Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

„Þetta var frábær fundur,“ sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltri Pírata, í samtali við Morgunblaðið og vísar í máli sínu til aukafundar borgarráðs Reykjavíkur sem haldinn var í gær, en fundarefnið var málefni heimilislausra.

Fjöldi heimilislausra í Reykjavík hefur aukist talsvert á milli ára. Aðspurð sagðist Sigurborg ekki hafa skýringu á þessari fjölgun, en kvaðst vera bjartsýn á að þær lausnir sem samþykktar voru á fundinum myndu skila tilsettum árangri. Þeim verður þó að líkindum ekki hrint í framkvæmd fyrr en á haustmánuðum.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar og formaður velferðarráðs borgarinnar, tók í svipaðan streng. Hún sagði fyrrverandi meirihluta í borginni hafa vitað af vandanum frá því í nóvember á síðasta ári. Þá sagði hún félagslegan vanda heimilislausra ekki verða leystan með húsnæði eingöngu.

„Það áhugaverða á fundinum var að meirihlutinn fékkst líklega í fyrsta skipti til að viðurkenna að það er brýnn húsnæðisvandi í Reykjavík,“ sagði Eyþór L. Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni.

Borgarráðsfundur
» Þeir sem stjórna eru í mikilli vörn, sagði oddviti Miðflokksins eftir fundinn.
» Verið er að velta vandanum á undan sér í stað þess að grípa til aðgerða strax, sagði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins.