Afrek Ingólfur kemur í mark í Barðsneshlaupinu 2016. Að hlaupinu loknu er boðið upp á súpu fyrir hungraða hlaupara. „Það er alveg svakalega gott að hafa einhvern mat í boði, ekki bara prins póló og kók,“ segir Ingólfur.
Afrek Ingólfur kemur í mark í Barðsneshlaupinu 2016. Að hlaupinu loknu er boðið upp á súpu fyrir hungraða hlaupara. „Það er alveg svakalega gott að hafa einhvern mat í boði, ekki bara prins póló og kók,“ segir Ingólfur. — Ljósmynd/Barðsneshlaup
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Ingólfur Sveinsson geðlæknir og hlaupari er 79 ára en aldurinn er honum engin fyrirstaða. Hann hleypur í Barðsneshlaupi, 27 kílómetra víðavangshlaupi, næstkomandi laugardag í tuttugasta og annað sinn.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Ingólfur Sveinsson geðlæknir og hlaupari er 79 ára en aldurinn er honum engin fyrirstaða. Hann hleypur í Barðsneshlaupi, 27 kílómetra víðavangshlaupi, næstkomandi laugardag í tuttugasta og annað sinn. Hann hefur því tekið þátt í hlaupinu frá tilurð þess. Ingólfur er upphafsmaður hlaupsins en hann er alinn upp á Barðsnesi sem er við Norðfjörð.

„Allt fór í eyði á Barðsnesi árið 1955 og nú er bara eyðibyggð þar. Áður var þarna útgerðarstaður og smáþorp. Það var á tímum árabátanna og þá var praktískt að róa þaðan á sjó fremur en innan úr kaupstað. Þegar vélbátarnir komu breyttist allt,“ segir Ingólfur.

Í Barðsneshlaupinu er hlaupið um móa, mýrar, fjörur og tún. Til að byrja með eru keppendur ferjaðir með bát frá Hellisfirði yfir að Barðsnesi. Eftir bátsferðina tekur við hlaup um Viðfjörð, Hellisfjörð, Norðfjörð og lýkur hlaupinu í Neskaupstað. Vaða þarf Norðfjarðará á leiðinni. „Þetta eru kindagötur og hestagötur og þetta er misjafnlega fært,“ segir Ingólfur.

Oft taka um 50 manns þátt og þetta árið er fólk frá hinum ýmsu heimshornum skráð í hlaupið. „Það er einn skráður frá Spáni, tvö frá Mauritiusi og hjón frá Sviss,“ segir Ingólfur sem lætur sér ekki nægja að hlaupa Barðsneshlaupið heldur stefnir hann einnig á að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu.

„Ég hljóp í fyrsta skipti í Reykjavíkurmaraþoninu árið 1984 og hef alltaf verið með í þeim. Ég reikna með að taka þátt í ár ef ég kem óskaddaður úr Barðsneshlaupinu.“

Maraþonin sem Ingólfur hefur hlaupið eru orðin allnokkur. „Já, þau eru víst ein þrjátíu. Svo hef ég hlaupið Laugaveginn sjö sinnum og sitthvað fleira.“ Náttúruhlaup eins og Barðsneshlaupið eru í uppáhaldi hjá Ingólfi. „Það er svo gaman að skoða landið á þennan hátt og Ísland er ofboðslega flott land.“

Hann segir hlaup mikilvæg fyrir samfélagið. „Það skiptir miklu máli að það séu til svona hlaup og að það fyrirfinnist sú menning að hreyfa sig, skokka og hafa gaman af því. Það breytir heilu bæjunum þegar hlauparar eru úti að skokka þar sem annars myndi ekki sjást sála.“

Að lokum hvetur Ingólfur fólk til að drífa sig austur og taka þátt í Barðsneshlaupinu.