Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson
Kristján Jónsson kris@mbl.is Morgunblaðið hafði samband við Heimi Hallgrímsson, fráfarandi landsliðsþjálfara karla í knattspyrnu, í gær og spurði hann út í frétt sem birtist í svissneska blaðinu LaRegione.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Morgunblaðið hafði samband við Heimi Hallgrímsson, fráfarandi landsliðsþjálfara karla í knattspyrnu, í gær og spurði hann út í frétt sem birtist í svissneska blaðinu LaRegione. Þar var fullyrt að umboðsmaður Heimis hefði rætt við hið kunna svissneska félag Basel vegna þjálfarastöðu aðalliðsins.

„Ég get í raun ekki staðfest hvort fréttin sé nákvæm. Einhvern veginn hefur mitt nafn borið á góma og líklega hefur verið eitthvert samband á milli umboðsmannsins og félagsins. Ég myndi giska á það,“ sagði Heimir og bætti því við að hann væri „frekar afslappaður“ yfir gangi mála.

„Einhverjar hugmyndir hafa komið upp og einhverjum boltum kastað á milli,“ sagði Heimir spurður hvort hann hafi fundið fyrir áhuga að utan eftir að hann tilkynnti um þá ákvörðun sína að láta gott heita sem landsliðsþjálfari.

Heimir ítrekar að hans skoðun hafi ekki breyst, að hollt sé fyrir hann á þessum tímapunkti að taka sér tíma í að fræðast meira og fylgjast með fótboltanum hjá félagsliðum eftir að hafa verið í sjö ár í öðru umhverfi. „Ég held að best sé fyrir mig að bíða aðeins og sjá hvað kemur út úr næsta keppnistímabili en auðvitað er þessi heimur þannig að þú veist ekki hvað gerist. Eitthvað frábært gæti þess vegna verið í boði á morgun en ég er þeirrar skoðunar að það henti mér best að taka því rólega núna og skoða heiminn,“ sagði Heimir en umboðsskrifstofa í Þýskalandi sér um hans mál og hefur þá samband ef félög sýna honum frekari áhuga.

Basel, sem Birkir Bjarnason lék með um tíma, sagði þjálfaranum Raphael Wicky upp störfum á dögunum. Alexander Frei, sem skoraði fyrir Basel á KR-vellinum sumarið 2009, stýrir liði Basel tímabundið.