Þjóðhátíð Veðrið lék við Eyjamenn þegar þeir mættu í Herjólfsdal til þess að setja niður súlur fyrir hvítu tjöldin.
Þjóðhátíð Veðrið lék við Eyjamenn þegar þeir mættu í Herjólfsdal til þess að setja niður súlur fyrir hvítu tjöldin. — Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

„Það eru lang, langflestir mjög ánægðir með nýja fyrirkomulagið, en eins og gengur með nýja hluti þá eru alltaf smá hnökrar í byrjun,“ segir Jónas Guðbjörn Jónsson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar í Vestmannaeyjum, í samtali við Morgunblaðið.

Nýtt fyrirkomulag var við tjöldun í ár. Í stað þess að blásið yrði til kapphlaups um stæði fyrir hvítu tjöldin, eins og tíðkast hefur um langa tíð, ákvað þjóðhátíðarnefnd að úthluta tjaldstæðum í fyrsta sinn.

Nóg af stæðum fyrir hvít tjöld

„Það fengu allir að vita á sunnudaginn hvar þeim var úthlutað stæði og flestir voru sáttir við úthlutunina. Í stað þess að allir kæmu á sama tíma til þess að setja niður tjaldsúlurnar þá var byrjað síðdegis á þriðjudag að setja niður súlur á Reimslóð, Þórsgötu og Týsgötu klukkan 17 og endað á efri byggð og klettum klukkan 21. Þeir sem ekki áttu pantað komu klukkan hálftíu til þess að velja sér stæði sem nóg var af,“ segir Jónas og bendir á að búslóðaflutningar í dalinn verði einungis heimilaðir á tveimur tímabilum á fimmtudag og fyrir hádegi á föstudag.

„Það voru allir rólegir í tjölduninni, engin örtröð eða læti. Fólk fór eftir leiðbeiningum varðandi tímasetningar og takmarkanir á fjölda bíla á svæðinu. Kapphlaupsfyrirkomulagið sem ríkti áður við tjöldun var ekki fyrir alla og sumir kviðu hreinlega fyrir því að tjalda. Fólk vill ekki lenda í leiðindum og pústrum,“ segir Jónas og bætir við að það hafi að vísu einn og einn haft það á orði að hann sakni látanna sem fylgdu kapphlaupunum um stæðin vinsælu.

„Okkur sýnist þjóðhátíðin í ár stefna í svipaða stærð og hún var í fyrra,“ segir Jónas sem var sáttur við nýja og hagstæðari veðurspá fyrir þjóðhátíðina.

Önnur nýjung verður á þjóðhátíðinni í ár að sögn Jónasar, en búið er að koma fyrir litlum gervigrasfótboltavelli fyrir krakka á flötinni við Hofið.

„Brottfluttir Eyjamenn eru farnir að sjást í bænum og það kæmi mér ekki á óvart að sjá fleiri þjóðhátíðargesti koma til Eyja á [miðvikudag],“ segir hann.