Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Þrátt fyrir fögur fyrirheit um kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga eftir fund Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kims Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu í júní virðast Norður-Kóreumenn enn vera að smíða langdrægar eldflaugar. Frá þessu er sagt á fréttavef Reuters og BBC .

Eftir fund Trumps og Kims í Singapúr í júní lýsti Trump því yfir að engin kjarnorkuógn stafaði lengur af Norður-Kóreu. Með skoðun gervihnattarmynda af Norður-Kóreu hafa bandarískar eftirlitsstofnanir hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að enn sé virk starfsemi í eldflaugaverksmiðjum landsins. Sanumdong-verksmiðjan, sem mynduð var, framleiddi Hwasong-15, fyrstu norður-kóresku eldflaugina sem vitað er að gæti dregið til Bandaríkjanna.

Vökvadrifnar eldflaugar

Að sögn Washington Post virðast Norður-Kóreumenn vera að smíða vökvadrifnar langdrægar eldflaugar í verksmiðjunni. Í samtali við fréttamann Reuters tilkynnti embættismaður Bandaríkjastjórnar hins vegar að framleiðsla á slíkum elflaugum væri ekki verulegt áhyggjuefni þar sem of langan tíma tæki að fylla þær af eldsneyti miðað við eldflaugar sem ganga fyrir eldsneyti í föstu formi.

Þótt verksmiðjan virðist enn vera í fullum gangi eru Norður-Kóreumenn enn í friðarviðræðum við nágranna sína í suðri. Fulltrúar Norður- og Suður-Kóreu hittust í þorpinu Panmunjom í gær til að draga úr spennu í samskiptum ríkjanna.

Ekki lengur ógn?
» Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í síðustu viku að Norður-Kóreumenn væru enn að framleiða eldsneyti fyrir kjarnorkusprengjur.
» Þótt Sanumdong-verksmiðjan sé starfræk hafa Norður-Kóreumenn rifið niður skotpalla í samræmi við loforð.