Mótorhjólaskógar Félagar úr mótorhjólaklúbbum eru öflugir liðsmenn.
Mótorhjólaskógar Félagar úr mótorhjólaklúbbum eru öflugir liðsmenn. — Ljósmynd/Hrönn Guðmundsdóttir
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Erlendir sjálfboðaliðar hafa bæst í hóp þeirra sem vinna að gróðursetningu í Hekluskógaverkefninu, en það gengur út á endurheimt birkiskóga í nágrenni Heklu.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Erlendir sjálfboðaliðar hafa bæst í hóp þeirra sem vinna að gróðursetningu í Hekluskógaverkefninu, en það gengur út á endurheimt birkiskóga í nágrenni Heklu. Svæðið er eitt af þeim sem Landvernd býður erlendum gestum upp á að hlúa að í heimsókn hingað og vinna hópar á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Midgard að uppgræðslu. Þá vilja nemendahópar frá Bandaríkjunum einnig láta gott af sér leiða.

Hrönn Guðmundsdóttir, skógfræðingur og verkefnastjóri Hekluskóga, segir að þátttaka erlendra gesta sé góð viðbót við innlenda sjálfboðaliða, íþróttafélög, landeigendur og verktaka. „Þetta fer vaxandi og er spennandi. Hóparnir taka ekkert fyrir þetta og fyrir vikið getum við gert meira,“ segir hún.

Hópar Landverndar vinna að uppgræðslu og gróðursetningu á söndum sunnan við Þjófafoss og er það liður í verkefni Landverndar: Græðum landið . Svæði víðar á landinu eru undir í því verkefni.

300 þúsund hríslur

Í vor og sumar voru gróðursett rúmlega 300 þúsund birkitré á svæði Hekluskóga og jafnframt unnið að landgræðslu til að undirbúa jarðveginn fyrir skógrækt næstu ára. Hrönn segir að gróðursetning hafi farið seint af stað í vor, vegna rigningatíðarinnar. Henni hafi lokið í gær en eitthvað verði síðan gróðursett til viðbótar í haust. „Raunar hefur þetta verið fín tíð fyrir trjágróður. Rigningin gerði það að verkum að við gátum haldið áfram í júlí, en þá höfum við venjulega þurft að hætta vegna þurrka,“ segir Hrönn.

Litlar birkiplöntur eru gróðursettar í hnapp víðs vegar um starfssvæðið og er vonast til að birkið sái sér út frá þeim. Þetta er ellefta árið sem Hekluskógar starfa og eru elstu trén farin að bera fræ. Ekki er þó enn sjáanleg mikil sjálfsáning enda tekur Hrönn fram að það taki tíma fyrir fræin að koma aftur upp á yfirborðið. Nemandi við Landbúnaðarháskóla Íslands hyggst kanna útbreiðslu sjálfsáninga og segir Hrönn að áhugavert verði að sjá niðurstöðurnar.