Sjö systur Tölvumynd af skipunum sem Vard er að smíða fyrir Íslendinga, frá vinstri skip Gjögurs, Útgerðarfélags Akureyringa, Skinneyjar-Þinganess og Bergs-Hugins. Skipin eru öll væntanleg til landsins á næsta ári.
Sjö systur Tölvumynd af skipunum sem Vard er að smíða fyrir Íslendinga, frá vinstri skip Gjögurs, Útgerðarfélags Akureyringa, Skinneyjar-Þinganess og Bergs-Hugins. Skipin eru öll væntanleg til landsins á næsta ári.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Skrokkar fjögurra fiskiskipa sem norska skipasmíðastöðin Vard smíðar nú fyrir íslensk útgerðarfyrirtæki verða smíðaðir í Víetnam.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Skrokkar fjögurra fiskiskipa sem norska skipasmíðastöðin Vard smíðar nú fyrir íslensk útgerðarfyrirtæki verða smíðaðir í Víetnam. Fjögur íslensk útgerðarfyrirtæki undirrituðu í lok síðasta árs samninga við norska fyrirtækið um smíði sjö skipa. Tvö skip Bergs-Hugins og eitt skip fyrir Útgerðarfélag Akureyringa verða að öllu leyti smíðuð í Noregi, en skrokkar tveggja skipa Skinneyjar Þinganess og tveggja skipa Gjögurs verða smíðaðir í Víetnam.

Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri Skinneyjar-Þinganess, segir að Vard eigi stöðina í Víetnam og þetta eigi ekki að breyta neinu varðandi gæðakröfur og smíðasaminga. Fyrirhugað er að setja skrokkana fjóra um borð í flutningaskip og sigla með þá frá Víetnam til Noregs í byrjun næsta árs þar sem smíði skipanna verður lokið. Skipin á að afhenda hvert af öðru á næsta ári og er Skinney-Þinganes síðast í röðinni með afhendingu í árslok 2019.

Á heimasíðu Vard kemur fram að fyrirtækið rekur fimm skipasmíðastöðvar í Noregi, tvær í Rúmeníu, eina í Brasilíu og eina í Víetnam. Síðastnefnda stöðin er í Vung Tau, skammt frá Ho Chi Minh-borg, áður Saigon.

Samið við Micro um búnað

Allar eru systurnar sjö 29 metrar að lengd, 12 metrar á breidd og geta borið um 80 tonn af ísuðum fiski. Í skipunum verða tvær aðalvélar með tveimur skrúfum.

Samkvæmt upplýsingum Aðalsteins hafa Skinney-Þinganes og Gjögur samið við íslenska fyrirtækið Micro um smíði á vinnslubúnaði í nýju skipin. Micro annast hönnun, smíði og uppsetningu á vél- og hugbúnaðarhluta verkefnisins, en hugbúnaðurinn er unninn í samstarfi við Völku. Í framhaldi af komu skipanna til Íslands verður búnaðurinn settur um borð.