Margmenni Gæslufólk verður um 200 talsins á mestu álagstímum.
Margmenni Gæslufólk verður um 200 talsins á mestu álagstímum. — Morgunblaðið/Ófeigur
Teitur Gissurarson teitur@mbl.is „Undirbúningurinn er bara á pari við það sem við höfum gert undanfarin ár, má segja. Þó ætlum við að reyna að gera betur.

Teitur Gissurarson

teitur@mbl.is

„Undirbúningurinn er bara á pari við það sem við höfum gert undanfarin ár, má segja. Þó ætlum við að reyna að gera betur. Við ætlum að fjölga myndavélum og allt er gert til þess að auka öryggi gesta og þeirra sem eru í Dalnum,“ segir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, spurður um undirbúning lögreglu fyrir komandi verslunarmannahelgi.

„Við förum alltaf vel yfir þetta eftir hverja hátíð, hvað má betur fara og erum þá með auknar áherslur eins og við getum. Hluti af því er að fjölga þessum myndavélum í dalnum,“ segir Jóhannes.

Aðspurður hvort myndavélarnar, sem hann segir að sé dreift víða um Herjólfsdalinn á Þjóðhátíð, séu settar upp til að reyna að sporna gegn kynferðisafbrotum svarar Jóhannes: „Öllum afbrotum sem koma upp í dalnum. Þessar myndavélar hafa margsannað sig, sérstaklega gagnvart ofbeldisbrotum. Það hefur verið mikill kostur að bæta við vélum.“

Á mestu álagstímunum verður fjöldi gæslufólks um 200 talsins og lögreglumenn á svæðinu 28. Þá verða fíkniefnahundar lögreglunnar tveir til þrír, líkt og verið hefur síðustu ár.

„Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á þennan málaflokk og það verður ekki minna í ár en áður. Það eru lögreglumenn sem verða alveg eingöngu í fíkniefnaeftirliti.“

Vinnulag lögreglunnar í Vestmannaeyjum við miðlun upplýsinga verður eins og síðustu þrjú ár þar sem allar upplýsingar um verkefni lögreglu verða veittar um leið og búið er að tryggja rannsóknarhagsmuni og velferð mögulegra brotaþola, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni.