Góð dæmi um fagleg vinnubrögð umkringja okkur en við tökum ekki oft eftir þeim vegna þess að það andstæða þeirra sem við tökum eftir, þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Góð dæmi um fagleg vinnubrögð umkringja okkur en við tökum ekki oft eftir þeim vegna þess að það andstæða þeirra sem við tökum eftir, þegar eitthvað fer úrskeiðis. Að undanförnu hefur ýmislegt farið úrskeiðis; hátíðarfundur, barnaverndarmál, skipun í landsrétt, skortur á húsnæði, fjármögnun samgangna, brestir í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Dæmin virðast vera mörg en sem betur fer eru þau samt hlutfallslega fá. Það sem skiptir meira máli er hversu alvarleg þau eru. Alvarlegu málin eru þau sem síst eiga að fara úrskeiðis.

Til þess að koma í veg fyrir mistök þá erum við fyrst með fjölda fagfólks sem getur komið að ákvarðanatöku og svo þónokkuð umfangsminna eftirlitskerfi sem fylgist með ákvarðanatökunni, að tekið hafi verið tillit til allra faglegra athugasemda, að lögum og reglum hafi verið fylgt og að varúðar hafi verið gætt. Eftirlitskerfið er bæði faglegt og pólitískt, stofnanir eins og ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis sinna faglegri greiningu á meðan pólitíska eftirlitið er viðameira þó það vakti aðallega að allar ákvarðanir séu í þágu allra landsmanna.

Það er hagur okkar allra að þessi kerfi virki sem best, að það sé hlustað á fagfólk og ábendingar eftirlitsaðila. Í landsréttarmálinu var til dæmis ekki hlustað á fagfólk og eftirlitsaðilar fengu ekki öll gögn málsins til skoðunar. Í húsnæðismálum er búið að vekja athygli á vandamálunum í langan tíma en viðbrögðin koma seint og virðast hvorki ná að rót vandans né til þeirra sem þurfa helst á aðstoð að halda.

Nokkur dæmi eru hins vegar sérstök, þar sem reynt er að koma í veg fyrir að eftirlitið geti sinnt sínu hlutverki. Í málunum um landsrétt, uppreist æru og barnaverndarstofu var gögnum haldið frá eftirlitsaðilum á fyrri stigum málsins. Í máli sem ég er enn að vinna í er enn verið að halda upplýsingum frá fjárlaganefnd. Nýlega fékk nefndin gagnapakka sem er byggður á beiðni: „óskað að ráðuneytið afhendi nefndinni öll gögn málsins“. Svarið var: „Varðandi gögn sem óskað er eftir hefur ráðuneytið tekið saman öll tiltæk gögn sem fyrir liggja í skjalasafni ráðuneytisins ... og sendast þau samhliða svari þessu“. Ég veit hins vegar um skjöl sem vantar í gagnapakkann sem fjárlaganefnd fékk. Ég bað um þessi gögn 22. apríl sl. Undir þá beiðni tóku nefndarmenn og skv. lögum ber ráðuneytinu að útvega gögnin. Ég ætlaði að fara yfir gögnin í sumar en það sem ég fékk var ekki það sem ég bað um.

Eftirlitskerfinu er vísvitandi, að mínu mati, haldið í skefjum. Þar bera þingmenn meirihlutans mesta ábyrgð enda skipa þau meirihluta allra nefnda. Hlutverk þeirra virðist hins vegar vera að spila vörn fyrir valdið; að stimpla, þegja og koma í veg fyrir virkt eftirlit. Eru það fagleg vinnubrögð? bjornlevi@althingi.is

Höfundur er þingmaður Pírata

Höf.: Björn Leví Gunnarsson