Skorar Elías Már Ómarsson fagnar einu marka sinna fyrir Gautaborg en hann er einn af markahæstu mönnum sænsku úrvalsdeildarinnar.
Skorar Elías Már Ómarsson fagnar einu marka sinna fyrir Gautaborg en hann er einn af markahæstu mönnum sænsku úrvalsdeildarinnar. — Ljósmynd/IFK Gautaborg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svíþjóð Kristján Jónsson kris@mbl.is Elías Már Ómarsson, knattspyrnumaður frá Keflavík, var í fréttunum í Svíþjóð um liðna helgi og það af góðri ástæðu. Elías skoraði öll þrjú mörk IFK Gautaborgar í 3:0 sigri á Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni.

Svíþjóð

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Elías Már Ómarsson, knattspyrnumaður frá Keflavík, var í fréttunum í Svíþjóð um liðna helgi og það af góðri ástæðu. Elías skoraði öll þrjú mörk IFK Gautaborgar í 3:0 sigri á Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni. Þar er um fyrstu þrennu Elíasar að ræða í deildakeppni í meistaraflokki. „Já ég er það nú yfirleitt en kannski ennþá betri eftir síðasta leik,“ sagði Elías þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans og spurði hvort hann væri ekki laufléttur eftir atburði helgarinnar.

„Það er yfirleitt viss áfangi fyrir sóknarmenn að skora þrennu og hjá mér er þetta fyrsta þrennan í deildarleik. Ég hafði áður skorað þrennu í bikarleik gegn neðrideildarliði,“ sagði Elías sem er 22 ára gamall og er á sínu fjórða ári í atvinnumennskunni. Hann hélt ungur til Vålerenga frá Keflavík en fór yfir til Svíþjóðar og samdi við stórliðið í Gautaborg.

Spurður um hvort þrennan hafi vakið mikla athygli segir Elías það ekki vera sinn hátt að lesa um sig í blöðunum. „Ég bara veit það ekki. Ég geri voðalega lítið af því að lesa um mig á netinu eða skoða umfjöllunina um okkar leiki í blöðunum. Persónulega kippi ég mér ekki upp við þetta. Maður á stundum góða leiki eins og gengur og gerist og inn á milli á maður einnig slæma leiki. Ég þarf að einbeita mér að því að að pota inn fleiri mörkum.“

Stórveldi í 11. sæti

IFK Gautaborg á merka sögu í knattspyrnunni og telst til stærstu liðanna á Norðurlöndum. Ekki gengur þó of vel á þessu keppnistímabili því liðið er í 11. sæti og hefur tapað fleiri leikjum í deildinni en það hefur unnið.

„Þetta er lið sem á að vera á meðal þeirra fjögurra bestu í Svíþjóð að mínu mati og örugglega stuðningsmannanna líka. Maður veit hins vegar hvernig fótboltinn virkar. Hlutirnir ganga ekki alltaf upp. En það þýðir ekkert annað en að gera betur og við þurfum að fara að vinna leiki. Við erum með stóran og öflugan hóp stuðningsmanna sem eru með væntingar til liðsins. Þegar illa gengur þá heyrir maður í þeim en það heyrist ennþá meira í þeim þegar vel gengur. Það er í góðu lagi að þeir láti okkur heyra það þegar illa gengur því það getur rifið okkur upp,“ sagði Elías sem er þó í þeirri stöðu að geta verið sáttur við tímabilið hjá sér persónulega. Hann hefur skorað 8 mörk í deildinni eins og þrír aðrir leikmenn en einungis tveir leikmenn hafa skorað meira í deildinni á tímabilinu. Sá markahæsti hefur gert 10.

„Ég er þokkalega sáttur við mína frammistöðu en hefði þó viljað spila fleiri mínútur. Við erum hins vegar með góða einstaklinga í hópnum og eiga þeir allir skilið að spila þannig séð. Maður verður bara að taka því eins og maður og gera sitt besta þegar maður fær tækifæri.“

Dyr opnast ef vel gengur

Elías gerði langtímasamning við Gautaborgarliðið og rennur hann ekki út fyrr en árið 2020. Framtíð hans hjá félaginu kann þó að vera svolítið óljós. Miðað við umfjöllun í sænskum fjölmiðlum þá gæti félagið þurft að selja leikmenn og frammistaða Elíasar ætti að auka líkurnar á því að hann væri eftirsóttur.

„Draumurinn er auðvitað að spila í góðu liði í enn stærri deild en þeirri sænsku. Eins og staðan er í dag er ég leikmaður IFK Gautaborgar og ég er hérna til að bæta mig og hjálpa liðinu. Ef maður stendur sig vel þá opnast alltaf einhverjar dyr,“ sagði Elías Már við Morgunblaðið.