Þýðingar eiga þátt í að opna og jafnvel brúa menningarheima. Ýmsir rithöfundar, sem öðlast hafa heimsfrægð, ættu sýnu minni útbreiðslu að fagna ef engir væru þýðendurnir. En við fáum ekki bara þýddar bókmenntir.

Þýðingar eiga þátt í að opna og jafnvel brúa menningarheima. Ýmsir rithöfundar, sem öðlast hafa heimsfrægð, ættu sýnu minni útbreiðslu að fagna ef engir væru þýðendurnir. En við fáum ekki bara þýddar bókmenntir. Daglega dynja á okkur þýðingar, hvort sem það eru textar við sjónvarpsþætti eða þýðingar í fréttum, og allajafna gerum við ráð fyrir að rétt sé með farið.

Þýðandinn þarf að vera þaulkunnugur málinu, sem hann þýðir úr, en jafnvel enn kunnugri málinu, sem þýtt er á. „Upprunalegi textinn var ótrúr þýðingunni,“ sagði argentínski rithöfundurinn Jorge Luis Borges einhvern tímann. Þýðandinn þarf að ná merkingu upprunalega textans, en eigi þýðingin að vera læsileg er ekki hægt að þýða orð fyrir orð. „Þýðing er eins og kona,“ sagði rússneski rithöfundurinn Jevgení Jevtúsjenkó. „Ef hún er falleg er hún ekki trú. Ef hún er trú er hún ekki falleg.“

Stundum getur varðað þjóðaröryggi að rétt sé þýtt. Á sínum tíma var því haldið fram að Nikíta Krústsjov hefði sagt að Sovétríkin myndu „jarða“ Bandaríkin. Það hljómaði nokkuð ógnvænlega og gaf fullt tilefni til að vera á varðbergi og efla varnir. Þannig stóð þýðingin árum saman. Þegar betur var að gáð var merking orða Sovétleiðtogans víst að Sovétríkin myndu „lifa“ Bandaríkin og verður tóninn þá ekki jafn herskár og í fyrri þýðingunni.

Frægt er þegar haft var eftir Zhou Enlai, þáverandi forsætisráðherra Kína, að það væri of snemmt að segja til um áhrif frönsku byltingarinnar. Þetta var árið 1972 í heimsókn Richards Nixons Bandaríkjaforseta til Kína. Kínverski forsætisráðherrann mun hafa verið að vísa til stúdentaóeirðanna í París 1968, en sagan er það góð að óþarfi er að leiðrétta hana auk þess sem hún staðfestir fordóma um að kínverskir stjórnmálamenn hugsi lengra fram í tímann en kollegar þeirra annars staðar.