Strætó Talsverður munur er á verðlagi strætókorta á landsbyggðinni.
Strætó Talsverður munur er á verðlagi strætókorta á landsbyggðinni. — Morgunblaðið/Ófeigur
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Árskort í strætó frá Reykjavík til Grundarfjarðar kostar 720 þúsund krónur. Þetta kemur fram á heimasíðu Strætó. Til samanburðar kostar árskort í strætó frá Reykjavík til Stykkishólms 216 þúsund.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Árskort í strætó frá Reykjavík til Grundarfjarðar kostar 720 þúsund krónur. Þetta kemur fram á heimasíðu Strætó. Til samanburðar kostar árskort í strætó frá Reykjavík til Stykkishólms 216 þúsund. Þó munar ekki nema fimm kílómetrum á milli þessara leiða.

Upplýsinga- og markaðsfulltrúi Strætó, Guðmundur Heiðar Helgason, segir að skoða þurfi verðlagninguna á þessu svæði nánar. „Við þurfum að skoða þetta betur, þetta er auðvitað skrítið.“ Guðmundur segir upphæðina reiknaða eftir gjaldsvæðum, það kosti 9 miða að fara til Stykkishólms en 10 til Grundarfjarðar. Einungis munar um eitt gjaldsvæði á milli staðanna en 504 þúsund krónum munar á kortum til Stykkishólms og til Grundarfjarðar, frá Reykjavík. Mjög fáir kaupa kort frá Reykjavík til þessara staða, að sögn Guðmundar. „Ef það eru sérstök tilvik, t.d. einhver er að ferðast frá Húsavík til Akureyrar, þá reynum við að afgreiða það persónulega, í samráði við hlutaðeigandi eða landshlutasamtökin sem fjármagna þessar leiðir,“ segir Guðmundur.

Mun fleiri kaupa hins vegar árskort frá Reykjavík til Reykjanesbæjar eða Akraness, að sögn Guðmundar. Árskort í strætó til Reykjanesbæjar frá Reykjavík kostar 288 þúsund krónur en til Akraness 144 þúsund krónur. Þó munar einungis tæpum 7 kílómetrum á vegalengdum leiðanna, Reykjanesbær er í 48 km. fjarlægð frá Reykjavík en Akranes er 45 km. frá borginni. Verðmunurinn er því allmikill, ef miðað er við vegalengd.

Strætóferðir eru dýrari eftir því sem ferðast er yfir fleiri gjaldsvæði. Hver landshlutasamtök ákveða fjölda gjaldsvæða á sínu svæði en því fleiri gjaldsvæði sem ferðast er yfir, því dýrari verður ferðin.

„Við erum með fjögur gjaldsvæði. Við myndum gjarnan vilja hafa þau færri en kerfið krefst þessa kostnaðar,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Stjórnir landshlutasamtakanna hafa allar samþykkt að segja upp samningi við Vegagerðina um almenningssamgöngur á landsbyggðinni vegna rekstrarörðugleika. „Þetta hefur verið rekið með miklum fjárhagslegum halla. Það hafa ekki fylgt næg framlög frá ríkinu fyrir reksturinn. Samgöngurnar á landsbyggðinni verða þá komnar á hendi Vegagerðarinnar um næstu áramót,“ segir Berglind.