Er nú loksins komið að því að markamet Péturs Péturssonar frá 1978 verði slegið og einhver nái að skora 20 mörk í efstu deild karla í fótbolta hér á landi?
Er nú loksins komið að því að markamet Péturs Péturssonar frá 1978 verði slegið og einhver nái að skora 20 mörk í efstu deild karla í fótbolta hér á landi?

Enginn hefur í seinni tíð gert sig eins líklegan til að slá metið og Hilmar Árni Halldórsson úr Stjörnunni gerir nú. Eftir að hafa skorað tvö mörk gegn Víkingi á sunnudaginn er hann kominn með 15 mörk og er fjórum frá því að jafna metið.

Fjórir leikmenn hafa jafnað met Péturs og Andri Rúnar Bjarnason varð síðastur til þess í fyrra þegar hann skoraði 19 mörk fyrir Grindvíkinga. Hálfgerð álög hafa þó virst vera á þeim sem hafa jafnað metið og verið með 20. markið í sigtinu.

Guðmundur Torfason hafði 120 mínútur til þess eftir að hafa jafnað það árið 1986 en náði ekki að bæta við marki fyrir Fram.

Þórður Guðjónsson fékk 140 mínútur til að gera 20. markið og átti skot í báðar stangirnar í lokaleik ÍA árið 1993.

Tryggvi Guðmundsson hafði reyndar ekki nema hálftíma eftir að hafa gert 19. mark sitt fyrir ÍBV árið 1997.

Andri Rúnar Bjarnason klúðraði vítaspyrnu í lokaleik Grindavíkur í fyrra, áður en hann jafnaði metið undir lok leiksins í síðustu umferðinni.

Hilmar Árni hefur átta leiki til stefnu og eins og Stjarnan spilar þessa dagana eru bæði liðið og hann líkleg til að halda áfram að skora slatta af mörkum.

Sjálfur er hann jarðbundinn og yfirvegaður og segir liðsfélagana spá meira í þetta met en hann sjálfur. En nú verður fylgst með hverju hans skrefi og skoti!