[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
14. umferð Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Stjarnan kvittaði fyrir tap fyrir KR í 13. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta með afar sannfærandi 4:0-útisigri á Víkingi í 14. umferðinni á sunnudaginn var.

14. umferð

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Stjarnan kvittaði fyrir tap fyrir KR í 13. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta með afar sannfærandi 4:0-útisigri á Víkingi í 14. umferðinni á sunnudaginn var. Valur gerði aðeins jafntefli við Fylki í fyrradag og minnkaði Stjarnan því muninn á toppi deildarinnar í eitt stig, Valur er með 29 stig og Stjarnan 28 stig.

Eyjólfur Héðinsson fékk 2 M frá Morgunblaðinu fyrir stórfína frammistöðu á móti Víkingi R. og er hann sá leikmaður sem er til umfjöllunar hjá Morgunblaðinu að lokinni 14. umferð Íslandsmótsins.

Eyjólfur var nýlentur í Kaupmannahöfn er Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær, en fram undan er síðari leikurinn við FC København í Evrópudeildinni á Parken annað kvöld. „Það er afar gott að koma til baka, ég var hérna í fimm ár og leið mjög vel,“ sagði Eyjólfur, en hann lék með SønderjyskE og Midtjylland í Danmörku áður en hann hélt í Stjörnuna.

Við keyrðum yfir þá

Hann var afar ánægður með frammistöðu Stjörnunnar í leiknum við Víking. „Þessi leikur var frábær frá fyrstu sekúndu til þeirrar síðustu. Það var góður andi í upphituninni og maður fann það strax að við vorum mjög tilbúnir. Þetta var ákveðinn prófsteinn á okkur að spila svona mikilvægan leik á milli Evrópuleikja. Það var smá þreyta í hópnum eftir FCK leikinn á fimmtudaginn, en við vorum rosalega ferskir og skoruðum eftir nokkrar sekúndur og gáfum þannig tóninn og keyrðum yfir þá. Þetta er vonandi það sem koma skal.“

Eyjólfur skoraði afar gott mark er hann kom Stjörnunni í 2:0 á 21.mínútu. Hann hamraði þá boltanum utan teigs í bláhornið niðri. „Það var rosalega gaman að ná að skora því ég hef verið í basli. Ég tognaði í læri í bikarkeppninni í byrjun júní og ég hef verið að koma til baka. Það var gott að eiga svona góðan leik og sérstaklega þegar liðið var að spila svona vel,“ sagði Eyjólfur. Stjarnan hefur ýmist spilað með einn eða tvo framherja í sumar og byrjar Eyjólfur oftar en ekki á varamannabekknum, ef Guðmundur Steinn Hafsteinsson byrjar í framlínunni með Guðjóni Baldvinssyni.

„Við meiddumst eiginlega á sama tíma og við höfum verið að koma til baka á sama tíma. Þetta hefur verið álagsstjórnun hjá okkur báðum. Við höfum farið rólega í sakirnar og skipt þessu á milli okkar, það mun vonandi gagnast liðinu seinna á leiktíðinni. Við erum að berjast á þrennum vígstöðvum og það er mikilvægt að allir séu klárir.“ Stjarnan er í undanúrslitum í bikarnum, í toppbaráttu í deildinni og svo í Evrópudeildinni og er Eyjólfur í góðu standi.

„Ég spilaði mínar fyrstu 90 mínútur í mjög langan tíma á móti Víkingi og mér líður mjög vel eftir leikinn. Það er góður fílingur í skrokknum.“

Menn voru fastir í 2014

Stjarnan varð Íslandsmeistari árið 2014, tveimur árum áður en Eyjólfur kom til félagsins, og er það eini stóri bikarinn sem karlalið Stjörnunnar í fótbolta hefur unnið. Hann segir andann í Garðabænum öðruvísi í ár, en hin tvö árin sem hann hefur spilað með liðinu. Búið sé að leggja 2014 á hilluna og kominn tími á nýjan titil.

„Undanfarin tvö ár hefur markmiðið klárlega verið að gera atlögu að titlunum báðum. Það var enn meira sigurhugarfar árið 2017 heldur en 2016 og það hefur bara aukist í ár. Menn eru rosalega gíraðir og það er sigurhugarfar, bæði í leikjum og á æfingum. Þetta er líka í þjálfarateyminu og hjá stuðningsmönnum. Það er rosaleg löngun til að vinna eitthvað, enda langt síðan síðast. Fjögur ár eru of langur tími. Félagið hefur gott að því að vinna annan titil. Þegar ég kom fyrst var mikið talað um 2014, sem var glæsilegt ár fyrir félagið. Stjarnan varð Íslandsmeistari og komst langt í Evrópukeppni. Menn voru svolítið fastir í því, en núna er minna og minna talað um það. Félagið hefur gott af því að skapa nýjar minningar, vonandi er komið að því í ár. Það er löngun hjá öllum að taka það skref.“

Þegar átta leikjum er ólokið stefnir í afar spennandi toppbaráttu. Eins og áður hefur komið fram er Valur í toppsætinu með 29 stig, einu stigi meira en Stjarnan og Breiðablik. Ekki er hægt að afskrifa KR og FH sem eru fimm og sex stigum frá Valsmönnum.

„Þessi lið eiga nánast öll eftir að mætast innbyrðis og Breiðablik og KR mætast í næstu umferð og hugsanlega við og Valur líka, en þeim leik verður frestað ef annað liðið fer áfram í Evrópukeppninni. Þetta verður rosaleg barátta á milli allavega fjögurra liða og svo getur FH líka blandað sér í þetta. Það er ómögulegt að sjá fyrir hvað gerist, en við munum gera okkar besta,“ sagði hinn geðþekki Eyjólfur Héðinsson, miðjumaður Stjörnunnar.