Síðasti FIBA-leikurinn Sigmundur í Chemnitz í Þýskalandi á Evrópukeppni 20 ára karlalandsliða.
Síðasti FIBA-leikurinn Sigmundur í Chemnitz í Þýskalandi á Evrópukeppni 20 ára karlalandsliða.
Sigmundur Már Herbertsson körfuboltadómari á 50 ára afmæli í dag. Hann er einn af reynslumestu dómurum í íslenskum körfuknattleik og hefur 12 sinnum verið valinn dómari ársins.

Sigmundur Már Herbertsson körfuboltadómari á 50 ára afmæli í dag. Hann er einn af reynslumestu dómurum í íslenskum körfuknattleik og hefur 12 sinnum verið valinn dómari ársins. Hann hefur dæmt flesta leiki allra íslenskra dómara á erlendri grundu, en leikirnir eru alls 223 í 68 borgum víðsvegar í Evrópu. En nú er mál að linni því í reglum FIBA, Alþjóðakörfuknattleikssambandsins, segir að dómari megi ekki dæma eftir að fimmtugu hefur verið náð og er því ferli Sigmundar á alþjóðavettvangi því lokið.

„Það er ekkert aldurstakmark á Íslandi þannig að menn eru ekki lausir við mig þar. Ég held ótrauður áfram að dæma meðan ég hef heilsu og gaman af því.“

Sigmundur Már er Njarðvíkingur og spilaði körfubolta með Njarðvík í meistaraflokki en hætti ungur og tók dómarapróf á Íslandi 1994 og fékk alþjóðaréttindi 2003.„Hápunkturinn var í Ríga í Lettlandi þegar ég dæmdi í Evrópukeppni landsliða 2015. Keppnin var þá haldin í fjórum löndum, íslenska karlalandsliðið komst þá í fyrsta skipti á lokamót Evrópulandsliða og lék í Berlín, en ég dæmdi fjóra leiki sem voru i Ríga.“

Sigmundur er starfsmaður Njarðvíkurskóla og vinnur í sérdeild fyrir börn með hegðunarraskanir. „Þetta er bæði mjög skemmtilegt og krefjandi á sinn hátt,“ segir Sigmundur um samanburð á starfinu í skólanum og á körfuboltavellinum.

Áhugamál Sigmundar eru íþróttir af öllum toga. „Dómgæslan er lífsstíll þar sem dómarar þurfa að halda sér í formi og viðhalda faglegri þekkingu. Maður getur ekki farið í það af hálfum huga þegar maður ætlar að ná árangri. Eiginkonan og synirnir hafa alltaf staðið þétt við bakið á mér og hvatt mig áfram, án þeirra væri þetta ekki hægt.“

Eiginkona Sigmundar er Sigurbjörg Eydís Gunnarsdóttir, leikskólakennari á Gimli í Njarðvík. Synir þeirra eru Herbert Már, f. 1992, og Gunnar Már, f. 2001. „Við hjónin erum núna á Benidorm og í tilefni dagsins ætlum við út að borða í listamannaþorpinu Altea sem er hérna rétt hjá.“