyttu lagavali,“ svarar Ólöf Arnalds þegar hún er spurð hvaða tónlistarkræsingar þau Skúli Sverrisson bassaleikari ætli að bera á borð fyrir gesti Norræna hússins kl. 21 í kvöld. Förum ekki nánar út í sálminn um íslenska sumarið 2018. Líklega eru þeir einir sáttir sem fá tækifæri að sjá til sólar eins og reyndar Ólöf og Skúli þegar þau halda tónleika á Spáni síðsumars.

En áður og næst á dagskrá hjá þeim eru fyrrnefndir tónleikar í tónleikaröð Norræna hússins á miðvikudagskvöldum í sumar og eru þeir sjöundu í röðinni.

„Gestir hússins geta búist við upplifun fullri af tónlistarlegum töfrum,“ fullyrða tónleikahaldarar um tónleika þeirra Ólafar og Skúla. Sjálf er Ólöf er svolítið hófstilltari i lýsingum sínum, en lofar samt góðri og heimilislegri stemmningu. „Þetta verða innilegir tónleikar,“ segir hún brosandi.

Hvor með sinn ómþýða stíl

„Ætli við leikum ekki svona tólf til fimmtán lög, bæði eftir hvort okkar um sig, kannski þó ívið fleiri eftir mig, og einnig lög sem við höfum samið í sameiningu. Við erum mjög spennt að fá tækifæri til að spila í Norræna húsinu, sem er frábær tónleikastaður með góðan hljómburð og gott andrúmsloft.“

Spurð hver sé helsti munurinn á lögum eftir hana og hann, segir Ólöf að þótt þau séu hvort með sinn stílinn eigi lög beggja það sameiginlegt að vera frekar ómþýð. „En ef til vill er flóknari hljómræna í lögum Skúla,“ bætir hún við.

Auk þess að syngja spilar Ólöf á fjölda hljóðfæra og hyggst hún draga tvö þeirra fram úr pússi sínu í kvöld; gítar og charango, sem er suður-amerískt strengjahljóðfæri. „Ólöf Arnalds semur dásamleg, persónuleg lög sem hún syngur með einstakri rödd sinni,“ segir í tilkynningu frá Norræna húsinu. Og þau orð eru höfð um Skúla að hann sé uppátektarsamur bassaleikari og magnað tónskáld. Aðspurð segir Ólöf að Skúli láti henni sönginn eftir eins og endranær og ekki sé á döfinni að hann taki undir með henni.

Bæði eiga farsælan tónlistarferil að baki. Ólöf hefur gefið út fjórar plötur, sem allar hafa fengið lof og prís gagnrýnenda og hefur m.a. samið lag með Björk. Skúli hefur starfað með þekktu tónlistarfólki eins og Lou Reed og Laurie Andersson og gefið út plötur með frumsömdu efni, m.a. Seríu I og Seríu II.

Hæg heimatökin

Ólöf og Skúli höfðu verið samstarfsfólk í tónlistinni í tólf ár áður en þau rugluðu saman reytum fyrir fimm árum. „Við unnum saman að öllum plötunum mínum og seríu-plötum Skúla. Samstarfið varð þó óneitanlega nánara þegar við urðum par, enda hæg heimatökin,“ segir Ólöf og kveðst aðspurð ekki hafa hugmynd um hversu oft þau hafa komið fram saman á tónleikum. Undanfarin ár hafi þau til dæmis reglulega haldið tónleika í Menningarhúsinu Mengi, þar sem Skúli er listrænn stjórnandi og þau stofnuðu ásamt fleirum fyrir allnokkru síðan.

Músik fyrir kvöldverðargesti

Og spurð hvort ekki komi stundum upp listrænn ágreiningur svarar Ólöf neitandi og segir þau raunar vera alveg glettilega sammála.

Þessa dagana eru þau að semja tónverk fyrir pop-up veitingastað Ólafs Elíassonar, myndlistamanns, og systur hans, Viktoríu, kokks, í Marshall-húsinu, en systkinin munu reka staðinn tímabundið í tólf vikur frá og með 11. ágúst. „Við og/eða úrvalslið hljóðfæraleikara munum leika verkið einu sinni í viku í tólf vikur. Allt sem leikið er í salnum verður tekið upp og er meiningin að tónlistin verði sífellt flóknari og meira útsett með viku hverri. Úr þessu verður svo tónverk sem við munum nefna Music for Diners ,“ segir Ólöf að lokum.