Goðsögn Adrian Belew er gítarsnillingur í ham.
Goðsögn Adrian Belew er gítarsnillingur í ham.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hildur Loftsdóttir hilo@mbl.is Celebrating David Bowie heitir tónlistardagskrá sem ferðast hefur víða og er nú á leið til Íslands. Tónleikar verða haldnir í Eldborgarsal Hörpu 7. og 8.

Hildur Loftsdóttir

hilo@mbl.is

Celebrating David Bowie heitir tónlistardagskrá sem ferðast hefur víða og er nú á leið til Íslands. Tónleikar verða haldnir í Eldborgarsal Hörpu 7. og 8. október, og þar mun koma fram átta manna fjölþjóðlegt band auk íslenskra listamanna. Í bandinu eru meðal annarra gítarleikarinn goðsagnakenndi Adrian Belew, sem túraði tvisvar með Bowie, og Todd Rundgren gítarleikari, sem var á hátindi feril síns á sama tíma og Bowie og hefur verið mikill pródúsent síðustu ár. Einnig þeir Angelo Moore, saxófónleikari og söngvari í Fishbone, og Paul Dempsey, söngvari og gítarleikari áströlsku sveitarinnar Something for Kate.

Topptónlistarfólk fyrir Bowie

Angelo Bundini, hljómsveitarstjóri bandsins og einn af gítarleikurunum, skipulagði fyrstu tónleikana fyrir tveimur árum, mánuði eftir að Bowie féll frá.

„Ég er þekktur í Los Angeles fyrir að skipuleggja meiriháttar viðburði með stórum stjörnum, og það kom strax þrýstingur á mig að gera eitthvað vegna andláts Bowies. Ég hafði samband við tónlistarfólk sem hafði spilað með honum, og líka við leikarann Gary Oldman, sem vildi endilega gera eitthvað, en þeir Bowie voru vinir í 30 ár og töluðu saman á hverjum sunnudagsmorgni,“ segir Bundini, sem stóð fyrir fjögurra klukkustunda tónleikum í Roxy Theatre í Los Angeles og fékk til liðs við sig um 70 tónlistarmenn, sem komu og fóru af sviðinu.

„Strax daginn eftir voru tónleikarnir komnir á netið og ég var beðinn um að halda fleiri tónleika. Þannig vatt þetta upp á sig og nú erum við á leið til Íslands,“ segir Bundini.

„Þetta er algjört topptónlistarfólk, því Bowie á það skilið. Belew tekur aldrei þátt í neinu svona en var til í að vera með, því það er einstakt tækifæri að fá að spila þessi lög aftur, lög sem Bowie gerði að klassík og verða leikin í framtíðinni eins og aðrar frábærar tónsmíðar.“

Algerlega ólíkir tónleikar

Ethan Schwartz er annar skipuleggjenda tónleikanna.

„Ég er mikill aðdáandi hljómsveitarinnar Sigur Rósar og fyrir um tíu árum sá ég heimildarmyndina Heima . Mig hefur síðan þá alltaf langað að taka eitt af böndunum sem ég vinn með þangað, en það tókst aldrei fyrr en ég stakk upp á hugmyndinni við Bundini,“ segir Schwartz, sem vonast til að fólk komi utan úr heimi á tónleikana.

„Tónleikarnir verða haldnir á sama tíma og Yoko Ono lýsir upp friðarsúluna í Viðey, og fólk gæti haft áhuga á að sjá það og jafnvel norðurljósin. Þetta er algjörlega ótrúlegt land sem þið eigið.“

Schwartz segir ekki hlaupið að því að fá tónlistarfólk á borð við Todd Rundgren og Adrian Belew til að taka þátt, en þeir voru báðir mjög spenntir fyrir því að spila á Íslandi.

„Það verða tvennir tónleikar sem verða mjög ólíkir. Fyrra kvöldið verður þetta átta manna band, og síðan sama bandið kvöldið eftir ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og kór sem Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson stjórnar. Við Bundini vildum gera þessa tónleika ólíka öllu öðru sem við höfðum gert áður, og við höfðum samband við Þorvald Bjarna, sem tók vel í ósk okkar og hlutirnir gengu upp. Þannig að fyrra kvöldið verða rokk- og sálartónleikar, og á seinni tónleikunum verður einblínt meira á stórfenglegar lagasmíðar Bowies.“

- Þannig að maður verður að fara á báða tónleikana?

„Já, við vonum að fólk geri það. Þeir verða algerlega ólíkir og ættu að vera þess virði.“

Vilja vinna með Íslendingum

Bundini segir að allir fjórir aðalmennirnir skiptist á að syngja.

„Það er svolítið merkilegt að þeir eru allir með sama raddsvið og Bowie og þeir eru alveg frábærir. Rundgren og Belew hafa aldrei unnið saman áður og ætla nú að syngja lag saman sem Bowie og Belew sungu á sínum tíma saman um allan heim og Belew hefur aldrei sungið það síðan.“

Seinna kvöldið kemur fram fleira íslenskt tónlistarfólk en kórinn og sinfóníuhljómsveitin.

„Við viljum endilega vinna með innlendu listafólki. Það er öruggt með einn íslenskan tónlistarmann og við erum að tala við fleiri. Þetta verður aðalkvöldið og það verður ekkert smá! Það verða sum sömu lögin báða dagana en túlkuð á mjög misjafnan hátt, þannig verða tónleikarnir og upplifunin ólík. Líka fyrir tónlistarmennina, sem eru allir að gera þetta fyrir skemmtunina og tækifærið til að fá að vinna hver með öðrum,“ segir Angelo Bundini, sem hlakkar til að fylla Eldborg.