Fundur Gerðardómur kom saman í gær vegna kjaradeilu ljósmæðra.
Fundur Gerðardómur kom saman í gær vegna kjaradeilu ljósmæðra. — Morgunblaðið/Hari
Hvorki Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, né Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, hafa verið kölluð á fund gerðardóms.

Hvorki Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, né Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, hafa verið kölluð á fund gerðardóms. Gunnar segist þó eiga von á að fulltrúar ríkisins verði kallaðir á fund nefndarinnar á allra næstu dögum og Katrín tekur í sama streng. Ljósmæður séu tilbúnar með gögn máli sínu til stuðnings.

Fyrsti fundur gerðardóms í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins var haldinn í húsnæði ríkissáttasemjara í gærmorgun, en gerðardómnum ber að úrskurða í seinasta lagi 1. september næstkomandi. Fulltrúar ljósmæðra og ríkisins eiga báðir rétt á því að gera gerðardómi grein fyrir sjónarmiðum sínum. Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari afhenti gerðardómnum kröfugerðir deiluaðila, og önnur gögn sem fyrir liggja í málinu í upphafi fundar en að öðru leyti hefur hún ekki aðkomu að störfum dómsins.

Gerðardómur sker úr um hver launakjör ljósmæðra skuli vera en hann skal við ákvarðanir sínar „hafa hliðsjón af kjörum og launaþróun þeirra sem sambærilegir geta talist í menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og, eftir atvikum, almennri þróun kjaramála hér á landi,“ að því er segir í samkomulagi sem samninganefndir ljósmæðra og ríkisins undirrituðu 21. júlí.

Í dómnum sitja þau Magnús Pétursson, fyrrverandi ríkissáttasemjari, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, og Bára Hildur Jóhannesdóttir, deildarstjóri mönnunar- og starfsumhverfisdeildar Landspítala og ljósmóðir.