Hreyfing Margir gera sér ferð í sund í góðu veðri og sumir mæta daglega.
Hreyfing Margir gera sér ferð í sund í góðu veðri og sumir mæta daglega. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Axel Helgi Ívarsson axel@mbl.is Stakir aðgöngumiðar í sundlaugar landsins hafa hækkað nokkuð í verði á undanförnum árum og er stakt gjald í sundlaugum Reykjavíkurborgar 980 krónur fyrir fullorðna.

Axel Helgi Ívarsson

axel@mbl.is

Stakir aðgöngumiðar í sundlaugar landsins hafa hækkað nokkuð í verði á undanförnum árum og er stakt gjald í sundlaugum Reykjavíkurborgar 980 krónur fyrir fullorðna. Rekstarumhverfi sundlauga var afar erfitt á tímabili en breyting hefur þó orðið til hins betra á síðustu árum, segir Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri rekstrar og þjónustu hjá ÍTR, í samtali við Morgunblaðið.

„Reksturinn er mun betri en hann hafði verið, t.d. hefur hlutfall þekingar tekna aldrei verið hærra í ákveðnum laugum hjá okkur. Það eru laugar sem eru að fá mikið úr gjaldinu fyrir stakan sundmiða, sem hefur jú hækkað töluvert,“ segir Steinþór um rekstur síðustu ára.

Bendir Steinþór á að Vesturbæjarlaug, Laugardalslaug og Sundhöll Reykjavíkur eru dæmi um laugar sem eru afar vinsælar hjá erlendum ferðamönnum, sem greiða þá stakt gjald. „Við erum að fá meira út úr ferðamönnunum en áður,“ segir Steinþór. Fyrir þá sem hafa lengri viðkomu hér á landi eða eru almennt búsettir hér og fara reglulega í sund er töluvert ódýrara að kaupa kort, s.s. 10 eða 20 miða kort, eða árskort.

Reksturinn ekki niðurgreiddur

Hæsta verð á stökum aðgöngumiða í sund er í sundlaugina á Húsafelli, eða 1.300 krónur. Annar eigenda Ferðaþjónustunnar Húsafelli ehf., Hrefna Sigmarsdóttir, segir í samtali við Morgunblaðið að sundlaugin þar sé ekki niðurgreidd af sveitarfélaginu. Rekstur flestra sundlauga landsins er niðurgreiddur með útsvarstekjum sveitarfélaga.

Þá býðst sumarbústaðaeigendum á Húsafelli afsláttarkort í laugina en mest eru það útlendingar sem gera sér ferð í hana. „Við höfum ekki litið á sundlaugina sem eitthvert gróðafyrirtæki fjárhagslega. Hún er aðallega þarna til að styðja við staðinn og leyfa fólki að njóta þess að komast í heitt vatn,“ segir Hrefna.