Verðmæt Ein af fiðlunum sem Gagliano smíðaði. Þessi var seld á uppboði fyrir rúmar 20 milljónir kr.
Verðmæt Ein af fiðlunum sem Gagliano smíðaði. Þessi var seld á uppboði fyrir rúmar 20 milljónir kr. — Christie's
Á dögunum var stolið á heimili í Somerville í Massachusetts í Bandaríkjunum fiðlu sem metin er á meira en 200 þúsund dali, yfir 20 milljónir króna. Þjófurinn seldi hana daginn eftir veðlánara fyrir 50 dali, um 5.300 krónur.

Á dögunum var stolið á heimili í Somerville í Massachusetts í Bandaríkjunum fiðlu sem metin er á meira en 200 þúsund dali, yfir 20 milljónir króna. Þjófurinn seldi hana daginn eftir veðlánara fyrir 50 dali, um 5.300 krónur. Samkvæmt The New York Times hefur hljóðfærinu verðmæta verið skilað til eigandans.

Fiðlan var smíðuð á verkstæði Ferdinando Gagliano, eins afkastamesta og þekktasta fiðlusmiðsins í Napólíborg á Ítalíu á seinni hluta 18. aldar. Þjófurinn braust inn og stal fiðlunni ásamt öðru góssi – þar á meðal tveimur seðlaveskjum og tveimur myndavélum – meðan heimamenn sváfu.

Eigandi fiðlunnar mat fiðluna á um 100 þúsund dali, rúmar tíu milljónir króna, en vitnað er í sérfræðinga sem segja hana mun meira virði. Enda hafa hljóðfæri bestu hljóðfærasmiða fyrri alda hækkað mikið í verði og eru mörg hver í eigu fjárfestingarsjóða.

Fiðluhöndlarinn Christopher Reuning segir í samtali við The New York Times að það sé ekki óalgengt að stolin hljóðfæri séu seld veðlánurum fyrir afar lágt verð. „Það er ómögulegt að selja stolnar fiðlur. Margir telja þær vera gítara,“ segir hann.

Fiðlusmiðurinn Ferdinando Gagliano var af þriðju kynslóð merkra hljóðfærasmiða sem smíðuðu fiðlur í svokölluðum Napólístíl. Á þeim tíma var Napólí mikilvæg miðstöð menningar og lista á Ítalíu, þar sem ópera og tónlistarleikhús blómstruðu. Þegar frægð Gagliano-hljóðfæranna jókst hermdu smiðir víða eftir þeim. Á síðustu árum hafa tvær fiðlur smíðaðar af Ferdinando Gagliano verið seldar á uppboðum, fyrir um 22 og 24 milljónir króna.