Unnur Haraldsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 27. október 1933. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þann 23. júlí 2018. Foreldrar hennar voru Haraldur Hannesson, f. 24. júní 1911, d. 11. maí 2000, og Elínborg Sigbjörnsdóttir, f. 3. september 1911, d. 11 ágúst 1995.

Systkini Unnar eru 1) Ásta, f. 28.11. 1934, hennar maður var Óskar Haraldsson, hann lést árið 1985. 2) Hannes, f. 4.10. 1938, giftur Magneu G. Magnúsdóttur, 3) Sigurbjörg, f. 2.10. 1939, d. 11.7. 1942. 4) Sigurbjörg, f. 1.10. 1945, gift Friðriki Má Sigurðssyni.

Unnur var gift Magnúsi Byron Jónssyni, f. 12. október 1932, d. 27. desember 2001. Börn þeirra eru: 1) Haraldur, f. 17. febrúar 1953, d. 24 október 2015, hann var giftur Sigurbjörgu Björnsdóttur, d. 1992, börn þeirra eru Unnur Ósk, Helga Björk og Magnús Már. Áður eignaðist Haraldur dótturina Unni, f. 1974, en hún lést níu mánaða gömul. 2) Ásthildur, f. 1958, gift Arne Holthe. Dætur þeirra eru Unnur Helen og Lilja Iren. 3) Sigurbjörg Magnea, f. 1966, gift Gunnari Hreinssyni, börn þeirra eru: Sunna Björt, Hreinn og Baldur. 4) Helena, f. 1976, unnusti hennar er Ólafur Gunnarsson hennar dætur eru Hildur María og Guðrún Unnur.

Barnabarnabörn Unnar eru 14 talsins og voru henni mjög kær.

Útför hennar fer fram frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ í dag, miðvikudaginn 1.ágúst 2018, og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag fylgjum við til grafar elskulegu mömmu okkar, tengdamömmu og ömmu sem núna er komin í sumarlandið til pabba, Halla bróður og annarra fallinna ástvina.

Við eigum svo margar góðar minningar, mamma, og munum við geyma þær í hjörtum okkar. Við erum þér þakklátar fyrir allt sem þú kenndir okkur og þú varst okkur fyrirmynd og klettur.

Elsku mamma. Með þessum fátæklegu orðum viljum við þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur og okkar fjölskyldu í gegnum tíðina. Hvíldu í friði. Við kveðjum þig með söknuði og látum fylgja með orð spámannsins sem þið pabbi bentuð okkur á að hafa að leiðarljósi í gegnum lífið.

„Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta. Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið. En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.“

(Khalil Gibran)

Ásthildur, Sigurbjörg (Sibba), Helena og

fjölskyldur þeirra.

Elsku amma.

Í dag kveðjum við þig hinstu kveðju. Það verður skrítið þegar við komum í Mosfellsbæinn næst að engin amma situr í stólnum sínum með prjónana sína. Við eigum svo margar fallegar og skemmtilegar minningar, hvort heldur er um samverustundirnar hjá þér í Mosfellsbænum eða þegar þú hefur verið hjá okkur í Noregi. Og þrátt fyrir veikindi þín komstu til okkar í maí sl. og við áttum yndislegar stundir saman. Þessum stundum munum við aldrei gleyma og við munum geyma þær í hjörtum okkar.

Hvíl í friði, elsku amma Unnur.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Unnur Helen, Lilja Iren, Sunna Björt, Hreinn,

Baldur og fjölskyldur.

Í áratugi hef ég átt dýrmæta vináttu Unnar Haraldsdóttur sem ég kveð nú með þakklæti, þakklæti fyrir allar gleðistundirnar en líka að fá að taka þátt í erfiðum stundum með þeim hjónum Unni og Magnúsi manni hennar en eiginmenn okkar eru nú báðir látnir. Við hjónin áttum frábærar stundir á heimili þeirra, þorrablót, lundaveislur og svo margt sem aldrei gleymist. Ferðalög innanlands og utan. Við tíndum ósköpin öll af berjum á Snæfellsnesi, tókum saman slátur og ekki síst prjónuðum við Unnur mikið saman. Við fórum líka nokkrar ferðir til útlanda með þeim hjónum. Stormuðum um Oxford Street, en við sigldum líka á fljótabát á Níl og sólbrunnum við Rauðahafið. Þau voru góðir ferðafélagar. Ógleymanleg var líka ferð okkar á æskustöðvar Unnar til Vestmannaeyja. Ég á mynd af okkur fjórum í sól og blæjalogni á Stórhöfða. Fjölskylda Unnar tók einstaklega vel á móti okkur þessa daga. Sterk dugmikil kona hefur kvatt en hún lét aldrei bugast og sterkust var hún á erfiðleikastundum. Þegar ég sat hjá Unni á líknardeild LSH fann ég hjá henni eingöngu ró, frið og æðruleysi. Áður fyrr þegar við sátum tvær einar með prjónana kom í ljós í spjalli okkar vissa hennar um hvað tæki við eftir dauðann. Enn er það ég sem þakka, þakka vinkonu minni fyrir að hafa átt trúnað hennar og vináttu öll þessi ár. Ástvinum hennar öllum votta ég mína dýpstu samúð og óska henni góðrar ferðar. Nú sigla himinfley þangað sem hún vissi að förinni væri heitið.

Okkur er öllum afmörkuð stund.

Hrafnhildur Jónasdóttir.