N1 hefur hlotið heimild Samkeppniseftirlitsins til þess að ganga frá kaupum á Festi sem m.a. hefur í rekstri Krónuna, Nóatún og Elko.

N1 hefur hlotið heimild Samkeppniseftirlitsins til þess að ganga frá kaupum á Festi sem m.a. hefur í rekstri Krónuna, Nóatún og Elko. Með samþykki stofnunarinnar lýkur ríflega árs löngu þrátefli milli N1 og hennar um þau skilyrði sem fyrirtækinu er gert að undirgangast svo samruninn mætti verða að veruleika.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, segir í samtali við mbl.is að hann sé mjög sáttur við að hafa náð sátt við eftirlitið um þetta mál. „Þetta er mikill áfangi í þróun N1,“ segir hann og bætir við að nú verði hrundið af stað vinnu við að halda hluthafafundi í fyrirtækjunum um að sameina þau og gefa út hlutabréf í N1 sem er hluti af kaupverðinu.

Er þeim aðgerðum sem N1 skuldbindur sig til að grípa til í kjölfar samrunans skipt í sex þætti. Í fyrsta lagi hyggst N1 selja tilteknar eldsneytisstöðvar og vörumerkið „Dæluna“ til nýs aðila á þessum markaði. Þar skulu að lágmarki fylgja með í kaupunum 3 stöðvar Dælunnar og stöðvar N1 við Salaveg í Kópavogi og í Holtagörðum.

Í öðru lagi skuldbindur N1 sig til að selja verslunina Kjarval á Hellu í því skyni að „efla samkeppni utan höfuðborgarsvæðisins,“ eins og það er orðað í sáttinni. Í þriðja lagi skuldbindur N1 sig til að selja nýjum endurseljendum á markaði allar tegundir eldsneytis í heildsölu á viðskiptalegum grunni og að gæta jafnræðis og hlutlægni gagnvart þeim sem kaupa eldsneyti í heildsölu. Þá er N1 annar aðaleigandi Olíudreifingar og sem slíkt skuldbindur fyrirtækið sig til þess að grípa til aðgerða sem megi verða til að tryggja aðgengi seljenda að birgðarými og þjónustu fyrirtækisins.

Í fjórða lagi skuldbindur N1 sig til að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði sitt, m.a. með því að tryggja sérstaklega sjálfstæði stjórnar og lykilstarfsmanna og aðskilnað hagsmuna. Fyrirtækið mun setja sér samkeppnisáætlun. Þá mun Samkeppniseftirlitið eiga viðræður við stærstu hluthafa N1 sem einnig eiga hluti í samkeppnisaðilum fyrirtækisins, um mögulegar skuldbindingar þeirra og nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja samkeppni á þessum markaði. Samkvæmt sáttinni er það niðurstaða stofnunarinnar að eignarhaldið sem slíkt geti „leitt til röskunar á samkeppni og að bregðast verði við [...]“

Í fimmta lagi hyggst N1 bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin vegna samreksturs fyrirtækisins og Samkaupa á þjónustustöðvum á sex stöðum á landsbyggðinni. Verður samstarfið tekið til skoðunar og N1 hyggst tryggja að upplýsingar sem tengjast samstarfinu berist ekki til þeirra stjórnenda og starfsmanna N1 sem annast dagvöruverslun á vegum N1. Í sjötta lagi skuldbindur N1 sig til þess að fá óháðan kunnáttumann skipaðan til þess að fylgja eftir og hafa eftirlit með þeim aðgerðum og fyrirmælum sem kveðið er á um í sáttinni.

Léttir fyrir fjárfesta

Markaðurinn tók afar vel í tíðindin, sem bárust í gegnum tilkynningakerfi Kauphallar Íslands seint á mánudagskvöld. Þannig hækkuðu bréf N1 í viðskiptum gærdagsins um 11,5% í 568 milljóna króna viðskiptum. Áhrifanna gætti þó víðar. Þannig hækkuðu bréf Haga um 5,5% í 209 milljóna viðskiptum. Er það vísast rakið til þess að innan skamms verður tilkynnt hvort Samkeppniseftirlitið samþykki þau skilyrði sem Hagar hafa teflt fram vegna fyrirhugaðrar yfirtöku á Olís. ses@mbl.is