Seltjarnarnes Bæjaryfirvöld leita að starfsfólki á leikskóla bæjarins til að bregðast við mikilli barnafjölgun. Enn er leitað að starfsfólki í átta stöður.
Seltjarnarnes Bæjaryfirvöld leita að starfsfólki á leikskóla bæjarins til að bregðast við mikilli barnafjölgun. Enn er leitað að starfsfólki í átta stöður. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Foreldrar 30 nýrra leikskólabarna á Seltjarnarnesi hafa fengið bréf um að ekki sé unnt að dagsetja upphaf aðlögunar barnanna á Leikskóla Seltjarnarness.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Foreldrar 30 nýrra leikskólabarna á Seltjarnarnesi hafa fengið bréf um að ekki sé unnt að dagsetja upphaf aðlögunar barnanna á Leikskóla Seltjarnarness. Ljóst er að þau munu ekki hefja aðlögun fyrr en í fyrsta lagi um næstu mánaðamót vegna manneklu. 50 börn hefja aðlögun á leikskólanum á tilsettum tíma, hinn 7. ágúst. Alls bárust 80 umsóknir um leikskólapláss áður en umsóknarfrestur rann út 31. mars sl., þar af 20 í mars. 10 börn til viðbótar, sem fluttust á Seltjarnarnes í sumar, eru á biðlista eftir plássi á leikskólanum.

Samkvæmt upplýsingum frá Seltjarnarnesbæ hefur börnum á leikskólaaldri í bænum fjölgað úr 252 í febrúar á síðast ári í 283 í febrúar á þessu ári.

Foreldrar lýst yfir óánægju

Óánægju hefur gætt meðal foreldra barna á leikskólaaldri á Seltjarnarnesi vegna upplýsingagjafar bæjarins um upphaf aðlögunar á leikskólanum. Fram kemur í umræðu í hópi bæjarbúa á Facebook, að margir þeirra hafi treyst á að börn þeirra hefðu tryggð pláss á leikskólanum í haust eftir að bærinn sendi þeim bréf þar um 6. apríl sl. Sumir þeirra munu hafa sagt upp dagvistunarplássi og munu því þurfa að taka launalaust leyfi frá vinnu.

15. júní fengu foreldrar annað bréf þar sem fram kom að ekki væri unnt að gefa út nákvæma upphafsdagsetningu á leikskólaaðlögun hvers barns og dagsetningu á fyrirhuguðum kynningarfundi. Uppgefin ástæða var að ekki hefði tekist að manna deildir leikskólans.

Í fyrradag barst svo nýtt bréf þar sem það sama kom fram, en einnig að bráðabirgðahúsnæði fyrir nýjar deildir leikskólans yrði ekki tilbúið fyrr en um mánaðamótin ágúst/september.

Auglýst eftir fólki síðan í apríl

Baldur Pálsson, fræðslustjóri Seltjarnarnesbæjar, segir að börnum hafi fjölgað mjög í bænum síðastliðið ár og bæjaryfirvöld hafi haldið þeirri stefnu að börn fái leikskólapláss við 14 mánaða aldur. Afleiðingin sé sú að auka þurfi pláss fyrir starfsemina og ráða fleira starfsfólk. Þegar hafa átta starfsmenn verið ráðnir, bæði til þess að mæta starfsmannaveltu og fjölgun á leikskólanum. Átta stöður til viðbótar eru lausar á leikskólanum. „Við höfum auglýst eftir starfsfólki síðan í apríl og erum enn að, en okkur vantar enn talsvert upp á að við getum opnað og tekið inn allan hópinn. Við vinnum að því eins og okkur frekast er unnt að hraða inntöku þessara barna. Bæjaryfirvöld samþykktu í sumar viðbótarkjör til handa starfsfólki leikskóla, en það eru bara fáir sem sækja um störf í leikskólum. Við virðumst vera að líða fyrir það,“ segir hann.

Aðspurður segir Baldur að tafir á uppsetningu húsnæðis undir leikskólastarfsemina muni ekki einar og sér fresta inntöku barnanna. „Okkur vantar starfsfólk og þar stendur hnífurinn í kúnni. Húsnæðið verður komið upp undir lok ágústmánaðar, en við sjáum ekki fram á að verða komin með nægilega mikinn mannskap þá,“ segir hann.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, segir að bærinn hefði mátt upplýsa foreldra fyrr og betur um stöðu mála. Gera hefði átt fyrirvara um að börnin fengju inni á leikskólum bæjarins að því gefnu að búið yrði að manna stöðurnar. Hún nefnir að margar barnafjölskyldur hafi flutt á Nesið á skömmum tíma. „Þetta eru börn á öllum aldri, allt frá 14 mánaða og upp í fimm ára, það er fjölgun í öllum árgöngum. Við vonum að við náum að taka inn börn frá 14 mánaða aldri eins og við höfum gert síðastliðin fimm ár,“ segir hún.

Spurð hvort bæjaryfirvöldum hafi ekki gefist nægt ráðrúm til að upplýsa um stöðu mála þegar mesta fjölgunin varð í mars og 20 umsóknir um pláss bárust, segir hún að rétt hefði verið að upplýsa um stöðu mála strax í bréfinu í apríl. „Það verður að segjast eins og er að það var ekki gert, en það er auðvelt að vera vitur eftir á. Hefði ekki verið rétt að tilkynna strax í apríl, þegar fyrsta bréfið var sent út um að fólk fengi inni, að það væri háð því að það yrði búið að manna? Við vorum bjartsýn um að þetta myndi takast, en þetta er eitthvað sem hefði verið rétt að gera,“ segir hún.