Glíma Agla María Albertsdóttir reyndist erfið viðureignar í gær.
Glíma Agla María Albertsdóttir reyndist erfið viðureignar í gær. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kópavogur Hlíðarendi Selfoss Edda Garðarsdóttir Jóhann Ingi Hafþórsson Guðmundur Karl Á æfingasvæði einu í Katalóníu er lögð áhersla á að halda fast í það sem á að vera aðalatriði æfingarinnar.

Kópavogur

Hlíðarendi

Selfoss

Edda Garðarsdóttir

Jóhann Ingi Hafþórsson

Guðmundur Karl

Á æfingasvæði einu í Katalóníu er lögð áhersla á að halda fast í það sem á að vera aðalatriði æfingarinnar. Þegar sóknarleikur er tekinn fyrir, og áhersla lögð á að halda boltanum áður en ráðist er til atlögu við markið, er t.d. hægt að auka velgengni með því að hafa fleiri leikmenn í sóknarliðinu eða jafnvel að hafa svæðið stærra en ella. Þannig leit nágrannaslagurinn í Kópavoginum í Pepsi-deild kvenna út fyrsta hálftímann í gærkvöldi, þegar blikar mættu þreytulegu og stöðu liði HK/Víkings. Það var eins og Blikastúlkur væru með fleiri leikmenn inni á vellinum, þær voru hreyfanlegar, hraðar og skapandi, enda komnar í 4:0 eftir aðeins 21 mínútu. Mörkin sem litu dagsins ljós voru í öllum regnbogans litum. Berglind Björg skoraði þrennu, þar sem öll þrjú voru snyrtilega afgreidd markarefsmörk (rétt kona á réttum stað). Tvö marka Blika komu eftir frábærar hornspyrnur Öglu Maríu og síðasta markið kom eftir stutt spil í vítateig HK/Víkinga. Agla María var án efa langbesti maður vallarins í kvöld, hreint út sagt stórkostleg. Síðasta mark leiksins var í dýrari kantinum þegar Þórhildur átti firnafast skot af vítateigshorninu í bláhornið, og minnkaði muninn fyrir gestina. Blikar eru aftur komnir á toppinn, á meðan gestirnir þurfa að spýta í lófana.

Loksins vann Valur

Valskonur komust loks aftur á sigurbraut eftir fimm leiki án sigurs í bæði deild og bikar er Grindavík kom í heimsókn á Origo-völlinn. Lokatölur urðu 3:0 og hefðu Valskonur getað skorað fleiri mörk á meðan Grindavík fékk varla færi í leiknum. Það var ótrúlegt að staðan í leikhléi hafi verið markalaus, þar sem Valur fékk nokkur ákjósanleg marktækifæri, en illa tókst að koma boltanum fram hjá Viviane Holzel í marki Grindavíkur. Tvö mörk í upphafi síðari hálfleiks gerðu hins vegar eftirleikinn auðveldan. Það voru ansi margir sem spiluðu vel í liði Vals og er leikurinn með því besta sem Valskonur hafa sýnt í sumar. Það er hins vegar margt og mikið að hjá Grindavík, sem hefur nú aðeins unnið einn leik af síðustu átta og er liðið í miklum vandræðum í fallsæti. Með spilamennsku eins og í gær á Grindavík enga möguleika á að koma sér úr því. Rilany, besti leikmaður liðsins í sumar, yfirgaf herbúðir Grindavíkur og í fjarveru hennar hefur lítið gengið. Viðvörunarbjöllurnar eru byrjaðar að klingja hjá Grindavík.

Mörk breyta leikjum

Það hefur oft verið sagt að mörk breyti leikjum og það átti svo sannarlega við í gærkvöldi þegar Stjarnan kom í heimsókn á Selfoss. Leikurinn var í miklu jafnvægi þangað til Stjarnan komst yfir á 66. mínútu og í kjölfarið tóku gestirnir leikinn yfir og kláruðu af öryggi, 3:0.

Það hafa orðið miklar breytingar á leikmannahópi Selfoss síðustu daga þar sem háskólanemarnir í Bandaríkjunum eru flognir suður í hlýindin. Selfoss gerði fimm breytingar á byrjunarliðinu frá sigrinum gegn KR og þar komu reynsluminni leikmenn inn í flestum tilvikum. Þær stóðu sig þó með mikilli prýði, sérstaklega Þóra Jónsdóttir sem fékk erfitt hlutverk á miðsvæðinu.

Leikurinn breyttist með innkomu Þórdísar Hrannar Sigfúsdóttur á 61. mínútu. Fjórum mínútum síðar var hún búin að fiska vítaspyrnu sem Harpa Þorsteinsdóttir nýtti af öryggi. Þórdís var spræk á lokakaflanum þó að hún hafi ekki átt þátt í fleiri mörkum.

Eftir að hafa komist yfir færðist meiri ró yfir Stjörnukonur og þær kláruðu leikinn af öryggi. Harpa refsaði Selfyssingum fyrir mistök með öðru marki á 76. mínútu og það þriðja og síðasta kom úr mjög vafasamri vítaspyrnu á 84. mínútu þar sem Telma Hjaltalín fór á punktinn.