Skemmtilegur limruleikur hófst á Boðnarmiði með þessari limru Sigrúnar Haraldsdóttur: Hér segir af Sólmundi Breka er sigraði mörur og dreka hann bölvaði og hló en bugaðist þó er brúðan hans fór að leka.

Skemmtilegur limruleikur hófst á Boðnarmiði með þessari limru Sigrúnar Haraldsdóttur:

Hér segir af Sólmundi Breka

er sigraði mörur og dreka

hann bölvaði og hló

en bugaðist þó

er brúðan hans fór að leka.

Sigurlín Hermannsdóttir var með á nótunum:

Sólmundi sagði upp í hasti

hún Salka í geðvonskukasti

þótt hann væri sætur

nú syrgir um nætur

með elskhuga úr örtrefja-plasti.

Helgi Ingólfsson er praktískur:

Nú heyrist oft hósti og stuna

og hverfið er farið að gruna

að svo rosalegt plast,

sem rifnaði og brast,

ei rati í endurvinnsluna.

Magnús Geir Guðmundsson fylgdist vel með:

Þegar skurðsár skilnaðar greri

og Skúla bráðnaði freri,

sér fljótlega fann,

fríðleiks með sann

píu úr pleksigleri!

Hallmundur Guðmundsson yrkir. Það er skemmtilegt nýyrði í þriðju hendingunni, auðskilið og lyftir limrunni, – gerir hana lifandi:

Hann Guðvarður Skúla frá Skarði,

skundar oft fullur hjá garði.

Eitt -skund- honum hjá,

þá hinkraði smá,

og Þórhildi barnað' á barði.

Guðmundur Beck sagði þessa minna á aðra:

Hann elskar dalanna dís,

hún er draumfögur yndisleg skvís,

en það er einn galli

á Þórði frá Fjalli.

Það er ekkert lengur sem rís.

Þetta kallar auðvitað fram í hugann eina þekktustu limru Kristjáns Karlssonar:

„Skammist yðar, ó, skvísa“

mælti skakki turninn í Písa.

„Ég er einungis bákn

og alls ekkert tákn

um eitthvað sem vildi ekki rísa.“

Guðmundur Arnfinnsson yrkir:

„Allt er á hverfanda hveli,

æ, hvar er minn brennivínspeli?

hann léttir mér lund

á líðandi stund,“

segir hinn kófdrukkni Keli.

Magnús Halldórsson skrifaði í Boðnarmjöð á föstudag: „stíf austanátt með 22 stiga hita, hlýjasti dagur ársins, enn sem komið er“:

Í austri rísa tignir tveir,

tindar skrýddir höklum

og hitabólginn hnúkaþeyr,

hellist af þeim jöklum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is